Ég skammaðist mín fyrir að geta ekki höndlað „smávegis“ túrverki

Auglýsing

Árið sem ég varð 12 ára byrjaði mitt ævintýri með endómetríósu. Ég byrjaði strax að finna fyrir miklum túrverkjum og ég man að oft var ég hreinlega fárveik. Ég byrjaði á pillunni 14 ára því í nánast hvert einasta skipti sem ég fór á blæðingar, var ég rúmliggjandi vegna verkja. Pillan hjálpaði alveg helling, blæðingarnar og verkirnir minnkuðu og ég hafði meiri stjórn á tíðahringnum. En fljótlega fór ég að upplifa miklar skapsveiflur, mikið þunglyndi og unglingsárin voru algjör martröð. Þegar ég var barn var ég á kafi í íþróttum, æfði sund, fótbolta, skíði, frjálsar á sumrin og körfubolta. Ég var mjög virk og hafði gaman að því að æfa íþróttir. Eftir að ég byrjaði á pillunni með öllum þeim aukaverkunum sem hormónarnir höfðu í för með sér fór ég að draga mig mikið í hlé.

Um 15 ára aldur var ég hætt í öllum íþróttum og hélt mig mikið inni, heima uppi í rúmi. Það eru ófá skiptin sem ég man eftir að mig verkjaði svo mikið en skammaðist mín fyrir það að geta ekki höndlað „smávegis“ túrverki og laug því að ég væri þreytt, illt í maganum eða hreinlega þóttist vera lasin. Enda bara 15-16 ára gömul stelpa sem hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast. Ég vissi alltaf innst inni að það væri eitthvað að, en ég var búin að fá að heyra frá mörgum læknum og öllum í kringum mig að það væri bara eðlilegt að vera með verki. Það er hugsun sem þarf að stoppa, engin á að þurfa að þjást það mikið að viðkomandi dragi sig úr félagslífi og detti niður í þunglyndi heima hjá sér.

Haustið 2013 var fyrsta ferðin mín uppá bráðadeild. Ég bjó í Reykjavík með vinkonu minni á þessum tíma, við vorum tvítugar að njóta lífsins. Eitt kvöldið fór ég að pissa og fékk þennan svakalega sting hægramegin við eggjastokkana, ég náði varla að standa upp af klósettinu og hrundi á gólfið. Vinkona mín hringdi á sjúkrabíl sem flutti mig strax uppá bráðamóttöku þar sem athugað var hvort ég væri að fá botnlangakast, svo var ekki … hvað var þá að? Ég var send heim um morguninn því jú það var „ekkert“ að mér! Ég fékk samt tíma uppá kvennadeild til að fara í frekari rannsóknir. Þar kom ekkert í ljós, nema grunur um að blaðra á eggjastokki hefði sprungið. Eftir þetta tóku við fleiri og fleiri læknisheimsóknir. Ég flutti svo heim á Sauðárkrók sama ár.

Í febrúar 2014 versnuðu verkirnir til muna. Systir mín keyrði mig upp á heilsugæslu þar sem ég skreið inn því ég gat ekki staðið í fæturna. En ekkert fannst að mér nema mögulega blöðrur sem höfðu sprungið. Því næst lá leið mín inn á Akureyri að hitta kvensjúkdómlækni. Hann sá ekkert athugavert og svo þetta var fýluferð, þó að ég vissi alltaf innst inni að það væri eitthvað.  Allir læknarnir sem ég fór til sögðu alltaf að ekkert væri að, þetta væru bara venjulegir túrverkir.

Auglýsing

Í apríl 2014 hætti ég á pillunni og fór á lykkjuna. Versta ákvörðun sem ég hef tekið, því við tók eitt og hálft ár af helvíti. Ég flutti til Kaliforníu haustið 2014, í elsku hitann sem allir elska – nei ekki fyrir mig og minn sjúkdóm. Það var svo erfitt að vera í hitanum þegar maður var í verkjaköstum, þau fóru bara að aukast. Það voru ófá skiptin sem ég hneig niður í hitanum vegna verkja, vinkonur mínar stóðu yfir mér og skildu ekkert hvað var í gangi. Ég gat ekki stundað miklar íþróttir í hitanum þó svo að ég reyndi það, en þá þurfti ég að vera viðbúin að eyða restinni af deginum uppi í rúmi í verkjakasti.

Ég flutti heim eftir fjögurra mánaða dvöl í Kaliforníu, fór heim að vinna til að safna mér smá peningum áður en ég færi í næsta ævintýri. Ég fór að vinna í fiskiðju þar sem var alltaf kalt og það gerði illt verra. Ég tók verkjatöflur þrisvar á dag til að halda út daginn. Haustið 2015 lá leið mín í höfuðborgina í nám og það voru varla liðnir tveir mánuðir af skólanum þegar kærastinn minn þurfti að skutla mér á bráðamóttökuna eftir að ég var búin að liggja á gólfinu í fósturstellingu í þrjá tíma. Þar var sprautað í mig verkjastillandi í vöðva, ó þvílík guðsgjöf! Eina verkjalyfið sem hefur náð að slá á þessa viðbjóðslegu verki.

Eins og þau voru nú yndisleg á bráðamóttökunni, þá var ég aftur send heim – ekkert að mér, en fékk beiðni til þess að fara á kvennadeildina. Ég hringdi í mömmu og sagði henni að ég væri orðin þreytt á því að það „væri ekkert að mér“ – en samt alltaf að þjást – og frá henni heyrði ég fyrst nefnt legslímuflakk. Ég fór uppá kvennadeild og þar nefndi læknirinn við mig hvort ég væri mögulega með legslímuflakk. Ekkert var samt gert nema ég send heim með enn einn verkjalyfjaskammtinn.

Eftir þetta ákvað ég að taka málin í mínar eigin hendur, ég fór og googlaði legslímuflakk og datt inn á síðuna www.endo.is. Ég kynnti mér hver einkennin voru og las sögur frá konum sem voru nánast alveg eins og mín saga hefur verið. Ég pantaði síðan tíma hjá sérfræðingi í endómetríósu og þann 28. nóvember 2015, labbaði ég inn til hans og sagði „ég held ég sé með legslímuflakk”, hann skoðaði mína sjúkrasögu, og hlustaði á allt sem ég hafði gengið í gegnum.

LOKSINS fékk ég svar, hann var alveg sammála mér, það kæmi ekkert annað til greina. Á þessum tíma var ég ennþá með lykkjuna, hann ákvað að taka hana úr mér – úff sársaukinn við það að losna við hana – en einnig þvílíkur léttir. Hann ráðlagði mér að fara á sprautuna, þar sem þá færi ég ekki á túr í þrjá mánuði og vonandi myndi mér líða aðeins betur, átti svo að kíkja á hann aftur til þess að taka stöðuna. Þetta voru mögulega verstu þrí mánuðir sem ég hef upplifað. Ég höndlaði ekki pilluna vegna hormónanna, alltof miklar skapsveiflur og varð alveg svakalega þunglynd. Þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þessir þrír mánuðir voru, ég missti alla stjórn á sjálfri mér.

Í janúar 2016 fór ég svo á kvíða- og þunglyndislyf, því ég var búin að missa alla lífslöngun ásamt mörgu öðru sem óþarfi er að nefna. Ég fór aftur til sama sérfræðingsins og neitaði að taka annan skammt af sprautunni.  Það versta af öllu var að verkirnir minnkuðu og ég fann ekkert fyrir þeim á meðan ég var á sprautunni, en ég gat ekki hugsað mér að halda áfram vegna andlegu hliðarinnar. Ég fór því á hringinn sem ég er ennþá á í dag ári seinna. Hringurinn hefur heldur ekkert verið að gera mér lífið auðvelt, en hann er eini mögulegi kosturinn, svo ég verð að sætta mig við hann. Hringurinn hefur þannig áhrif á mig að ég er góð í 2-3 mánuði, svo kemur mánuður af verkjum og blæðingum, óumbeðið, þannig gengur þetta bara.

Í maí 2016 var ég orðin mjög verkjuð, það blæddi stöðugt og ég var orðin máttlaus í líkamanum, biðtími til sérfræðingsins var of langur og ég vissi að það þýddi ekkert að fara uppá bráðamóttöku. Ég hringdi því í neyðarsíma Samtaka um endómetríósu, og talaði við formann samtakanna sem er algjört yndi. Hún heyrði í þessum sérfræðingi sem hringdi strax í mig, var sett á Primolut til þess að stoppa blæðingarnar og sett á verkjalyfjakúr. Þetta allt saman hjálpaði mér í smá tíma. Formaður Samtaka um endómetríósu kom mér einnig í samband við annan sérfræðing í endómetríósu. Ég fór til viðkomandi í lok maí og var strax sett á biðlista til þess að fara í aðgerð.

Sumarið leið – ég var áfram á þunglyndis- og kvíðalyfjum, blæddi stöðugt – fór þá á verkjalyfjakúr og var hætt að getað sofið. Ég fékk lyf við því og ég get alveg sagt að þetta sumar var ekki auðvelt, enda kom ég úr sumarfríinu hvítari en ég var í upphafi sumars. Haustið kom, verkirnir héldu áfram, bara þetta sama venjulega, ég var orðin vön. Það var komið í vana að þjást daglega. LOKSINS eftir sex mánaða bið fékk ég tíma í aðgerð.

9. desember 2016 fór ég í mína fyrstu aðgerð sem gekk vel en núna þremur mánuðum seinna eru verkirnir komnir aftur.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram