today-is-a-good-day

Ísmaðurinn Vilhjálmur Andri tók sjálfan sig í gegn fyrir 13 mánuðum: „Langaði ekkert að lifa lengur“

Vilhjálmur Andri Einarsson hætti að drekka og sneri svo við blaðinu fyrir 13 mánuðum og fór að stunda ísböð. Hann upplifði mikla verki eftir slys en hætti að taka lyfin, fór að hreyfa sig og fann sig svo í ísköldu vatninu. Í dag er hann Íslandsmeistari í ísbaði en leiðin að titlinum var ansi mögnuð. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.

Vilhjálmur lenti ungur í slysi og upplifði í kjölfarið mikla verki. Hann byrjaði að drekka og gat að eigin sögn gert allan andskotann þegar hann fékk sér í glas. „Og þegar ég drakk ekki var ég með skap dauðans. Svo liðu bara árin,“ segir hann.

Ég er eiginlega bara nýfæddur. Ég er 13 mánaða, við vorum að fara yfir það um daginn, ég og vinir mínir. Það eru 13 mánuðir síðan ég fann mig.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Heimir Bjarnason, framleiðandi Nútímans, fylgdi Vilhjálmi Andra á Íslandsmótið í ísbaði á Blönduósi og fékk að kynnast þessum ótrúlega manni sem hefur ekkert fyrir því að sitja í 20 mínútur í bókstaflega ísköldu vatni.

Í myndbandinu hér fyrir ofan segir Vilhjálmur Andri sögu sína en hann var búinn að prófa allt til að losna við verkina eftir slysið. Hann var byrjaður að taka allskonar lyf og hjónabandið fór að lokum í vaskinn. „Mín fyrrverandi ætti að fá fálkaorðuna fyrir að nenna að hanga með mér öll þessi ár,“ segir hann.

Það var ekki fyrr en hann las athugasemd frá enskum lækni sem fjallaði í meginatriðum um að fólk ætti að hætta að væla og fara að hreyfa sig að hann tók breyttan lífsstíl föstum tökum. „Á þessu tímabili langaði mig ekkert að lifa lengur. Þetta var bara fokking ömurlegt. Það var eitthvað við þetta komment frá lækninum. Það small eitthvað.“

Þegar Vilhjálmur Andri byrjaði að stunda ísböð gat hann ekki stungið puttanum í kalt vatn. „Ég meikaði það ekki. En það var eitthvað inni í mér sem hvatti mig til að prófa þetta.“

Í dag slakar hann á með ísmola fljótandi í kringum sig. „Magnaðasta við þetta var hvað gerðist fyrir hugann á mér. Hann bara … búmm! allur bara beint í algjöra núvist,“ segir ísmaðurinn Vilhjálmur Andri.

Horfðu á stuttmyndina 13 mánuðir eftir Heimi Bjarnason hér fyrir ofan.

Auglýsing

læk

Instagram