Hjálmar segir að Sigríður Dögg hafi sjálf beðið um fyrirframgreidd laun

Fyrrum framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands er ekki sáttur við þá umfjöllun sem hann hefur fengið í fjölmiðlum upp á síðkastið og segir núverandi formann félagsins, Sigríði Dögg Auðunsdóttur sjálfa hafa beðið um að laun yrðu fyrirframgreidd.

Í pistli sem kallast Æpandi vanþekking og birtist í skoðanadálki Vísis segir Hjálmar að hann hljóti að þakka stjórn BÍ fyrir að hafa sent svokallaða skýrslu KPMG til félagsmanna BÍ svo þeir geti kynnt sér þá aðför sem hann segir gerða að æru sinni.

Hann segist hafa fengið skýrsluna í pósti frá formanni á föstudaginn 19. apríl og það sé í fyrsta skipti sem hann ber skýrsluna augum.
„Hvorki hinn „óháði bókari“ né heldur KPMG hafði samband við mig allan þann tíma sem þessi úttekt stóð yfir til að leita skýringa eða upplýsinga varðandi þær færslur sem þar eru til umfjöllunar.”

Hjálmar segir að slíkt hefðu þótt eðlileg vinnubrögð ef ætlunin hefði verið að veita honum sanngjarna málsmeðferð.
Hjálmar fer yfir skýrsluna í bréfi sínu og segist einnig hafa beðið um að bréf sitt verði varðveitt í bókum félagsins með skýrslunni, sem nær yfir tíu ára tímabil.

Hann segir mikilvægt að muna að skýrslan sé ekki byggð á sjálfstæðri úttekt KPMG á bókhaldi félagsins heldur á samantekt óháðs bókara sem Hjálmar segir greinilega hafa fengið fyrirmæli um að fara aðeins yfir ákveðin atriði en ekki önnur í bókhaldi félagsins í þeim tilgangi að gera störf hans tortryggileg.

Hjálmar fer ítarlega í marga liði skýrslunnar og segir engar greiðslur hafa verið heimildarlausar og að margar hverjar hafi verið til kaupa á nauðsynjum fyrir félagið.

Hann spyr einnig hvernig hægt sé að halda fram að kostnaður þjónustu við eldri félagsmenn BÍ tengist starfseminni ekki beint og segir öll félög sem vilja standa undir nafni leggja metnað í að þjónusta eldri félagsmenn.

„Föstudagskaffið er því að leggjast af og ekki bara það heldur njóta lífeyrisþegar ekki lengur réttinda í sjóðum félagsins, að því er virðist. Sú ákvörðun virðist tekin fyrirvaralaust, með afturvirkum hætti og án umfjöllunar í stjórn félagsins. Kolólöglegt að öllu leyti.”

Hann segir svo að til viðbótar eigi að svipta lífeyrisþega atkvæðarétti í félaginu samkvæmt tillögu sem lögð var fram á aðalfundi félagsins.

Hjálmar vekur einnig athygli á ökutækjastyrkjum þeim sem hann hefur fengið undanfarin ár vegna starfa sinna. Í þeirri yfirferð segist hann hafa gefið afslátt af kílómetragjaldi í fjölmörg skipti og að upphæðin sem hann fékk fyrir störf sín sé hlægileg í samanburði við raunkostnað á slíkri vinnu.

Hjálmar segir að nánast óskiljanlegt sé hvernig kaup á tölvubúnaði fyrir félagið séu gerð tortryggileg og máluð upp eins og slíkt væri til einkanota fyrir hann sjálfan. Hjálmar segir alla reikninga hafa útskýrt fyrir hvern og til hvers búnaðurinn væri.
„Sú endurgreiðsla sem ég er skráður fyrir á þessu ári upp á 500 þúsund krónur er ekki endurgreiðsla heldur kaup á tölvubúnaði fullu verði sem félagið hafði látið mér í té til þess að ég gæti sinnt erindum félagsmanna heima fyrir og erlendis,” segir Hjálmar.

Hann segist hafa fengið greiddan fjölmiðlastyrk eins og aðrir blaðamenn samkvæmt kjarasamningum og þar væri ekki um neina fyrirframgreiðslu að ræða enda ekkert í samningum sem segi til um hvenær slíkur styrkur skuli greiddur.

„Ég á ekki að njóta minni réttinda en aðrir félagar í BÍ sem vinna samkvæmt kjarasamningum félagsins.”

Hvað útgreidd ritlaun varðar segist Hjálmar hafa fengið greitt fyrir tvö verk en fyrir utan þessi verk hafi hann sinnt slíku í 11 ár án þess að þiggja laun fyrir.
„Af hverju er ekki tekinn saman sparnaðurinn vegna þess í ellefu ár sem hleypur að minnsta kosti á tugum milljóna? Ritlaunin voru því miður skammarlega lág ef eitthvað var.”

Hjálmar kemur svo inn á það sem hann segir vera gert að umtalsefni sem séu fyrirframgreidd laun.

Hann segir að vissulega hafi komið fyrir að hann, eins og aðrir, hafi þurft á fyrirframgreiðslu launa að halda en það hafi yfirleitt jafnað sig næstu mánaðamót á eftir og segir þetta eðlilega þjónustu atvinnurekanda við starfsmenn og sjálf hafi núverandi formaður beðið um að laun yrðu fyrirframgreidd og var það gert án athugasemda.
„Þetta er eðlileg fyrirgreiðsla atvinnurekanda við starfsmenn sína, sem markast meðal annars af því að núverandi formaður bað mig um að fyrirframgreiða laun. Ég varð að sjálfsögðu við því án athugasemda, enda ekki tiltökumál.”

Hjálmar segist þakklátur fyrir það traust sem félagar hans í BÍ hafi sýnt honum og að hann hafi ætíð reynt að sinna sínum störfum af heiðarleika.

Það er því ljóst að Hjálmar er ekki sáttur við þá umfjöllum sem um hann hefur verið í fjölmiðlum undanfarið.

 

Auglýsing

læk

Instagram