Hundasamfélagið er versti hópur sem ég hef verið hluti af

Ég á rosalega erfitt með einn hóp á Facebook. Það eru ekki Hermenn Óðins, SjomlatipsBeauty Tips, eða Stuðningsmenn Donald Trump á Íslandi.

Neibb.

Hundasamfélagið.

Já, hópur sem er tileinkaður hundaeigendum og áhugafólki um hunda, er versti hópur sem ég hef verið hluti af.

Ég hef nokkrum sinnum skilið eftir mig athugasemd á hópnum, oft hlegið mig máttlausan af vitleysunni sem á sér stað þar inni, og sagt af því sögur.

Nú er ég kominn með upp í kok. Ég hef daðrað við þá hugmynd að skrifa um þennan ógeðslega, ógeðslega hóp í nokkurn tíma, og ætla núna loksins að láta verða af því.

Ég ætla að taka nokkur dæmi, og svo ætla ég að segja skilið við þetta drasl umræðuefni, og þennan ljóta hóp, að eilífu.

1. Fyrir mistök af minni hálfu, var ég úthúðaður af heilum kommentaþræði sem dýraníðingur, og fékk fyrir það hótandi skilaboð

Ég viðurkenni það fúslega, að ég á klárlega sök í mínu máli. Ég reyni ekki að neita því að ég sagði orð sem ég hefði aldrei átt að segja. Mín mistök, og ég meinti ekki það sem ég sagði.

Ég ber hins vegar ekki ábyrgð á þeim skítstormi sem fylgdi og fékk mig til að missa trú á fólki sem ég hélt að væri hæfilega hollt í hausnum: Hundaeigendum.

Þráðurinn umtalaði snerist um að kona nokkur sagðist hafa séð dýraníð á Geirsnefi eða einhversstaðar. Það sem ég las úr póstinum hennar var að eigandi Husky hunds sló hann á nebbann þegar hann gerði eitthvað af sér. Ég man ekki alveg, en mikið alvarlegra var það ekki. Allir voru brjálaðir, af einhverri ástæðu, ég greinilega missti af minnisblaðinu sem allir hinir fengu um það að þú mátt ekki lengur slá hundinn þinn á nebbann þegar hann gerir eitthvað af sér.

Nú er ég ekki að tala um að reisa upp hendi og slá af alefli. Ég er ekki einu sinni að segja fast. Ekki þannig að hundurinn meiði sig. Þvert á móti. Bara *tapp* nei, skammÓkei? Skilið?

Ég sagði (og guð almáttugur hvað ég sé eftir því að hafa ekki beðið aðeins og lesið aftur) eitthvað eins og: „Hvað er þetta eiginlega, til þess að ala upp Husky hund þá þarf að beita ofbeldi!“

Galdraorðið: Ofbeldi. Ég sé eftir því af því að ég meinti það alls, alls ekki. Auðvitað áttu aldrei að berja hund. Ég hefði aldrei átt að nota þetta heimska orð.

Ég bara, og sorrí með mig, að ég var alinn upp með hundum svona, vissi ekki að það væri kominn almenningssáttmáli um það að þú mátt ekki slá hundinn þinn á nebbann ef hann gerir eitthvað af sér.

Skítstormurinn byrjar eins og venjulega;

„Hver ól þig upp eiginlega?“, „guð minn góður hver leyfði þér að eiga hund?“

Ég reyni að útskýra, ég vissi að ég gerði mistök, en ég næ ekki að útskýra sjálfan mig fyrir milljón manns í einu, það er of erfitt að fylgjast með. Ég bið fólk bara um að senda mér einkaskilaboð ef það vill eitthvað sakast við mig, svo ég geti útskýrt mál mitt.

„JÁ BARA SOLEISS! Djöfulsins hroki er þetta í þér drengur, lemur hunda og krefur fólk svo bara um einkaskilaboð!!!“

Eða eitthvað svoleiðis. Í minningunni voru þetta svona sjö til tíu komment með þessu þema. Einhverssonar ógeðslegur múgæsingur myndast. Allir taka sig saman. Ég gefst upp. Ég er svo þreyttur og ég skil ekki af hverju fólk vill ekki skilja mig. Allir eru svo ótrúlega reiðir.

„Sæll. Ef ég sé þig beita hund ofbeldi þá mun ég beita þig ofbeldi. Vertu bless.“

Þetta fékk ég nokkrum mínútum síðar frá miðaldra karlmanni. Ég brotnaði niður. Ég? Dýraníðingur? Ég sem eyði korteri í að biðja hund minn fyrirgefningar ef ég stíg óvart á löppina hennar?

Við töluðum þó saman og allur misskilningur leiðréttist. Við báðum hvorn annan afsökunar.

Ég man ekki einu sinni hvernig þetta endaði, en ég held að ég hafi náð að útskýra mig, og kannski tvær til þrjár manneskjur skildu mig. Sumir reyndu að verja mig. En annars var ég hafður að háði og spotti af hinum.

„Kannski ætti bara slá þig á nebbann aðeins hehe“

2. Endalaust niðurrif fyrir … allt mögulegt?

„Þessum hundi vantar húsnæði vegna flutninga. Get ekki verið með hann því miður og verð því að finna nýtt heimili handa honum.“

Kemur oft fyrir á hópnum. Að þurfa að losa sig við dýrið sitt er ólýsanlega erfið og ömurleg staðreynd sem of margir þurfa að díla við.

„Af hverju varstu þá að fá þér hund ef þú vissir að þú gætir mögulega þurft að losa þig við hann? Hataru hunda?“ „Af hverju ertu þá eiginlega að flytja þangað? Ha? Er ekki til eitthvað hundavænt húsnæði, hefuru leitað nógu vel, ha??“ „Hefðir nú átt að hugsa þig um áður en þú fékkst þér hund.“

Þetta eru ekki einu sinni verstu kommentin.

Ég spyr: Af hverju í andskotanum ertu að skipta þér af? Hvað veist þú um manneskjuna og hennar haga? Það getur vel verið að hún sé ill og hati hunda. Það getur bara vel verið. En hún hefur það allavega í sér að finna nýtt heimili fyrir hundinn sinn. Það er verið að ráðast á vandamál sem er að öllum líkindum ekki til staðar. Af hverju? Til að seðja einhverja greddu fyrir veseni? Þarf alltaf að vera reiði og pirringur?

Ég reyni alltaf að setja mig í spor þeirra sem kommenta. Ég er ekki lengur tvítugur Grafarvogsbúi sem mætti laga stellingu mína í stólnum. Ég er núna orðinn 44 ára, og ég sit við eldhúsborð. Mögulega var ég eitthvað pirraður í dag. Ég sé að einhver manneskja þarf að losa sig við hundinn sinn. Mér verður hugsað til þess þegar frændi mágkonu minnar heyrði sögu af manni sem lét bara lóga hundinum sínum þá og þegar af því að hann þurfti að flytja. Hann pældi ekkert í hundinum, hann bara lét vandamálið hverfa. Ég verð reiður. Þessi manneskja er alveg eins og hann! Ég kommenta:

„Þú ert nú ekki hæfur hundaeigandi. Skammastu þín að vera svona.“

Ég fæ mér sopa af kaffibollanum mínum. Ég gerði gott, hugsa ég.

Svo koma viðbrögðin við því. Viðbrögðin sem einkenna hundasamfélagið, ég finn ekki þessa gervi réttlætiskennd neinsstaðar annarsstaðar.

Fólk breytist í einhvers konar krossfara. „Heyrðu nú mig!“ segi ég núna, 36 ára kona. „Þetta var óþarfi! þú veist ekkert um þessa konu og hennar haga! Skammast ÞÚ þín! Já! Fy fan þú og þitt hyski alltaf kemur einhver og hreytir svona í saklaust fólk. Skammastu þín!“ Ég ýti á enter. Þarna sagði ég honum til syndana! Ég skrolla niður … og sé … ég sé að hér er maður að réttlæta ofbeldi á husky hund??? Ég bilast. Ég orga öllu illu. Ég læt HANN SKO HEYRA ÞAÐ LÍKA. Já. Enginn skaðar hunda á minni vakt.

Ef þið skiljið ekki hvert ég er að fara, þá megiði endilega senda mér einkaskilaboð.

Djók.

Einnig er gjörsamlega skitið á fólk sem elur hund sinn upp öðruvísi en samkvæmt minnisblaðinu (já, vel á minnst, hvar er þetta blað?), sem gefa honum vitlaust fæði, klippa hann sjálf, láta hann fara í klippingu einhversstaðar, hafa hann inni, hafa hann úti, láta hann vera með ól … listinn heldur áfram. Alltaf er fólk tilbúið til að drulla yfir annað fólk, og múgæsingur hefst sem er ekki sefaður, og ekkert er gert af stjórn hópsins.

3. Núverandi krísa og hvernig fólk er bara voðalega vont

Jæja þá.

Það virðist vera sem góðverk nokkurra kalli fram hið allra versta í öllum hinum. Hundur er týndur. Það er ömurlegt.

Hundur sem týnist í dag er í betri málum en fyrir nokkrum árum. Í dag er fólk með tengslanet í gegnum FacebookTwitterSnapchat … allir samfélagsmiðlar hjálpa fólki að auðvelda leit. Fólk getur meldað sig saman, miðlað upplýsingum um hvar hundur gæti hafa sést, allir hjálpast að. Þetta hljómar eins og draumur í dós, þ.e.a.s. ef þetta virkaði.

Af því að í staðinn þá myndast einhversskonar ógeðslegur múgæsingur sem allir taka þátt í, og hið versta fær að brjótast út úr fólki. Hundafólki.

Dæmið hér að neðan er birt með leyfi þess sem varð fyrir, þetta gerðist um helgina 7.-8. janúar.

