Reykjavíkurborg brýtur á rétti ungmenna með því að loka ungmennahúsum

„Við vorum alveg með tárin í augunum,“ sagði Hrefna Sveinbjörnsdóttir, 21 árs, þegar ungmennahúsið Keldunni var lokað í júní í fyrra. Fimm ungmennahúsum í Reykjavík var lokað síðasta sumar vegna fjárskorts og mörg ungmenni misstu í kjölfarið félagsstarf sem þau sóttu í sínu hverfi. Eftir stendur Hitt Húsið, menningar- og upplýsingamiðstöð fyrir ungt fólk, þar sem ungu fólki er veitt ýmis aðstoð og ráðgjöf til að koma hugmyndum sínum til framkvæmdar. Þessi starfsemi er afar flott en er töluvert frábrugðin öðrum ungmennahúsum.

Ég vinn að verkefni tengdum ungmennahúsum á Íslandi hjá Samfés, samtökum félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, og ég ræddi m.a. við fimm ungmenni sem sóttu viss ungmennahús í Reykjavík áður en þeim var lokað og fékk að heyra þeirra skoðun. Þau voru öll viljug að láta heyra í sér heyra ef það gæti haft einhver áhrif, náð til ráðamanna og breytt stöðu ungmennahúsa í Reykjavík.

Hvað er Ungmennahús?

Ungmennahús er opið öllum þeim sem eru á aldrinum 16-25 ára. Samkvæmt fulltrúum ungmennahúsa er markmiði þeirra eftirfarandi:

  • Staður til þess að hafa gaman
.
  • Staður til að hittast, kynnast öðru fólki og blanda geði
.
  • Staður til að leyfa ungmennum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd
.
  • Staður til að efla ungmenni og leyfa þeim að vinna að áhugamálum sínum
.
  • Samanstaður fyrir krakka sem gætu verið útundan, þeir sem stunda kannski ekki íþróttir eða eru jafnvel ekki í skóla.
  • Staður til að lífga upp á samfélagið.

Hvað tekur við af 13-16 ára félagsmiðstöðvastarfi?

Árið 2014 voru rúmlega 129.000 heimsóknir í 13-16 ára félagsmiðstöðvastarf í Reykjavík. En hvað tekur við eftir 16 ára aldur? Menntaskólaböll, bjórkvöld eða að hanga í verslunarmiðstöðvum/sjoppum til að hitta vini og kynnast nýju fólki. Á þessum aldri eru margir flosnaðir uppúr skipulögðu tómstundastarfi, vinirnir úr grunnskóla fara í mismunandi framhaldsskóla og sumir fara ekki í skóla og eiga á hættu að einangrast. Það er því mikilvægt að það sé til öruggur, vímuefnalaus staður fyrir ungmenni til að hittast í nærumhverfi sínu og að allir hafi jöfn tækifæri á þátttöku.

Fjölmörg ungmennahús eru starfandi á Íslandi í öðrum bæjarfélögum, til að mynda eru ungmennahús á Hólmavík, Selfossi, Seltjarnarnesi, Akranesi, Kópavogi og Akureyri. Á Landsþingi ungmennahúsa sem fór fram í Hólmavík í janúar á þessu ári komu fulltrúar hvert úr sínu ungmennahúsi víðs vegar að af landinu til að hittast og fara yfir stöðu ungmennahúsa. Það var sorglegt að enginn fulltrúi kom frá Reykjavík, þar sem búa tæplega 18 þúsund ungmenni á aldrinum 16-25 ára.

„Leggjum þetta bara niður“

Reykjavíkurborg setti af stað þetta tilraunaverkefni um rekstur ungmennahúsa með lítið fjármagn og voru stöðugildin óljós til að byrja með. Það voru ekki settar æskilegar hæfniskröfur á starfsmenn og sum ungmennahús voru ekki með umsjónarmann, heldur sáu starfsmenn félagsmiðstöðvar í sama hverfi um starfið. Að sögn fyrrum umsjónarmanns sem ég ræddi við náði fjármagnið stundum aðeins fyrir leigunni á húsnæðinu, varla fyrir launakostnaði og hvað þá einhverju sem tengist daglegum rekstri með ungu fólki.

