Auglýsing

„Lítið sem ég get gert við því hvað annað fólk er að segja“

Hrafnhildur Haraldsdóttir var krýnd Miss Universe Iceland 2022. Hún er yngsti sigurvegari í keppninni hér á landi en Hrafnhildur er átján ára gömul. Nútíminn fékk leyfi Vikunnar til að birta þetta skemmtilega viðtal.

Hrafnhildur segist alltaf hafa verið grönn og hún er ekki óvön umtali sem hún taki sjaldnast nærri sér. Hún hafi þó tekið umtal og slúður skólafélaganna í Versló nærri sér, þar sem verið sé að dæma hana fyrir þátttökuna í Miss Universe Iceland og hún hafi ákveðið að ljúka stúdentsprófi frá skólanum í fjarnámi í vor en síðan stefni hún á læknisfræðina. Blaðamaður Vikunnar hitti Hrafnhildi fyrir jól þar sem jólaprófin í Versló voru um það bil að byrja og framundan langt ferðalag til Bandaríkjanna strax eftir jól þar sem undirbúningur fyrir Miss Universe 2022 var að hefjast.

Hrafnhildur segist hafa fylgst með keppninni en aldrei hugsað um að keppa sjálf. Það hafi ekki verið fyrr en Manúela Ósk Harðardóttir, framkvæmdastjóri Miss Universe Iceland, hafi haft samband við hana og spurt hvort hún vildi taka þátt sem hún hafi ákveðið að slá til eftir dálitla umhugsun. „Ég var ekki alveg viss til að byrja með,“ segir Hrafnhildur brosandi, „en mig langaði samt að prófa eitthvað nýtt og fann að ég var alveg tilbúin í að breyta aðeins til. Ég var búin með tvö ár í Versló og mamma vildi að ég myndi frekar klára stúdentsprófið og skoða þetta svo en mér fannst þetta vera tækifæri sem myndi jafnvel ekki bjóðast aftur. Pabbi var hins vegar var alveg rosalega spenntur fyrir mína hönd, enda nett athyglissjúkur,“ segir Hrafnhildur og hlær létt, „og hann hvatti mig til að taka þátt. Ég ákvað bara að slá til og er rosalega þakklát fyrir að hafa gert það því bæði var þátttakan hrikalega skemmtileg og ég eignaðist frábærar vinkonur. Ég átti samt alls ekki von á að vinna en ég hugsaði með mér að ég myndi alveg örugglega prófa að taka þátt aftur því mér fannst þetta svo gaman. Ég veit um stelpur sem hafa tekið þátt aftur; ekki af því að þær langaði svo að vinna heldur af því að þetta er svo sjúklega skemmtilegt ferli og maður eignast svo æðislegar vinkonur. Ég fékk mjög góðan og mikinn stuðning frá fólkinu mínu og kærastinn minn og hans fjölskylda hafa líka verið yndisleg. Ég hef aðallega fundið fyrir umtali og stælum frá krökkum á mínum aldri sem mér finnst alveg erfitt en ég skil það samt líka af því að ég er svo ung, átján ára, og á þessum árum er alls konar umtal og klíkur að myndast í menntaskólanum og svona.“

„Ég fékk að ráða því sjálf hvort ég vildi
fermast og ég vildi það ekki heldur vildi
ég frekar fara í flott ferðalag. Við fórum
því hringinn í kringum hnöttinn.“

