Týnda fréttin um ferðalag Beyoncé og Jay Z til Íslands: Fengu enga stjörnumeðferð í Laugarási

Beyoncé og Jay Z lentu á Íslandi 1. desember í fyrra og vakti koma þeirra mikla athygli. Þau dvöldu í lúxusbústaðnum The Trophy Lodge ásamt fylgdarliði og ferðuðust um landið í þyrlu.

Fjölskylda Jay Z lenti svo á Íslandi á afmælisdegi rapparans, fimmtudaginn 4. desember. Með í för var Blue Ivy, tveggja ára gömul dóttir þeirra hjóna. Þau fögnuðu afmæli rapparans um kvöldið.

Sjá einnig: Beyoncé birtir fullt af myndum frá Íslandi

Samkvæmt heimildum Nútímans varð Blue Ivy eitthvað slöpp á meðan hún dvaldi á Íslandi með foreldrum sínum. Haft var samband við heilsugæsluna í Laugarási og óskað eftir því að fá lækni í lúxusbústaðinn.

Ekkert alvarlegt amaði að stúlkunni og fengust þau svör að læknarnir færu ekki í heimavitjanir. Þeim væri hins vegar velkomið að koma með stúlkuna upp í Laugarás.

Reynt var að sannfæra viðkomandi um að fá lækni á svæðið á þeim forsendum að foreldrar stúlkunnar væru frægustu hjón heims, stórstjörnur á mælikvarða sem þekkist varla en allt kom fyrir ekki — engu máli skipti hverjir foreldrarnir voru.

Heimildir Nútímans herma að ákveðið hafi verið að fara með stúlkuna með þyrlu hjónanna til Reykjavíkur, þar sem læknir tók á móti henni.

Þetta virðist þó ekki hafa skyggt á upplifun Beyoncé og Jay Z af landi og þjóð miðað við stórskemmtilegar og hressandi myndir sem söngkonan birti skömmu eftir að þau héldu heim á leið.

Auglýsing

læk

Instagram