Brynjar flúrar virka daga en dansar grímuklæddur um helgar

Nýjasti gesturinn í þættinum Blekaðir á hlaðvarpsveitunni Brotkast heitir Brynjar Björnsson sem er húðflúrari og eigandi Studio Creative…og glimmerdansari. Hvað er að vera glimmerdansari. Þeir Dagur og Óli fengu Brynjar til þess að útskýra hvað það þýðir.

„Glimmerdansari hjá Páli Óskari, grímuklæddur hömpari,“ segir Brynjar og hlær. Hann er þó ekkert að grínast. Brynjar er einn af „dönsurum“ Páls Óskars sem fylgja honum á allar skemmtanir, út um allt land og jafnvel út fyrir landsteinana. Brynjar hefur verið hluti af hópnum í 10 ár – lengur en hann hefur verið að flúra.

„Maður gerir þetta því það er svo gaman. Maður er uppi á sviði að fíflast í einhverju fólki og glimmerklæddur. Ég fylgi honum hvert sem er. Kannski mín útrás úr hversdagsleikanum. Set á sig grímu og stokkið upp á svið á einhverju Pallaballi að sprengja confetti-sprengjur. Það er alveg geggjað,“ segir Brynjar en á þó til sögu af því þegar hann tók þátt í fyrsta sinn með Palla-danshópnum.

Vissi ekkert á fyrsta gigginu

„Fyrsta ballið sem ég var á var á Menningarnótt. Erum alltaf tveir en þarna áttu að vera fjórir, átti að vera stór flott Menningarnótt. Ég þekkti strákana sem voru í þessu, tengt samkvæmisdönsunum. „Geturu komið? Það vantar fjórða mann“ og ég sagði bara ekkert mál og spurði hvort við ættum ekki að hittast og læra dansana. Svo leið vikan bara og ekkert gerðist,“ segir Brynjar sem var orðinn, á þessum tímapunkti, vægt til orða tekið stressaður.

„Ég veit ekkert hvað ég er að fara að gera. Hittumst hálftíma fyrr segja þeir. Ég mæti hálftíma fyrir og þeir mæta fimm mínútum í. Þannig að fyrsti dansinn minn með Palla þá horfði ég á næsta mann og reyndi að pikka upp hvernig hann var að dansa.“

Blekaðir er glænýr þáttur á hlaðvarpsveitunni Brotkast en hann er í umsjón húðflúraranna Dags Gunnars og Ólafs Laufdals þar sem þeir fara yfir húðflúrssenuna á Íslandi. Þeir eru báðir reyndir húðflúrarar og fá til sín viðmælendur sem hafa einhverja tengingu við hlúðflúr, ýmist húðflúrara eða einstaklinga sem hafa fengið sér húðflúr. Bæði Dagur og Óli starfa við að húðflúra og hafa ótal skemmtilegar sögur að segja sem þeir flétta saman við sögur viðmælenda sinna í þessum skemmtilegu þáttum.

Hér fyrir neðan er stutt myndbrot úr viðtalinu. Hægt er að heyra það og sjá í fullri lengd inni á hlaðvarpsveitunni Brotkast.

Auglýsing

læk

Instagram