Hefur tekið slúðrið í skólanum inn á sig
Hrafnhildur segist ekki óvön því að um hana sé talað vegna þess hversu grönn hún sé. Fullorðið fólk hafi jafnvel viðrað áhyggjur sínar af holdafari hennar og velt því fyrir sér hvort hún væri með átröskun eða anorexíu. „Ég fæ líka reglulega að heyra þetta á samfélagsmiðlum frá fólki úti í heimi í kringum Miss Universe keppnina. Það er alltaf verið að bera okkur stelpurnar saman og athugasemdir um líkama minn fara ekkert framhjá mér. Samt er mér alveg sama um hvað því fólki finnst, einhverju ókunnugu fólki úti í heimi. Eins og ég segi, þá er ég líka vön því að fólk tali um líkama minn og ég á auðvelt með að hrista það af mér. Auðvitað koma samt tímabil þar sem mælirinn fyllist og ég verð leið í smá tíma. Ég fer ekki að gráta yfir einhverri einni athugasemd en þetta safnast upp og það kemur kannski að því að ég græt yfir mörgum athugasemdum eftir einhvern tíma. Ég skil samt ekki alveg hvers vegna fólk er endalaust að velta sér upp úr þessu þegar það hefur í raun engan rétt til þess. Það væri allt annað ef fólk hefði áhyggjur af mér í alvöru og myndi bara spyrja mig hreint út hvernig mér liði og hvort allt væri í lagi, en það er ekki þannig. Það hefur enginn komið til mín og spurt mig í alvörunni út í þetta, nema bara einhverjir kjánar sem vita ekki hvað átröskun eða anorexía er. Líklega þarf maður að sætta sig við það að fólk er alltaf með skoðun, líka á hlutum sem koma því ekki við, og það er aldrei hægt að gera öllu fólki til geðs. Það er einhver ákveðinn fegurðarstuðull og þótt þú jafnvel passir nákvæmlega inn í hann getur öðrum samt fundist eitthvað að þér; þú ert með of lítil brjóst, of mikla appelsínuhúð, of stórt nef … Þegar ég var að máta kjóla í Bandaríkjunum í haust var ég mjög oft spurð að því hvort ég væri með silíkon í brjóstunum, sem ég er ekki. Það er ekki gert ráð fyrir því að grönn kona geti haft stór brjóst án þess að hafa látið fylla í þau. En ég er bara náttúrulega grönn, með litla beinabyggingu, og get einfaldlega ekki þyngt mig. Svona eru bara genin mín. Ég borða það sem ég vil og hugsa aldrei um hitaeiningarnar, ég hugsa frekar um það að ég hafi lést og þurfi að þyngja mig frekar en hið gagnstæða.“

Var þér þá strítt mikið í æsku?
„Já, mér var strítt mjög mikið á því hvað ég væri grönn en ég er búin að átta mig á því að það er lítið sem ég get gert við því hvað annað fólk er að segja og hugsa um mig. En það merkilega er að ég hef alltaf elskað líkamann minn en þegar maður komst á unglingsárin og fór að pæla aðeins í strákum þá heyrði ég að strákarnir töluðu um að ég væri svo flöt og grönn þannig að þá fór ég að efast um líkama minn og hugsa hvort ég ætti kannski ekki að elska hann. Ætti ég kannski að hata hann? Það var mjög skrýtin, og vond tilfinning. En þegar ég byrjaði í menntaskólanum ákvað ég einfaldlega að hætta þessu kjaftæði og elska líkama minn bara, punktur. Ég ákvað að hlusta á sjálfa mig en ekki aðra. Og í dag elska ég hann nákvæmlega eins og hann er, ekki af því að mér finnist hann svo miklu flottari en aðrir líkamar eða neitt þannig heldur af því að þetta er líkaminn minn. En á sama tíma og mér er í raun sama um hvað öðrum finnst um mig verð ég að viðurkenna að ég hef tekið nærri mér hvað krakkar á mínum aldri hafa verið að segja um mig og ég hef tekið slúðrið í skólanum inn á mig og leiðinleg komment frá krökkum á samfélagsmiðlunum.“

Sorglegt að verið sé að dæma hana fyrir það eitt að taka þátt í keppninni, og vinna
Hrafnhildur fór í fjarnám frá Verzlunarskólanum síðastliðið haust og segist fyrst hafa ætlað að snúa til baka í hefðbundið nám þegar hún væri búin að keppa í Miss Universe 2022 í janúar en hún hafi ákveðið að halda áfram í fjarnáminu þar sem henni hafi ekki liðið alveg nógu vel í skólanum. „Mér finnst ég ekki passa þarna inn og ég verð að viðurkenna að vegna þess hvernig búið er að koma fram við mig get ég ekki hugsað mér að mæta aftur í skólann. Mig langar að láta eins og ekkert sé en það er ekki gaman að ganga um á göngum skólans og líða eins og maður sé trúður. Ég hef mætt miklum skilningi og stuðningi frá skólastjórnendum og bekkjarfélagar mínir hafa verið æðislegir og stutt mig hundrað prósent og hvatt mig áfram. Ég held að margir skilji ekki út á hvað svona keppni gengur og dæmi þetta frekar en að reyna að afla sér upplýsinga. Mér finnst bara mjög sorglegt að það sé verið að dæma mig fyrir það eitt að taka þátt í keppninni, og vinna, meira að segja fólk sem þekkir mig og veit hvernig manneskja ég er dæmir mig sem einhverja týpu sem ég er alls ekki. Til dæmis er verið að kommenta á mig og mína þátttöku í keppninni á alls konar viðburðum í skólanum, bara til dæmis í skólaleikritum og öðrum stórum viðburðum. Daginn eftir að ég vann keppnina mætti ég í skólann til að hitta bekkjarfélaga mína aðeins, ég var að koma beint úr útvarpsviðtali og á leið í myndatöku, þannig að ég var í kjól og á háum hælum, sem einhverjum fannst ástæða til að skrifa um í slúðurblað Versló, þetta þótti skandall. Það er auðvitað ekkert ljótt í sjálfu sér en málið er að ég veit að það er ekki verið að meina þetta fallega, það er verið að nota þetta til að gera mig að aðhlátursefni og það er það sem mér finnst verst. Líka af því að það er verið að gera mig að einhverri týpu sem ég er ekki. Mér hefur alltaf fundist gaman að gera mig fína fyrir einhver tilefni en annars mæti ég bara ómáluð og í kósýfötum í skólann.“

