Nútíminn auglýsir eftir blaðamanni — svör við þremur algengum spurningum um starfið

Auglýsing

Nútíminn auglýsti í vikunni eftir starfskrafti og viðbrögðin hafa verið frábær. Fjölmargir hafa sótt um starfið og sent okkur þeirra hugmynd að efni á vefinn. Ég bað semsagt ekki um ferilskrá heldur efni í anda Nútímans.

Sjá einnig: Fjölbreytt starf í boði á Nútímanum

Með því vildi ég sjá hvernig texta umsækjendur skrifa en efnið gefur einnig til kynna hversu frjóir umsækjendur eru og ekki síst hversu vel þeir þekkir vefinn og það sem hann stendur fyrir.

Ég er búinn að fá nokkrar spurningar frá því að auglýsingin birtist hér á Nútímanum og mig langar til að svara þeim algengustu hér. Frestur til að sækja um er til 8. júní þannig að það er nægur tími til stefnu fyrir áhugasama.

1. Ertu að leita að manneskju í fullt starf?

Auglýsing

Já. Nokkrir hafa spurt hvort hægt sé að sinna starfinu meðfram öðrum störfum. Ég held að það yrði mjög erfitt þar sem starfið er mjög krefjandi.

2. Þarf viðkomandi að vinna á skrifstofu Nútímans?

Já. Við erum ekki bara að leita að manneskju til að efla vefinn heldur einnig til að skapa öflugri dínamík á skrifstofu Nútímans. Almennt myndi viðkomandi sinna daglegum störfum á skrifstofunni en svo þegar búið er að ná upp ákveðnum takti er ekkert sem segir að viðveran geti ekki verið sveigjanleg.

3. Ertu að leita að blaðamanni?

Já. Það var kannski ekki nógu skýrt en starfið er í grunninn blaðamennskustarf. Ég lofa samt að þetta er fjölbreyttasta blaðamannastarfið í bænum.

Umsækjendur þurfa að vera eldri en tvítugir, kunna á tölvur, internetið og helstu samfélagsmiðla. En ekki senda mér ferilskrá. Strax. Algengt er að fjölmiðlar láti umsækjendur þreyta sérstakt próf og Nútíminn er engin undantekning.

Ég vil að þú skrifir fyrir mig efni í anda Nútímans. Með þessu vil ég sjá hvernig texta þú skrifar en efnið mun einnig gefa til kynna hversu frjó manneskja þú ert og ekki síst hversu vel þú þekkir vefinn og það sem hann stendur fyrir — eitthvað sem mun hjálpa okkur mikið í ráðningarferlinu.

Skrifaðu færsluna í sérskjal, hafðu fyrirsögn og undirfyrirsögn með og sendu mér á [email protected].

Færslurnar á Nútímanum eru ekki langar, ekki hafa áhyggjur af því. Efnið má í raun vera hvernig sem er: Frétt, topplisti, örskýring — hvað sem er. Öllum verður svarað en þau sem senda besta efnið verða beðin um nánari upplýsingar, ferilskrá. Allt þetta dót.

Nútímanum hefur frá stofnun borist mjög mikið af starfsumsóknum. Ég vil endilega heyra aftur frá þeim sem hafa þegar sótt en vil biðja þau um að senda mér tillögu að efni samkvæmt forskriftinni hér fyrir ofan.

Umsóknarfrestur er til 8. júní.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram