Eldri borgarar í skýjunum með Eðlukennslu á Seltjarnarnesi: „Ég kallaði þetta bara ídýfu“

Eldri borgarar á Seltjarnarnesi fengu sérstaka kennslustund í Eðlugerð í gær. Flestir höfðu gaman af og vinsælt var að fá sér kaffibolla með Eðlunni. Horfðu á myndband frá Eðlugerðinni hér fyrir ofan.

Um var að ræða mánaðarlegt eldriborgarakvöld hjá Ungmennaráði Seltjarnarness þar sem eldri borgurum er boðið að gera eitthvað skemmtilegt með unga fólkinu í bænum.

Sjá einnig: Sagan af uppruna Eðlunnar loksins afhjúpuð

Í þessum mánuði átti að vera vídeókvöld en þegar kom að kvöldinu þróaðist það út í kennslustund í eðlugerð. Erna Kristinsdóttir Kolbeins, nemandi í Eðlukennslu ungmennaráðs Seltjarnarness, segir í samtali við Nútímann að kennslan hafi verið reglulega skemmtileg þrátt fyrir að hún hafi reyndar prófað Eðluna áður.

„En ég kallaði þetta ekki eðlu. Ég kallaði þetta bara ídýfu, Mér finnst nafnið svolítið skrítið en þetta er eitthvað unglingamál — sem er allt í lagi.“ segir Erna sem fór í gegnum uppskriftina fyrir blaðamann.

Fyrst kemur venjulegur smurostur og svo ertu með tómatsalsa. Mér finnst best að hafa hana mild en það er líka hægt að hafa hana strong. Svo bætir maður á rifinn ost og bakar þetta í tíu til fimmtán mínútur. Þetta er mjög gott með snakki en mér finnst betra ef að sósan er ekki of sterk.

Erna segir aðra eldri borgara í hópnum hafa tekið þokkalega í eðluna. „Fáir þekktu þetta held ég en flestir höfðu nú bara gaman af,“ segir hún.

Erna vill þó vekja athygli á því góða starfi sem unga fólkið er að gera fyrir eldri borgara og hvetur fleiri til að mæta. „Við vorum nokkur sem mættum í gær, þó ekki nógu mörg því það er stórkostlegt að unga fólkið nenni að gera eitthvað fyrir og með okkur. Ég væri til í að sjá fleiri mæta til að þessi starfsemi geti haldið áfram,“ segir hún og bætir við: „Þetta er svona eins og ég segi við barnabörnin: Við lærum af ykkur og þið af okkur.“

Eva Kolbrún Kolbeins, barnabarn Ernu, sá meðal annarra um sýnikennsluna á eðlugerð í gær. Hún segir í samtali við Nútímann að tilviljun hafi ráðið því að Eðlugerðin hafi orðið fyrir valinu. „Hugmyndin var að hafa eðlu því þeim finnst svo gaman að hafa eitthvað sem er hipp og kúl hjá unga fólkinu,“ segir hún.

„Okkur datt í hug að skella okkur upp á svið og halda sýnikennslu um hvernig Eðla væri gerð, í hvaða röð þetta færi í eldfasta mótið og annað mikilvægt.“

Hún segir það hafa verið lítið mál að útskýra eðluna fyrir nemendunum. „Við sögðum þeim að þetta væri snakkídýfa og fórum svo aðeins að tala um hvaðan nafnið kæmi. Að þetta væri tengt við Steinda, sem væri grínisti — þau voru reyndar ekkert mikið að tengja við það hver Steindi er.“

Eva Kolbrún segir að nemendunum hafi öllum fundist eðlan góð, nema þegar þau lentu á svarta Doritos-snakkinu. Þá hafi bragðið orðið full sterkt.

„Það sem okkur krökkunum fannst samt skrítnast var að þeim fannst það fínasta mál að fá sér kaffi með Eðlunni. Þau voru komin með kaffibolla þegar við byrjuðum að borða og þeim fannst þetta voða fínt saman,“ segir Eva Kolbrún nokkuð hissa.

Henni þykir nokkuð líklegt að þau fari að bjóða barnabörnunum sínum upp á eðlu á næstunni. „Það var allavega umræða um það að þau gætu orðið voða vinsæl hjá barnabörnunum núna.“

Auglýsing

læk

Instagram