Finnurðu meira fyrir umtali frá einu kyni en öðru?
„Já, ég finn langmest fyrir umtali frá stelpunum. Þær koma með ljótu ummælin. Til dæmis gerðu þær stólpagrín að kjólnum sem ég klæddist í Miss Universe Iceland. Mér sárnaði það mjög því ég valdi þennan kjól sjálf, hann kostaði helling, mér fannst hann rosalega fallegur, leið vel í honum og mér þykir alveg svakalega vænt um hann. En að það fyrsta sem var gert skyldi vera að rífa niður kjólinn minn fór pínu í mig, ég viðurkenni það, og þarna fann ég vel fyrir því hvað þær voru allar að dæma mig. En svona er þetta bara á þessum aldri. Ef einhver gerir eitthvað stórt þá bara hellist öfundin yfir fólk. Ég hugsa nefnilega að margir sem eru að dæma svona keppnir geri það án þess að vita neitt um það um hvað þær snúast, og myndu jafnvel gjarnan vilja vera í þeim sporum að fá að ferðast um heiminn, fá alls konar tækifæri og spennandi gjafir og verkefni.“

Tilbúin að hafa áhrif á heiminn til hins betra
En út á hvað skyldi keppni á borð við Miss Universe ganga út á?
Hrafnhildur segir ákveðin að það sé alls ekki verið að keppa í fegurð, eins og margir virðist enn halda. „Það var þannig áður fyrr að þátttakendur í fegurðarsamkeppnum urðu að uppfylla ákveðnar kröfur varðandi hæð og þyngd, sem er fáránlegt og sem betur fer hefur það breyst. Ég viðurkenni að ég leit á Miss Universe Iceland sem fegurðarsamkeppni en komst að því þegar ég tók þátt að því er alls ekki þannig farið. Stelpur af öllum stærðum og gerðum, allar gullfallegar á sinn hátt, taka þátt og fá að láta persónuleika sinn skína. Hann skiptir gríðarlega miklu máli í keppninni. Jú, vissulega þurfa þátttakendur að ganga um sviðið á bikiníi en það er ekki til að dæma líkama þinn heldur til að sjá hvort þú hafir sjálfstraustið til að ganga um sviðið á bikiníi. Þú þarft líka að geta haldið ræðu á sviðinu, svarað spurningum frá dómnefnd sem metur það hvort þú hafir ákveðnar skoðanir á málefnum og vitir hvað þú viljir gera til að breyta heiminum. Ég til dæmis stend fyrir einhverju ákveðnu málefni, að berjast fyrir jafnrétti í heiminum, og ef ég fengi tækifæri til þess sem Miss Universe myndi ég reyna að láta það verða að veruleika. Sú sem vinnur keppnina í janúar verður einhver sem er tilbúin að hafa áhrif á heiminn til hins betra.“

Þátttakan hlýtur samt líka að hafa verið erfið?
„Já, ég viðurkenni að þetta hefur alveg tekið á en verið mjög sjálfseflandi og gott fyrir sjálfstraustið. Ég var ekki týpan til að rétta upp hönd og tala fyrir framan bekkinn sjálfviljug svo mér finnst frábært að hafa öðlast sjálfsöryggi til að standa fyrir framan fullan sal af fólki og tala, á ensku meira að segja. Ég viður-kenni líka að ég var ekki alveg nógu dugleg á æfingum og missti helling úr þar sem ég var í námi og var líka að ferðast mikið á þessum tíma sem æfingarnar voru að byrja. Ég missti af fyrsta mánuðinum og það var alveg leiðinlegt því ég sá hvað stelpurnar skemmtu sér hrikalega vel á æfingunum. Svo var líka alveg meira en að segja það að læra að labba á háum hælum og reyna að detta ekki,“ segir hún og hlær. „En það hjálpaði að vita að við vorum flestar í sömu sporum, að taka þátt í fyrsta sinn þótt sumar væru búnar að taka þátt áður.“

Hvað hefur þér fundist skemmtilegast við þátttökuna í keppninni?
„Ferðalögin hafa verið mjög skemmtileg en ég hef alltaf haft rosalega gaman af því að ferðast. Það sem mér hefur fundist skemmtilegast eru þó myndatökurnar og líka bara öll þessi tækifæri sem ég fæ í kringum keppnina; að kynnast nýju fólki, fara í viðtöl og allt þetta. Þetta hefur bara allt verið rosalega gaman en samt öðruvísi en ég átti von á. Ég hafði til dæmis aldrei pælt í að verða fyrirsæta en margir hafa nefnt það við mig eftir keppnina í ágúst að ég ætti að skoða það og ég hef aðeins verið að taka mér verkefni í myndatökum. Það hefur verið nefnt við mig að ef til vill muni einhverjar stórar umboðsskrifstofur hafa samband við mig þar sem ég er hávaxin og grönn, dökkhærð með krullur, ljós á hörund og með blá augu sem þykir greinilega eitthvað skrýtið,“ segir hún og hlær. „En það verður spennandi að sjá hvort eitthvað slíkt komi út úr þessu. Ég er alla vega alveg til í að skoða öll tækifæri sem mér bjóðast.“

Móðursystirin frábær fyrirmynd sem hefur fallegt viðhorf til lífsins
Þegar Hrafnhildur er spurð að því hvort hún eigi sér einhverja fyrirmynd í lífinu stendur ekki á svarinu: „Ég á frábæra fyrirmynd í móðursystur minni, Katrínu, sem hefur mætt mörgum hindrunum í lífinu síðustu árin en ekki látið mótlætið brjóta sig niður heldur sér hún alltaf björtu hliðarnar. Hún er meira eins og systir mín en móðursystir. Það eru þrettán ár á milli hennar og mömmu og ellefu ár á milli mín og Katrínar. Við höfum alltaf verið mjög nánar. Þegar Katrín var 21 árs fékk hún heilablæðingu og hefur síðan fengið nokkrar heilablæðingar sem hafa haft mikil áhrif á hennar líf, og allrar fjölskyldunnar auðvitað. Í ljós kom að þetta er gen sem er í móðurættinni og mamma og litli bróðir minn eru með, sem veldur heilablæðingu. Við vissum ekkert af þessum sjúkdómi fyrr en Katrín fékk fyrstu heilablæðinguna, hún var ung og heilbrigð og þetta var auðvitað alveg ótrúlega skrýtið. Frændi minn, sem er læknir í Bandaríkjunum, komst að því að þetta væri ættgengur sjúkdómur og fann lyf sem mamma og bróðir minn taka á hverjum degi til að koma í veg fyrir að þau fái heilablæðingu. Eftir margar blæðingar er Katrín föst í sínum eigin líkama, er í hjólastól og getur eiginlega ekki talað. Hún var söngkona og kenndi mér á píanó þegar ég var lítil,“ segir Hrafnhildur og þagnar um stund áður en hún heldur áfram:

„Nú málar hún og segir að það sé bara söngurinn hennar þessa dagana. Í stað þess að brotna niður og dvelja í einhverri sjálfsvorkunn lítur hún á björtu hliðarnar og segir til dæmis að það hafi bara verið heppilegt að hún skyldi fá heilablæðinguna því þannig hafi verið hægt að koma í veg fyrir að mamma og bróðir minn myndu lenda í því. Henni finnst hún bara heppin að vera á lífi og hún er bara alveg ótrúlega mögnuð. Hún hefur alla vega breytt sýn minni á lífið og heiminn, það er sko engin spurning. Ég var tólf ára þegar Katrín fékk fyrstu heilablæðinguna og lengi fannst mér ég ekki mega gráta yfir þessu því hún er sjálf svo sterk, en Katrín hefur alltaf sagt að við glímum öll við eitthvað og það sé sama þótt mér kannski finnist ég vera að glíma við eitthvað léttvægt miðað við hana, þá kannski sé það bara alveg jafn stórt þegar öllu sé á botninn hvolft. Hún hefur svo fallegt viðhorf til lífsins og til alls. Hún er mesta fyrirmyndin mín, algjörlega mögnuð manneskja.“

Þetta er brot úr lengra viðtali Vikunnar sem finna má í heild sinni á vef Birtings.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing