„Viltu ekki bara hætta að sofa hjá?“

„Ég er bara að sofa hjá mönnum sem ég þekki og treysti, Vera!“ sagði vinkona mín um daginn, frekar hneyksluð á því að ég skyldi spyrja hvort bólfélagarnir hennar notuðu ekki örugglega smokkinn. Einhvern veginn hafði ég haldið að við vinkonurnar værum komnar á þann aldur að það þyrfti enga fræðslu um kynsjúkdóma og varnir gegn þeim, en mér skjátlaðist greinilega.

Flestir kynsjúkdómar eru einkennalausir og mjög oft veit fólk ekkert af því að það sé með kynsjúkdóm þannig að það deilir honum bara áfram eins og ekkert sé. Ekki af illgirni, ætla ég alla vega að vona, heldur einfaldlega af því að það veit ekki af því að það er með hann. Það getur jafnvel verið búið að ganga með kynsjúkdóminn lengi áður en óværan uppgötvast. Þetta snýst þess vegna ekki um að vita, þekkja eða treysta.

Þetta er brot úr lengri grein sem aðgengileg er á vef Birtings.

Ekki slá þessu upp í kæruleysi

Ég hef oft og mörgum sinnum fengið að heyra það frá gaur að hann geti „ekki riðið með smokk“. Af hverju? Jú, af því að það er bara öðruvísi tilfinning, hann er með ofnæmi, hann getur einfaldlega ekki fengið það þegar hann notar smokk eða – og það fær mig alltaf til að hlæja – „hann er bara allt of stór fyrir smokk“. Akkúrat, eins og dæmin hafi ekki sýnt annað. Það þykir búið að sýna fram á það að færri og færri noti smokkinn. Oft séu það konurnar sem vilji nota smokk en karlarnir geri eitthvert mál úr því, þannig að hlutirnir verði skrýtnir og þess vegna hætti konur að spyrja því þær vilji ekki fæla gaurana frá.

Þótt smokkurinn veiti ekki 100% vörn og verji mann ekki gagnvart öllum kynsjúkdómum er hann samt mjög mikilvægur þáttur í heilbrigði okkar. Við getum auðvitað ekki látið óttann við kynsjúkdóma stjórna lífi okkar en við megum heldur ekki slá þessu upp í kæruleysi. Auðvitað væri best að eiga fastan bólfélaga, nota smokk og fara reglulega í tékk, þ.e. láta athuga hvort maður sé með einhverja óværu á borð við lekanda, klamidíu eða HIV. En fastur bólfélagi er ekki raunhæfur möguleiki hjá öllum þannig að þá koma smokkarnir og prófin sterk inn.

„Auðvitað væri best að eiga fastan bólfélaga, nota smokk og fara reglulega í tékk, þ.e. láta athuga hvort maður sé með einhverja óværu á borð við lekanda, klamidíu eða HIV.“

„Viltu ekki bara hætta að sofa hjá?“

Við sem erum eldri en tvævetra þegar kemur að stefnumótum, skyndikynnum og bólfélögum vitum að það er í raun engum hægt að treysta í þessum efnum. Eina sem við getum gert er að bera ábyrgð á okkur sjálfum, fara í próf, stunda eins öruggt kynlíf og hægt er OG auðvitað nota smokkinn. Gaurar sem eru ekki tilbúnir að nota smokk af einhverri ástæðu verða bara að eiga sig. Ég er alltaf með nokkra smokka í veskinu og læt vinkonur mínar hafa einn eða tvo alveg hægri vinstri þegar við förum út á lífið. Hann faðir minn sagði um daginn að kannski væri bara best fyrir mig að sleppa bara með öllu þessum bólferðum, með apabóluna í gangi og alla þessa menn sem ég hef verið að kvarta yfir við hann. „Viltu ekki bara hætta að sofa hjá?“ sagði hann eins og ekkert væri eðlilegra yfir sunnudagslærinu, en ég held nú ekki! Fyrr má nú rota en dauðrota!

 

Auglýsing

læk

Instagram