Auglýsing

„Í draumaheimi óska ég þess að ég færi aldrei með börnin mín í fangelsi“

Birna Ólafsdóttir var gestur í þættinum Spjallið með Frosta Logasyni og ræddi meðal annars áhrif fangelsisvistar á fjölskyldur. Hún segir að það sé ekki bara aðilinn sem er frelsissviptur sem sitji í fangelsi heldur sitji öll fjölskyldan í raun með honum.

Birna segir að það sé engin spurning að það myndi hjálpa öllum við endurhæfingu ef menn sem væru ekki taldir hættulegir samfélaginu fengju að koma heim og taka þátt í fjölskyldulífinu, sinna börnunum og gefa þeim ást og umhyggju.

Hún segir frá því að nýlega hafi hún litið á myndir af börnum þeirra hjóna og séð hversu mikið þeir hafi breyst á þeim tíma sem faðir þeirra hefur setið í fangelsi. Hann hafi misst af skólasetningum, útskriftum á leikskóla og ekki fengið að mæta í afmæli til þeirra.

Hún segir afmælisveislur ekki vera haldnar fyrir fullorðna heldur börnin og því sé óréttlátt að svipta börnin slíkum tímamótum með föður sínum. Þau skilji ekki af hverju hann geti ekki verið hjá þeim og gráti oft á kvöldin vegna þess. Hún segir þetta erfitt en ekki óyfirstíganlegt fyrir fullorðna fólkið en börnin einfaldlega skilji þetta ekki en sé refsað ekki síður en þeim sem situr inni.

Birna nefnir einnig þá staðreynd að tölfræðilega eru börn sem eiga foreldri sem setið hefur í fangelsi líklegri til að enda þar sjálf og að hægt væri að koma í veg fyrir slíkt með að þurfa ekki að mæta með börnin þangað heldur fá pabba þeirra einfaldlega í heimsókn, þó svo að slíkt væri bara einu sinni í mánuði.

Hún segir að það séu margir sem sitja í opnum fangelsum sem gætu hæglega verið heima fyrir með ökklaband og að gott gæti verið fyrir slíka aðila að þurfa að bera ábyrgð og sinna ákveðnum skyldum.

Hún segir frá því að flestir sem kynnst hafa fangelsiskerfinu sakni mikið þess tíma sem Margrét Frímannsdóttir var yfirmaður þar. Hún hafi haft einstakan og mennskan hátt á hvernig tekið var á málum og ýmiss konar úrræði hafi verið í boði fyrir fangana undir hennar stjórn.

Hún segir að þeim hafi staðið í boði að stunda garðyrkju, smíði í nærsveitum og fengið sjálfsstyrkingarnámskeið meðan Margrét hafi ráðið og segir að allir tali ákaflega fallega um Margréti, en hún var þekkt fyrir að mæta í klefa til að athuga með líðan manna og hafi hugsað vel um þá sem voru í hennar umsjá.

Birna telur að dómar á Íslandi séu í miklu ósamræmi við brot og nefnir að fyrir fíkniefnabrot geti aðili verið að fá allt að fjórum sinnum þyngri dóm en sá sem misnotar börn kynferðislega, þrátt fyrir að flestir séu sammála um að varla sé hægt að ímynda sér viðurstyggilegri glæp.

Hún segir einnig frá að henni hafi verið synjað um störf vegna sakaskrá maka síns og að Happdrætti Háskóla Íslands hafi meðal annars tekið af henni spilakassa sem hún var með á bar sínum vegna maka hennar.

Birna telur það ákveðna hræsni í Háskólanum að setja sig á þann stall að þykjast siðferðislega betri því tekjur spilakassa koma mest frá aðilum sem þjást við fíknisjúkdóma sjálfir.

Þú getur hlustað á brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en til að horfa á allan þáttinn getur þú tryggt þér aðgang að streymisveitunni Brotkast.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing