Forsætisráðherra Nýju-Gíneu ósáttur við Joe Biden eftir að hann kallaði þá mannætur

James Marape, forsætisráðherra smáríkisins Papúa Nýju-Gíneu, er ósáttur við Joe Biden Bandaríkjaforseta eftir að Biden sagði sögu um frænda sinn sem hann sagði hafa farist í seinni heimsstyrjöldinni eftir að hafa verið skotinn niður yfir Nýju-Gíneu.

Biden sagði að lík frændans hefði aldrei fundist þar sem mikið hefði verið af mannætum á þessu svæði á þeim tíma og gaf þar með í skyn að hann hafi verið étinn af þessum sömu mannætum.

Marape sagði að vonandi hafi orðalag Bidens verið óhapp því landið hans ætti ekki skilið að vera stimplað á þennan hátt.

Í opinberum skjölum frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna er skrifað að Ambrose J. Finnegan, sem er frændi Biden sem um ræðir, hafi verið í flugvél sem þurfti að lækka flug yfir norðurströnd Nýju-Gíneu vegna vélarbilunar. Báðir hreyflar hafi bilað í lítilli hæð af ókunnum ástæðum en ekkert bendir til að hann hafi verið skotinn niður.

Þegar hún var spurð út í söguna sagði blaðamannafulltrúi Hvíta hússins, Karine Saint-Pierre, að Biden væri mjög stoltur af frænda sínum, sem hafi farist er hann gegndi herþjónustu fyrir land sitt.
„Það er það sem ætti að skipta máli,“ sagði Saint-Pierre að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram