Stefán Einar svarar fyrir sig: „Kommar alltaf haft horn í síðu tjáningarfrelsis og lýðræðis“

Óhætt er að segja að Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, hafi átt einhver beittustu og umdeildustu viðtöl við forsetaframbjóðendur í aðdraganda forsetakosninganna.

Hann svarar gagnrýni rithöfundarins Kristínu Helgu Gunnarsdóttur í harðorðum pistli á Facebook þar sem hann segir það ósæmandi fyrir manneskju sem skrifar barna- og unglingabækur á kostnað skattgreiðenda að taka konu sína fyrir og níða af henni skóinn.

Kristín Helga skrifaði gagnrýni á störf Stefáns Einars og sagði hann ná „nýjum ósiðlegum lægðum“ í viðtali sínu við Höllu Hrund Logadóttur forsetaframbjóðanda. Sagði hún að Stefán Einar hafi sjálfur ákveðið að grilla Höllu Hrund á meðan eiginkona hans (Stefáns) og flokksgæðingur sæti í starfi Höllu í boði orkumálaráðherra.

Sakar hún svo Stefán Einar um að hafa engan áhuga á að hlusta á viðmælendur sína heldur sé hans eina markmið að gera viðmælendur sína tortryggilega með fyrirfram skrifaðri áætlun og að keyra yfir þá á sínum „bláa skriðdreka“.

Stefán Einar segir að viðbrögð við viðtölum sínum við frambjóðendur sem og umræður um þau hafi verið slík að hann geti ekki annað en þakkað auðmjúkur fyrir og segir viðbrögðin vera augljóst merki um ánægju almennings með slíka fréttaþjónustu.

Hann segir viðtöl sín gerð til þess að draga fram áhugaverða þætti í karakter og fortíð frambjóðendanna og það aðstoði kjósendur við að hafa sem mesta vitneskju um alla frambjóðendur. Hann segir einnig að það eigi að vera öllu fólki ljóst sem laus sé við hatur i garð náunga síns.

Stefán Einar segir þó að eitt sé rétt hjá rithöfundinum hugumprúða eins og hann kallar hana. Það sé að hann aki svo sannarlega um á skriðdreka og að honum verði ekið á fullu í gegnum allar kosningarnar í þágu tjáningarfrelsis og lýðræðis.

„Kommar á borð við Kristínu Helgu hafa alltaf haft horn í síðu þeirra gilda. Jafnvel þótt þeir viðurkenni það ekki opinberlega.“

Hann endar svo pistilinn á að skjótum föstum skotum á Blaðamannafélag Íslands þegar hann segir að þrátt fyrir árásir Kristínar Helgu og nokkurra annarra „málsmetandi“ menningarfrömuði á sig, konu sína, Spursmál og Morgunblaðið þá heyrist ekki múkk í Blaðamannafélagi Íslands.

Segir hann að slíkt sé undarlegt í ljósi þess að nýlega hafi blaðamannafélagið lýst því yfir að blaðamennska hafi aldrei verið mikilvægari en nú.
„Það er nefnilega með það ónýta félag að það tekur aldrei til varna fyrir Morgunblaðið. Það er vegna þess að Blaðamannafélagið er ekki í blaðamennsku, það er bara í hreinni vinstri pólitík. En það er allt í lagi. Mogginn þarf ekki aðra sér til varnar. Mogginn á sína skriðdreka sjálfur,“ segir Stefán Einar að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram