Röðin kemur að Ólafi

Klukkan er 13.21 á sunnudegi fyrir bolludag í verslun Bakarameistarans í Suðurveri. Svört Lexus-bifreið með bílnúmerið [Skjaldarmerki lýðveldisins 1] og klofinn gunnfána forsetaembættisins í míníatúr-stærð blaktandi við hún hægra megin á húddinu rennir í hlað. Út gengur hægum skrefum forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, íklæddur bláköflóttri lumberjack-skyrtu, dökkfjólubláum rússkinsbuxum og svartri 66° norður-úlpu með hettu.

Hann sækir númeraðan miða af rauða miðahjólinu við innganginn, tekur sér stöðu í þvögu annarra viðskiptavina og bíður þess að röðin komi að honum. Allir sem þarna eru staddir reyna af alefli að horfa ekki á hann eða láta á því bera að þeir þrái að virða hann fyrir sér vel og lengi, þar sem hann er staddur í þessum aðstæðum, inni í bakaríi á sunnudegi fyrir bolludag.

Röðin kemur að Ólafi. Hann spyr afgreiðslustúlku eðlilegra og réttmætra spurninga um bragðtegundir, um mismunandi staðsetningu gerbolla og vatnsdeigsbolla í afgreiðsluborðinu, en ákveður sig og segist vilja bollurnar hinum megin.

Dökkhærður fjölskyldufaðir yfir meðalþyngd sem situr lengst úti í horni springur á limminu. Hann tekur upp símann og smellir af mynd. Rauðhærð kona um þrítugt á næsta borði sem er einnig að laumu-ekkihorfa á Ólaf rennir augunum að fjölskylduföðurnum án þess að breyta höfuðstöðu sinni. Hún horfir á mig. Er leyfilegt að taka myndir við þessar aðstæður? Er bílstjóri Ólafs, sem gengur í hringi framan við Lexus-bifreiðina úti, vopnaður?

Viðskiptum Ólafs er lokið. Hann greiðir með debetkorti, setur brúnan bakaríspoka ofan á hvítan bollukassa, tvíhendir kassann og gengur út. Ólafur hefur úlpuermarnar fram á fingurna því það er kalt. Bílstjórinn Quasimodo-hleypur á móti honum, opnar skottið, tekur við bollukassanum lotinn í baki, leggur hann ofur varlega ofan í og hagræðir. Hann opnar fyrir Ólafi, vísar honum til sætis aftur í og þeir aka á braut.

Þögn er í bakaríinu. Dökkhærð kona um fertugt bendir á eftir bílnum út um rúðuna og segir móðurlega við stúlku í bleikum Hello Kitty-stígvélum: Sandra Sif, sástu hvernig númeraplatan var á þessum bíl?

Sandra Sif segir: Já, mamma.

Textinn birtist fyrst á Facebook en er birtur á Nútímanum með leyfi höfundar.

Auglýsing

læk

Instagram