Ungir drengir köstuðu risastórum klaka fram af göngubrúnni á Miklubraut: Lenti á framrúðu bifreiðar

Þrír ungir drengir köstuðu stórum klaka fram af göngubrú yfir Miklubraut í Reykjavík á sunnudaginn með þeim afleiðingum að hann lenti á framrúðu bifreiðar. Ekki mátti miklu muna að stórslys hlytist af þessu stórhættulega athæfi drengjanna en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir nú eftir þeim eða einhverjum sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni sem segir að „…varla þarf að taka fram að hér er um stórhættulegt athæfi að ræða enda geta ökumenn hæglega missi stjórnina við slíkt og þá með ófyrirséðum afleiðingum.“

Þá telur lögreglan að drengirnir hafi mögulega verið á aldrinum 9 til 11 ára – þeir hafi að minnsta kosti verið á brúnni þegar þetta gerðist – og sagði ökumaðurinn þá hafa kastað klakanum.

„Framrúðan var ónýt eftir þetta og þurfti að skipta henni út fyrir nýja með tilheyrandi kostnaði fyrir ökumanninn, sem var illa brugðið eftir uppákomuna.“

Lögreglan biður þau sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið að hafa samband í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.petur@lrh.is Hér er t.d. átt við upptökur úr myndavélum bifreiða sem var ekið þarna um á sama tíma.

Þá biður lögreglan foreldra og forráðamenn að brýna fyrir börnum sínum þá miklu hættu sem skapast af svona háttalagi.

Auglýsing

læk

Instagram