Auglýsing

Glímdi við afleiðingar ýmissa áfalla án þess að gera sér grein fyrir því

Linda Rós Haukdal hefur alltaf haft marga bolta á lofti, unnið mikið og varla stoppað á milli verkefna. Henni hefur ætíð fundist gaman í vinnunni en segist jafnvel hafa notað vinnuna sem ákveðna flóttaleið eftir mörg áföll á lífsleiðinni. Allri vinnunni fylgdi líka fórnarkostnaður. Linda segist hafa fórnað heilsunni, barneignum og samböndum fyrir vinnuna og það sé í raun líklega lykillinn að því af hverju allt fór eins og það fór. Í nokkur ár hefur Linda reynt að eignast barn, án árangurs. Hún segist þó enn halda í vonina um að eignast barn og vonast eftir kraftaverki.

Þetta er brot úr lengra forsíðuviðtali Vikunnar.

„Ég er alltaf á fullu, og hef verið þannig frá því ég man eftir mér. Ég horfði líka á mömmu sem hefur alltaf verið ósérhlífin og unnið rosalega mikið svo ég á ekki langt að sækja dugnaðinn. En auðvitað fær maður þetta í hausinn að lokum.“

Linda á og rekur hársnyrtistofuna Hárrétt en auk þess á hún heildsölu með hárvörum frá Hollandi, KEUNE sem fagnar 100 ára afmæli í ár. Einnig kennir hún hárgreiðslufólki, fer utan á námskeið og þarf að taka próf reglulega til að halda leyfinu fyrir vörunum sem hún flytur inn. Reksturinn óx hratt og Linda segist einfaldlega hafa gleymt að hlúa að sjálfri sér.

„Ég kunni ekki að segja nei og tók endalaust að mér verkefni. Það var hrikalega gaman í vinnunni og ég var þar öllum stundum. Einu sinni var ég búin að vinna svo mikið að þegar ég kláraði seinasta verkefni vinnudagsins undir morgun voru bara tveir tímar þar til ég þurfti að vakna til vinnu næsta dag. Ég hafði ekki áttað mig á því hvað tímanum leið og fór inn á lager þar sem ég lagðist á gólfið og ætlaði í alvöru að reyna að hvíla mig aðeins áður en ég héldi áfram að vinna. Þarna sá ég reyndar að þetta væri einum of og ákvað að fara heim og leggja mig í klukkutíma,“ segir Linda og hlær létt. „Fyrir ein jólin var ég að blása hárið á viðskiptavini og gat ekki haldið á blásaranum því handleggurinn á mér bara virkaði ekki sem skyldi. Ég setti þá bara blásarann undir handlegginn og hristi mig til að geta blásið hárið.“

Enn er hlegið. Undir niðri er samt alvaran.

„Ég hlæ að þessu í dag en auðvitað var þetta rugl,“ segir Linda. „Vinkonur mínar, og fleiri, reyndu að benda mér á að þetta væri of mikið, ég ætti kannski að slaka aðeins á en ég sá þetta ekki. Ég var bara að sinna mínum verkefnum og gat ekki sagt nei við neinn. Heimilislæknirinn minn vildi að ég færi á heilsustofnunina í Hveragerði en ég hlýddi ekki af því að það var að koma jólatörn. Ég sinnti öllum öðrum en sjálfri mér og einfaldlega vann yfir mig, oftar en einu sinni, en stytti bara vinnutímann og fór svo auðvitað bara á fullt aftur. Kannski var þetta einhvers konar flótti, ég er ekki alveg að átta mig á því og á eftir að vinna betur í þessu en mig grunar að ég hafi notað vinnuna sem flóttaleið. Það er í raun bara mjög líklegt.“

Í ljós kemur að Linda fékk mjög snemma áfallastreituröskun. „Ég vissi ekki fyrr en fyrir stuttu að þetta væri áfallastreituröskun, ég var með svo þykkan skráp og hélt alltaf ótrauð áfram. Ég er líka tiltölulega nýlega búin að komast að því að ég er með kvíða sem tengist áfallastreituröskuninni. Ég hef fengið ofsakvíðaköst og haldið að ég sé hreinlega að deyja því ég vissi ekkert hvað var í gangi. Ég var oft búin að fara til læknis og lýsa því hvernig ég hélt ég væri að fá hjartaáfall en mér var bara sagt að ég þyrfti að létta mig, aftur komið að því í stað þess að hlusta á mig. Þá hefði kannski verið hægt að finna út að ég var að glíma við afleiðingar ýmissa áfalla sem ég hef orðið fyrir á ævinni. Ég er allt önnur í dag og mér líður mikið betur eftir að hafa fengið hjálp.“

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing