Sverrir Helgason, sem sat í stjórn ungliðahreyfingar Miðflokksins sem varamaður, vakti mikla athygli eftir að hann lýsti því í hlaðvarpinu Bjórkastinu að gen skipti máli þegar kæmi að getu fólks til að byggja upp samfélög.
Greinin birtist fyrst á MBL.is og vakti mikla athygli.
„Menningu rignir ekki af himnum, menning endurspeglar genamengi samfélaganna sem menningin kemur frá,“ sagði Sverrir í þættinum þar sem Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, var gestur.
Þegar Helgi Hrafn spurði hann hvort þjóðernisuppruni skipti máli, svaraði Sverrir játandi og í framhaldinu spurði Helgi Hrafn Sverri hvort hann væri rasisti.
„Þegar almannatengill Samfylkingarinnar byrjar að ræða greind eftir uppruna, þá er það fræðsla, ekki fordómar“
„Það myndi ekki trufla mig þó ég væri kallaður rasisti, ekki neitt,“ sagði hann í þættinum og í framhaldinu segir meðstjórnandi Sverris að það trufli engan þeirra þó einhverjir kalli þá slíkum nöfnum því það sé löngu búið að gera orðið merkingarlaust með ofnotkun.
Segir af sér og vill tjá sig frjálslega
Í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla sagði Sverrir sig úr stjórn Ungliðahreyfingar Miðflokksins og birti yfirlýsingu á X.
Hann sagði þar að hann vildi halda áfram að tjá sig frjálslega „án þess að það kasti rýrð á gott starf“ innan hreyfingarinnar.
„Ég var nú bara varamaður í stjórn,“ skrifaði hann, „en þar sem ég vil fá að halda áfram að tjá mig og ögra eins og mig langar til án þess að það kasti rýrð á það góða starf sem á sér stað hjá ungum miðflokksmönnum þá segi ég stöðu minni þar lausri.“

Vísar í Kára Stefánsson og Andrés Jónsson
Eftir gagnrýni á samfélagsmiðlum sagði Sverrir að það sem hefði „opnað augu hans fyrir þessu“ hefði verið færsla Andrésar Jónssonar almannatengils, þar sem Andrés fer yfir gáfnafar hjá asísku fólki.

En í færslu sinni birtir Andrés mynd og segir: „Ef ekki væri fyrir innflytjendur frá Víetnam og Tælandi þá værum við líklega enn heimskari. Erum með meðal-greindarvísitölu undir 100.“
Færslan vísaði til lista yfir meðalgreindarvísitölu þjóða þar sem Ísland er með 99,99 stig.

Í ummælum fyrir neðan vísar Sverrir í orð Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem sagði árið 2019 að Íslendingar kynnu að vera „heimskari en gerist og gengur“.

Kári sagði þá: „Þetta er ekkert til að hlæja að. Þetta er raunverulegt. Þú ert annars vegar með erfðaþáttinn og hins vegar umhverfisþáttinn í getu okkar endanlega.“
Fyrir ofan þá færslu skrifaði Sverrir:
„Þú mátt ræða gen og gáfnafar ef þú passar þig að umræðan snúist um það hvað Íslendingar eða annað evrópskt fólk er heimskt og ömurlegt.“

Meðstjórnandi kemur Sverri til varnar
Nútíminn hafði samband við Helga Bjarnason, einn þáttastjórnenda Bjórkastsins.
Aðspurður segir Helgi ljóst að umfjöllunin síðustu daga sé hluti af skipulagðri herferð gegn Miðflokknum.
Hann vísar í fjölda greina sem birst hafa á stuttum tíma í fjölmiðlum á borð við Mbl, Vísi, DV, Nútímanum og Heimildinni sem allar hafa komið út með stuttu millibili og verið mjög gagnrýnar á Miðflokkinn og sendi samantekt af þeim á blaðamann.

Hann gagnrýnir einnig fréttir sem hann segir sérlega illa unnar og bendir á að þar sé meðal annars farið rangt með nöfn þáttastjórnenda, ekki hafi verið hlekkur á þáttinn í upprunalegri frétt og að fréttaflutningur sé stundum einfaldlega óheiðarlegur.
Hann segir þó standa upp úr hversu óheiðarleg fréttamennskan virðist vera en á forsíðu Vísis er sagt að Sverrir hafi gengist við rasisma og sagt af sér í kjölfarið. Helgi segir Sverri einungis hafa sagt að það angri hann ekkert þó fólk kalli hann rasista og bendir einnig á að nokkrum mínútum síðar hafi allir í hlaðvarpinu, Helgi Hrafn meðtalinn, sammælst um að fólk væri ólíkt eftir uppruna.
Vísir hafi því að sögn Helga verið að leggja Sverri orð í munn með fyrirsögn sinni á óheiðarlegan hátt og þó svo að einhverjir kunni að túlka ummæli Sverris sem rasisma hafi hann aldrei gengist við því eins og stendur í fyrirsögn.
Helgi segir einnig að það sé engin tilviljun að þegar Sverrir sé búinn að víkja úr sæti sínu hafi DV byrjað að herja á formann ungra Miðflokksmanna, Anton Svein.
Ekki sama hver segir
Helgi tók einnig upp hanskann fyrir Sverri á X og vitnaði í sömu færslu Andrésar Jónssonar.
Þegar almannatengill Samfylkingarinnar byrjar að ræða greind eftir uppruna – þá er það fræðsla, ekki fordómar.🤔
Kaldhæðnislega klippti hann Afríku út sem er á botni listans.
Ætli að fjölmiðlar hjóli í Andrés? Eða snýst þetta meira um að ráðast á fólk í öðrum flokkum með sömu… https://t.co/ew5kf2V8cY
— Helgi Bjarnason (@bjarnason_helgi) October 30, 2025
„Þegar almannatengill Samfylkingarinnar byrjar að ræða greind eftir uppruna, þá er það fræðsla, ekki fordómar,“ skrifaði hann á X.
„Ætli að fjölmiðlar hjóli í Andrés? Eða snýst þetta meira um að ráðast á fólk í öðrum flokkum með sömu skoðanir?“
„Vísir hafi því með fyrirsögn sinni verið að gera Sverri upp skoðanir á óheiðarlegan hátt“
Yfirlýsing Sverris í heild
Nútíminn náði sambandi við Sverri sem óskaði þess að yfirlýsing frá honum yrði birt en vildi ekki tjá sig að öðru leyti um máli að svo stöddu.
„Í fyrsta lagi þá vil ég þakka bæði mbl og Vísi fyrir sína umfjöllun um mig og þetta mál. En í kjölfar þessarar umfjöllunar þá hef ég fundið fyrir alveg gríðarlegum stuðningi, fengið mörg skilaboð, frá fólki sem ég þekki en líka frá fólki sem þekkir mig ekki neitt og mér þykir alveg óendanlega vænt um það allt saman.
Þá vil ég líka þakka þeim sem tóku baráttuna fyrir mig og fyrir sannleikanum úti um allt, ég fylgdist með þessu öllu og er virkilega þakklátur fyrir. Bæði var þetta fólk sem ég þekki og aðrir sem ég þekki ekki neitt.
Ég vil koma því á framfæri að ég stend við allt það sem ég sagði, en fréttin snerist samt auðvitað um það sem ég sagði ekki – eða að ég hafi semsagt ekki neitað fyrir að vera rasisti.
Málið er að ég veit hver ég er og það nægir mér, mönnum er frjálst að hafa sínar skoðanir á mér, þeir mega nota alla þessa stimpla sem þeir nota til þess að kæfa alla umræðu ef þeir vilja á mig, það truflar mig ekki neitt og ég er ekki að fara að þræta fyrir þá, ég vil heldur ræða málefnin.
Varðandi mína stjórnarsetu hjá ungum Miðflokksmönnum þá var þetta skemmtilegt starf með flottu ungu fólki, en ég fann það fljótt að það ætti ekki vel við mig að þurfa að lúta þessum reglum sem gilda í stjórnmálum, að ég megi ekki ögra eins og ég vilji, skjóta á menn eða grínast með viðkvæm málefni sem jafnan er ekki grínast með. Fyrst og fremst þá lít ég nefnilega á mig sem skapandi listamann, ég ögra og geri grín af hlutum sem fæstir þora eða vilja snerta á og það hefur skapað mér ákveðnar vinsældir.
Ég fann það fljótt að það átti illa við mig að hafa ekki þetta fullkomna frelsi til tjáningar og því hafði ég íhugað áður en þetta mál kemur upp að segja stöðu minni lausri og halda áfram að styðja þetta góða fólk til góðra verka úr fjarlægð.
Svo þegar þessi frétt á mbl kemur þá finnst mér í rauninni liggja beinast við að taka þá ákvörðun bara strax, því ég vildi ekki að þetta færi að bitna á starfinu hjá félögum mínum í stjórninni, þó ég vissi að þetta mál væri auðvitað algjör þvættingur frá upphafi til enda þá þótti mér líklegt að það myndi vekja töluverða athygli.
Svo fór sem fór, ég ætla að halda áfram að tjá mig frjálslega eins og ég hef alltaf gert og styðja mína menn í Miðflokknum úr örlítið meiri fjarlægð en áður.“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.