Maður nokkur er að keyra um og finnst eins og hann sjái týnda hundinn. Hann reynir að ná honum en mistekst. Hann nýtir tengslanetið og lætur vita af sér. Síminn hans deyr, þannig að hann nær ekki að svara eða fylgjast með og fer heim.

Af einhverjum ástæðum bilast allir og halda að hann hafi verið að ljúga. Þessi skilaboð fékk hann, og fæ ég að birta með hans leyfi:

„Það er því miður mjög greinilegt að þú hefur ekki fengið sama uppeldi og sem betur fer flestir fá, og fyrir það vorkenni ég þér. Þú hefur líklega átt ömurlega æsku fyrst þetta er karakterinn sem þú sýnir á fullorðinsárum…þar sem ég er kennari þá veit ég að ekki allir skilja án frekari útskýringa svo ég segi það beint út. Þetta kemur þér niður, í lægstu hyldýpi samfélagsins þar sem enginn mun hlusta á þig né taka mark á þér“

Þetta er kennari sem fyrst og fremst gagnrýnir uppeldi hans og vorkennir honum. Manneskjan vill að hann dragi af þessu lærdóm – annars verður hann einhversskonar róni eða eitthvað. Meira;

„Vá! Hvað þú ert skemmdur greyið þitt ! Big time Sækó !!!“

Ég vildi að þetta væri búið.

„Greyið barnið þitt. Þú ert ógeðslegur…hefur augljóslega enga samkennd fyrir öðrum.“

Allt komment frá manneskjum sem vissu ekki sannleikann, heldur héldu bara mögulega að hann hafi verið að plata. Vert er að taka það fram að kommentin voru fleiri, og mögulega verri. Hann vildi ekki birta þau komment þar sem fólk var búið að biðjast afsökunar á orðum sínum. Leyfum því aðeins að seytla inn.

Hvað í alvörunni er að ykkur? Sjáiði ekki hvað ég er að tala um? Ef fólkið sem lét eftir sig þessi ummæli eru að lesa þessa grein, þá vil ég segja það hérna sjálfur; skammist ykkar. Skammist ykkar til hins óendanlega, og ég vona innilega að þessi skömm muni fylgja ykkur um alla tíð, eins og þung járnkúla í keðju fast við hægri fót ykkar. Ógeðslega, og vonda fólk.

Þið eruð svo gjörsamlega búin að sundurtæta þann boðskap sem þessi hópur hefði getað orðið, og eruð búin að saurga allt það mannorð sem mögulega gæti fylgt ykkur, að ekki nokkur lifandi, hugsandi maður ætti að taka ykkur alvarlega.

Það sem fer mest í taugarnar á mér, það sem lætur mig allra mest vilja æla yfir ykkur öll, er svo þegar fáeinir búa til sinn eigin póst:

„Heyriði! Skammist ykkar! Ekki gera svona! Hér eru allir vinir! Reynum að vera bara saman og lifa lífinu og hafa gaman! HaFy fan! Ekkert svona! Ást og friður!“

Jebb. Æla útum allt. Kekkjótt og ljót gul æla.

Að segja eitthvað svona er eins og að standa í miðjum sprengjugíg. Búið er að rústa öllum byggingunum. Aðeins grýti og ryk alls staðar. „Heyriði!“ segir maðurinn í gígnum, með útsteyttan hnefa. „Svona byggingaryk er slæmt fyrir öndunarfærin!“

Rúsínan:

„Skulum ekki fókusera á allt hið neikvæða! Ha! Hugsum um allt það góða sem þessi hópur hefur gert!“

Nasistarnir gerðu líka eitthvað gott. Þeir voru miklir dýravinir, leiddu herferð gegn tóbaki og byggðu Autobahn brautina.

Ég get ekki horft á Hundasamfélagið lengur og hugsað „Ooo, það eru nú ýmsir gallar við þetta, en þessi hópur hefur samt leitt margt gott af sér!“ Nei. Ekki lengur. Ekki lengur get ég horft fram hjá þessu ótrúlega vonda fólki sem mokar skít út úr sér og hugsar sig ekki um tvisvar. Fólk sem er svo illa haldið af einhverri gerviréttlætiskennd að það er ekki einu sinni fyndið. Fólk sem er tilbúið til að senda manni eftirfarandi orð: „Greyið barnið þitt, þú ert ógeðslegur.“ eða „mikil ósköp vorkenni ég þér fyrir að vera eins illa innrættur og þú ert“ án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um sannleikann, er vont, vont fólk, og þau gera upp meirihlutann af Hundasamfélaginu.

Þannig að bless bless, Hundasamfélag. Þið megið gera það sem þið viljið. Ég ætla ekki að skipta mér af ykkur lengur. Sum ykkar munu fagna, „JÁ BLESS BARA. VILJUM EKKI HAFA SVONA NEIKVÆÐNI Í HÓPNUM HVORT EÐ ER.“

Ef þú hugsar það, kæri meðlimur – þá ert þú vonda fólkið. Þá sérðu ekki hvað er að.

Bæbæ.

Auglýsing

læk

Instagram