https://www.xxzza1.com

Greta Salóme býður Grindvíkingum á fría jólatónleika

„Ég er að halda mína eigin jólatónleika 15. desember með alveg frábæru fólki og eftir að miðasalan fór af stað að þá bauð ég Grindvíkingum í gegnum Instagram-ið mitt að þeir íbúar sem vildu koma frítt á þá tónleika gætu haft samband við mig,“ segir Greta Salóme sem átti engan veginn von á þeim viðbrögðum sem hún fékk í kjölfarið.

„Ég hafði samband við Hilmar sem rekur Hlégarð og hann var strax til í þetta og hann er í samstarfi við Mosfellsbæ að skaffa kakó og kaffi fyrir alla í hléi“

„Nei, ég gerði ekki ráð fyrir því að viðbrögðin yrðu svona svakaleg. Þegar ég kíkti í símann aftur, eftir að hafa sett þetta í story hjá mér, að þá var skilaboðaskjóðan mín eiginlega bara sprungin. Þá kviknaði þessi hugmynd um að taka þetta bara alla leið og halda sér aukatónleika fyrir Grindvíkinga þann 17. desember,“ segir Greta Salóme en tónleikarnir eru haldnir í Hlégarði í Mosfellsbæ, heimabæ Gretu. Miðarnir voru í boði í gegnum miðasöluvefinn midix.is og ekki stóð á viðbrögðum Grindvíkinga því „uppselt“ varð á tónleikana á einu augabragði. Greta Salóme ákvað þá að halda aukatónleika sama dag og gátu Grindvíkingar óskað eftir miða í gegnum sama miðasöluvef.

Allir sem koma að sýningunni til í þetta

„Mér sýnist vera pakkuppselt á báða tónleikana en það eru einhverjar pantanir sem eru að detta inn og út þannig að það er alltaf hægt að tékka hvort einhverjir miðar hafi losnað,“ segir Greta Salóme.

Voru allir tónlistarmennirnir sem koma að tónleikunum til í þetta?

„Já nefnilega. Það eru alveg 10 -15 manns sem koma að þessum tónleikum og það voru bara allir sem einn tilbúnir í slaginn. Sérstakir gestir tónleikanna eru Björgvin Franz og Júlí Heiðar og svo eru söngkonurnar Unnur Birna og Lilja Björk Runólfsdóttir að syngja með mér og þær eru gjörsamlega frábærar. Svo erum við með alveg æðislegt band. Ég hafði samband við Hilmar sem rekur Hlégarð og hann var strax til í þetta og hann er í samstarfi við Mosfellsbæ að skaffa kakó og kaffi fyrir alla í hléi og það er bara dásamlegt að sjá hvað allir eru að leggjast á eitt með að gera þetta sem fallegast.“

Hafa einhverjir Grindvíkingar haft samband og þakkað þér fyrir þetta fallega framtak?

„Já alveg ótrúlega mikið af fólki. Ég get ekki sagt að ég þekki vel til Grindavíkur eða eigi einhverjar sérstakar tengingar þangað inn en eftir þessar hamfarir, og viðbrögðin sem ég fékk við tónleikum mínum, á Grindavík alveg sérstakt pláss í mínu hjarta. Fólk er svo þakklátt og glatt og það út af fyrir sig eru nóg laun fyrir okkur sem að þessu stöndum.“

Ef það losna miðar þá er hægt að óska eftir þeim hér!

Auglýsing

læk

Instagram