Það sem ég hata við pólitík

Pólitík er svo brútal. Dæmi:

Á höfuðborgarsvæðinu eru öll sveitarfélögin sammála um að borgarlína sé málið, þó ýmislegt eigi eftir að útfæra. Ríkisstjórnin er líka búin að lofa að leggja í hana fjármagn. Allir samstíga, þvert á flokka.

Núna eru kosningar framundan og í Reykjavík gera fulltrúar ákveðinna flokka í því að sá efasemdarfræjum um borgarlínuna. Segja að vissulega þurfi að bæta almenningssamgöngur en að kannski sé borgarlína ekki málið.

Ýmsum öðrum óútfærðum og jafnvel óraunhæfum hugmyndum og skoðunum er varpað fram. Mönnum með skoðanir er stillt upp gegn sérfræðingum með staðreyndir. Settir á sama stall.

Þetta gerir lítið annað en að tefja. Og svona lætur fólk sem vill koma höggi á pólitíska andstæðinga — ekki stuðla að einhvers konar framþróun. Við höfum séð þetta áður; það er t.d. búið að rífast um nýjan Landspítala í áratugi. (Ríkið seldi Símann fyrir 13 árum og peningarnir áttu að fara í nýjan Landspítala. Eru ekki allir ánægðir með nýja Landspítalann sinn? Nú, af hverju ekki? Vegna þess að hann er ekki til).

En svona er pólitík. Framtíðarsýn er orðin að einhvers konar skammaryrði. „Það þarf að gera eitthvað núna — á næsta kjörtímabili.“ Þá geta allir verið glaðir.

Á endanum er svo ekkert gert og enginn er glaður.

P.s. ekki túlka þetta sem stuðning við flokka sem eru í borgarstjórn. Leikskólamál ráða atkvæði mínu að miklu leyti og mér finnst ekki trúverðugt að hafa verið í stjórn síðustu ár en ætla allt í einu að redda málunum núna.

Auglýsing

læk

Instagram