Reynsla ungmenna

Þrátt fyrir augljósan fjárskort hjá sumum ungmennahúsum þá er reynsla þeirra sem sóttu þau reglulega í sínu hverfi góð. Viðbrögð við lokun ungmennahúsa í Reykjavík voru því mikil og Arnar Berent Sigrúnarson, 20 ára, sagðist vera virkilega ósáttur þegar að Keldunni var lokað. „Ég sá ekki ástæðu fyrir því af hverju það ætti að loka þessu, þetta er búið að vera skemmtilegt“.

Elísa Birgisdóttir 21 árs, sagðist vera enn vera að sækja í ungmennahúsið ef þetta væri enn starfandi því þá heldur hún sjálfkrafa sambandi við krakkana með því að mæta á staðinn.

Hrefna Sveinbjörnsdóttir, 21 árs, sagði að síðasta daginn sem þau mættu öll hefði verið var erfiður dagur.

Herdís Björk Óðinsdóttir, 23 ára, talaði um að síðasti dagurinn hafi verið sár stund. Eins og hún sagði „Þetta var heilagur staður sem við gátum hist og haft okkar tíma“.

Forvarnargildi ungmennahúsa

Það er ljóst að gildi forvarnastarfs ungmennahúsa hafði áhrif á viðmælendur og sagði Herdís að starfsfólkið hafi spjallað við þau út í hið ýtrasta til að hjálpa og alltaf tilbúin að aðstoða ef eitthvað var að. „Maður gat alltaf treyst þeim fyrir öllu“ sagði Herdís. Elísa sagðist vita um marga sem eiga ekki marga vini og eru ekki í skóla til að geta kynnst krökkum „Ungmennahúsið væri fullkominn staður fyrir þá krakka bæði til að eignast vini og koma sér frá einhverju öðru“. Hrefna sagði „það væri þetta öryggi, að hafa einhvern stað sem þú ert velkominn á með vinum þínum“.

Í fundagerð borgarstjórnar í stefnumótun ungs fólks í Reykjavík frá árinu 2014 kom fram að mikilvægt sé að ungmennahús séu starfrækt í öllum hverfum borgarinnar. Einnig tekur forvarnarstefna Reykjavíkurborgar fyrir árin 2014-2019 fram að það þurfi að bæta forvarnarstarfsemi fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Þrátt fyrir þetta er það sorgleg staðreynd að það sé einungis eitt ungmennahús starfrækt í Reykjavík þar sem eftirspurnin er mikil en framboðið lítið. Önnur bæjarfélög eru að standa sig vel á þessum vettvangi en á Akranesi, þar sem búa rétt rúmlega þúsund ungmenni, er starfandi ungmennahús. Kópavogur er einnig með öflugt starf í ungmennahúsinu Molanum, en þar búa um það bil 5 þúsund ungmenni. Líkt og kom fram áðan búa tæplega 18 þúsund ungmenni í Reykjavík.

Út frá reynslu viðmælanda og samtölum við starfsfólk er nokkuð ljóst hversu mikilvæg þessi starfsemi er. Í nútímasamfélagi eru einstaklingar ungmenni mun lengur en áður að því leyti að fæstir eru fluttir að heiman og búnir að stofna fjölskyldu um 20 ára aldur og því mikilvægt að mæta þörfum þeirra. Ég hef sjálf reynslu af ungmennahúsum í gegnum námið mitt í Tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ og einnig tók ég þátt í Landsþingi Ungmennahúsa á þessu ári. Ég get tekið undir orð viðmælanda um mikilvægi ungmennahúsa þessa húsa fyrir ungmenni. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna þarf að virða rétt allra barna 18 ára og yngri til tómstunda. Mikilvægt er að öllum séu veitt jöfn tækifæri til þátttöku í menningarlífi, listum og tómstundaiðju.

Félagsmiðstöðvar á Íslandi þjóna þessum tilgangi, en aðeins til 16 ára aldurs. Samningurinn nær til átján ára aldurs og er því nokkuð ljóst að Reykjavíkurborg sé að brjóta á rétti 16-18 ára ungmennum með því að loka ungmennahúsum. Það er mikilvægt að setja kraft í að byggja upp ungmennahúsin á Íslandi til að tryggja áframhaldandi forvarnarstarf. Það er síður mikilvægt að ungmenni, sama hvar þau búa, hafi jöfn tækifæri á að nýta sér starfsemi ungmennahúsa.

Auglýsing

læk

Instagram