Auknar líkur á eldgosi með degi hverjum: Virknin færist að Fagradalsfjalli

Þær atburðarrásir sem eru líklegar næstu daga á Reykjanesi eru þær að kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Þá gæti eldgos hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur en líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

Skjálftavirkni yfir kvikuganginum hefur verið með minnsta móti síðan kvikuhlaupinu lauk á laugardag. Heldur meiri virkni er við Fagradalsfjall en þar hafa mælst um 20 skjálftar síðasta sólarhringinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Þar segir að líkanreikningar sýna að um 1,3 milljón rúmmetrar fóru úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í kvikuganginn á laugardaginn 2. mars. Kvikugangurinn sem myndaðist í kjölfarið var um 3 km langur og náði frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Rúmmál kviku sem fór inn í kvikuganginn í þessum atburði var því mun minni heldur en í fyrri atburðum þar sem að um 10 milljón rúmmetrar af kviku mynduðu kvikuganginn.

Áframhaldandi landris mælist á GPS mælum eftir kvikuinnskotið á laugardaginn. Kvikuflæði undir Svartsengi heldur því áfram og líkanreikningar sýna að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnast á sólarhring. Í heildina hafa um 9,5 milljón rúmmetrar af kviku safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi síðan í eldgosinu 8. febrúar.

Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum.

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 4. mars er merkt með rauðu. Þar sést einnig hvaða áhrif kvikuhlaupið laugardaginn 2. mars hafði á söfnunarferlið. Þá fór um 1.5 milljónir rúmmetra af kviku yfir í Sundhnjúksgígaröðina án þess að eldgos var. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu

Auglýsing

læk

Instagram