Svali tjáir sig um hryllinginn í æsku: „Ég get ekkert fallegt sagt“

Fjölmiðlamaðurinn og fararstjórinn Sigvaldi Kaldalóns, oftast kallaður Svali, stígur fram af miklu hugrekki og tjáir sig um þann hrylling í æsku sinni að hafa alist upp innan trúfélagsins Votta Jehóva. Báðar systur hans hafa einnig stigið fram og lýst hryllingnum.
Svali segir hreinlega ekkert fallegt getað sagt um söfnuðinn en fjölskylda hans var gerð brottræk þaðan þegar útvarpsmaðurinn var frekar ungur. Í færslu á Facebook kallar hann söfnuðinn hryllingssamtök. „Ég get ekkert fallegt sagt um söfnuðinn sem markaði alltof djúp spor í mitt fólk. Ég var til allrar lukku svo ungur að ég man lítið. En annað er að segja um systur mínar og svo auðvitað foreldra mína sem fengu mest að kenna á þessu. Við eigum ættingja þar í dag sem mér og okkur þykir vænt um og því gerir það dálítið erfitt að segja hlutina umbúðarlaust,“ segir Svali.
Þessu næst vísar Svali í frásögn systur sinnar og gerir orð hennar að sínum:
„Það er sannarlega stórt skref að stíga fram og lýsa því sem viðgengst innan Vottanna. Ég á yndslega ættingja þar sem mér þykir vænt um, en það er tími til kominn að fólk viti. Félagsleg útilokun er ljót í framkvæmd. En það er það sem þau sem hætta í söfnuðinum þurfa að lifa við. Fjölskyldum er einfaldlega sundrað, þær eyðilagðar. Ungmenni sem stígur aðeins út fyrir þráðbeinu örmjóu brautina sem boðuð er, er rekið úr söfnuðinum og enginn sem það þekkir innan safnaðarins má vera í sambandi. Ekki foreldrar, ekki systkini, ekki bestu vinir. Viðkomandi einstkaklingur stendur eftir aleinn og óstuddur. Fjölskyldunni er miskunnarlaust stíjað í sundur, og það í nafni trúarinnar! Í hvaða heimi er hægt að réttlæta það?
Í okkar tilfelli var það aðeins annað. Pabbi sagði sig úr söfnuðinum og var ákveðið að reka hann í kjölfarið. Þar með urðum við systkinin óvelkomnir leikfélagar barnanna í söfnuðinum, gætum jú haft slæm áhrif. Missirinn var mikill. Fjölskyldan hætti að geta heimsótt ömmurnar, allir sem við þekktum einfaldlega hurfu. Við systur gátum sem betur fer heimsótt okkar yndislegu ömmur en pabbi mátti ekki stíga inn fæti. Ef það gerðist, voru þær teknar á teppið af öldungum safnaðarins. Engin miskunn þar, þær voru sannarlega fórnarlömb líka.
Það var ólýsanlega sárt fyrir barn að upplifa það að pabbi manns skuli allt í einu vera álitinn illmenni, hættulegur í umgengni. Maður sem var og er heiðarlegasti og grandvarasti maður sem til er. En sú manneskja sem afsalar sér trú Vottanna er talin syndugri og hættulegri en stórglæpamenn sem ákveða að taka trúna.
Enginn á að geta tekið sér þetta vald, hvorki einstaklingur né hópur að bannfæra þá sem ekki hugsa „rétt“ og eyðileggja fjölskyldur og einstaklinga í kjölfarið. Enginn.“
Auglýsing

læk

Instagram