Forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá segir ekkert hreyfast í núverandi ríkisstjórn: „Því miður hefur Ísland látið innviðina grotna niður undanfarin ár“

Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá, er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Hann telur engan vafa leika á því að Grindvíkingar eigi að fá eignir sínar bættar en segir pólitíkina þurfa í framhaldinu að taka stórar ákvarðanir um framtíð Reykjanessins. Hann segir stjórnmálamenn þurfa að marka sér stefnu um hvernig búa megi samfélagið undir frekari náttúruhamfarir á svæðinu.

„Stjórnmálamenn á Íslandi hafa aldrei forgangsraðað – annaðhvort er hallarekstur eða hækkaðir skattar.“

„Grindavíkurmálið er eiginlega ekkert pólitískt mál en það sem verður síðan kannski pólitískt mál á eftir er hvað við ætlum svo að gera. Svo þurfum við að fara að skoða Náttúruhamfaratryggingasjóð, hvernig við ætlum að hafa hann í framtíðinni. Það er að vísu ekkert mjög stórt pólitískt mál en svo koma önnur mál og það er hvernig ætlum við að undirbúa okkur fyrir mögulega aðra náttúruvá á Reykjanesi. Ég held að við þurfum að byggja almennilegan veg alveg í kringum Reykjanesið, stórbæta rafmagnsleiðslur og heitavatnsleiðslur. Samkvæmt þessum fræðingum þá er Reykjanesið ekki að fara að sofna og við erum ekkert að fara þaðan. Við þurfum þá að búa okkur undir það og það gæti verið pólitísk stefnumörkun þar,“ segir Þórður og bendir á að efnahagslegu áhrifin af náttúruhamförunum í Grindavík er þessi gríðarlega fjárfesting sem er framundan.

Uppsöfnuð þörf í samgöngu- og orkumannvirkjum

„Því miður hefur Ísland látið innviðina grotna niður undanfarin ár – við erum með ofboðslega uppsafnaða þörf í samgöngumannvirkjum, orkumannvirkjum – bæði í dreifikerfi og orkuframleiðslu. Þess vegna vill maður fara að sjá einhverja ríkisstjórn sem er tilbúin að taka á þessu. Það hreyfist ekkert í núverandi ríkisstjórn.“

Þórður segir að enginn sé að fara að yfirgefa Reykjanesið og að þær tryggingar sem Grindvíkingar hafi greitt eigi að standast og að þær muni standast. Ekki sé um að ræða neina ölmusu.

Þórður bendir á að allir þeir sem eiga hús í Grindavík hafi verið með skyldutryggingu á vegum ríkisins en að þegar þær tryggingar voru hannaðar sáu menn kannski ekki fyrir alla þá atburði sem gátu gerst.

„Samfélög byggja á tryggingakerfi og þetta er það tryggingakerfi sem við byggðum upp og ef það nær ekki nákvæmlega utan um það sem við ætlum að láta það ná utan um að þá þarf að taka á því,“ segir Þórður.

Enginn að fara að yfirgefa Reykjanesið

„Ef ríkissjóður myndi borga Grindvíkinga út, hvaða áhrif myndi það hafa á efnahag ríkissjóðs og landsins?“ spyr Frosti þá.

„Þetta er auðvitað áfall og er auðvitað vont og þá verða áhrifin vond og verður að einhverju leyti þensluhvetjandi. Ef við setjum þetta aðeins í samhengi að þá gaf fjármálaráðuneytið út einhverja skýrslu þar sem þeir gortuðu sig af því að hafa varið 440 milljörðum í stuðning við fyrirtæki í COVID og að miklu leyti hélt það á floti fyrirtækjum sem áttu sér ekki starfsgrundvöll. Það var meira að segja fundið að því að það ætti að greiða fyrirtækjum styrki sem áður hefðu greitt arð eða voru með eigið fé sem þýðir það að hugmyndin hjá mörgum hafi verið að því meiri skussar sem menn voru í rekstri því meiri styrki ættu þeir að fá sem skekkir auðvitað alla hvata og samkeppni í atvinnulífinu. Við erum að tala um þetta og plús eitthvað meira – einhverja innviði,“ segir Þórður sem vill meina að alltaf vanti uppi á forgangsröðun hér á landi.

„Þetta er trygging sem við sem samfélag stöndum að og þurfum þá að greiða út“

Engin ölmusa heldur tryggingar sem fólk hafi greitt

„Stjórnmálamenn á Íslandi hafa aldrei forgangsraðað – annaðhvort er hallarekstur eða hækkaðir skattar. Það væri hægt að koma til móts við þetta með því að forgangsraða en geri mér litlar vonir miðað við hvernig ástandið er í pólitíkinni í dag að sú verði niðurstaðan.“

Þórður segir að enginn sé að fara að yfirgefa Reykjanesið og að þær tryggingar sem Grindvíkingar hafi greitt eigi að standast og að þær muni standast. Ekki sé um að ræða neina ölmusu.

„Svo getum við líka sagt þetta á einhvern hátt þannig að það að kaupa út Grindvíkinga, að standa við þessa tryggingu sem notabene hafa verið greidd iðgjöld af og fólk hefur verið talin trú um sem mun auðvitað standast að það sé tryggt og hefur því ekki gert aðrar ráðstafanir að verða sér úti um tryggingar, þetta er engin ölmusa. Þetta er trygging sem við sem samfélag stöndum að og þurfum þá að greiða út,“ segir Þórður.

„Við erum ekkert að fara að yfirgefa Reykjanesið.“

Í þessu viðtali ræðir Þórður einnig um þróun umræðunnar á samfélagsmiðlum, stjórnlyndi og dómhörku rétttrúnaðarins og ýmislegt fleira áhugavert. Hlustaðu eða horfðu á það í fullri lengd inni Brotkast.is. Hér fyrir neðan er brot úr viðtalinu.

Auglýsing

læk

Instagram