Vill meina að „Þriðja vaktin“ sé ekkert annað en ranghugmyndir sem fylli heila bók

„Ég held mér í lagi sem karlmaður hvað varðar testósterón sem er gríðarlega mikilvægt. Nú horfi ég á mikið af jafnöldrum mínum í dag sem eru komnir á vissan aldur og þeir fara inn á svokallað breytingarskeið sem er í raun ekkert annað en fall í testósteróni. Og hvað gerist? Þeir breytast í sekki heima hjá sér, fullir af kvíða, drepast úr þunglyndinu með engan fókus, engin snerpa, engin drifkraftur, engin sköpun, ákveðni eða mörk og fyrir vikið er bara rúllað yfir þá. Hver vill svoleiðis? Enginn,“ segir Gunnar Dan Wiium og meinar hvert einasta orð í þættinum „Spjallið með Frosta Logasyni“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast.

„Núna sit ég allan daginn bakvið skrifborð og afgreiði fólk sem þýðir að ég þarf að fara í ræktina og ég þarf að lyfta.“

Gunnar Dan er smiður, hlaðvarpsstjórnandi og pistlahöfundur og ræðir í þessu viðtali vítt og breitt um samfélagsmál eins og þau blasa við honum. Eins og til dæmis karlmennsku, testesterón og breytingarskeið karla en hann upplifir þá umræðu oft á tíðum á miklum villigötum sér í lagi þegar hún er á forsendum kynjafræðinga og femínista…og tekur hann sem dæmi Þriðju vaktina. Hann er hugfanginn af hugtakinu „Karlmennska“ sem hann segist treysta sjálfum sér í að skilja.

Upplifir jákvæða eiginleika út af ræktinni

„Ég veit hver ég er og ég passa virkilega upp á mig. Nú er ég 47 ára gamall og ég er hæfur til þess að skilja hugtakið „karlmennska“ – að minnsta kosti frá mínum bæjardyrum séð. Hvernig ég skilgreini mína karlmennsku og ég tel mig vera hæfan til að skilgreina kvenmennsku konu minnar. Ég er náttúrulega að koma úr bransa þar sem var líkamlegt erfiði allan daginn. Núna sit ég allan daginn bakvið skrifborð og afgreiði fólk sem þýðir að ég þarf að fara í ræktina og ég þarf að lyfta. En það er ég. Ég er með líkamann í það og það hentar mér. Held mér á tánum líkamlega svona og held mér í lagi. Fyrir vikið upplifi ég hugrekki, snerpu, fókus, léttleika og sköpun – það er sköpun í lífi mínu. Þetta er það sem hýsir karlmennskuna,“ segir Gunnar Dan sem hoppaði hæð sína á dögunum þegar hann rak augun í nýstofnaðan hóp á Facebook sem hét „Karlmennskuspjallið.“

„Svo kemur Þorsteinn með þetta spjall, hlaðvarpið. Ég hoppa hæð mína af kæti og ég er að búast við samtali þar sem við karlmenn getum leyft okkur að vera breyskir og ávarpa þá sem og kosti og farið í að skilgreina og koma öðrum að því hvað er að vera heilbrigður karlmaður í dag og það er bara ekki að gerast.“

„Það poppaði upp hópur á Facebook sem hét Karlmennskuspjallið og mér fannst það frábært – að við tækjum umræðuna og stuðlum að heilbrigðri karlmennsku. Svo mjög fljótlega breyttist þetta spjall í nákvæmlega sama ofbeldi og þeir voru að gagnrýna – eins og hjá öfgafeministum. Þetta var bara kvennníð út í gegn og það endaði með því að ég skráði mig úr hópnum. Þetta hafði ekki neitt með heilbrigða karlmennsku að gera. Ef það væri hægt að segja eitruð karlmennska – sem ég trúi bara að sé ekki til heldur frekar skortur á karlmennsku því karlmennska getur aldrei verið eitruð,“ segir Gunnar Dan sem þó bendir á að stundum kemst hann að því að það sem er verið að segja er bara tóm þvæla. Hann tekur Þorstein V. Einarsson kynjafræðing sem dæmi.

„Svo kemur Þorsteinn með þetta spjall, hlaðvarpið. Ég hoppa hæð mína af kæti og ég er að búast við samtali þar sem við karlmenn getum leyft okkur að vera breyskir og ávarpa þá sem og kosti og farið í að skilgreina og koma öðrum að því hvað er að vera heilbrigður karlmaður í dag og það er bara ekki að gerast. Hef hlustað á marga þætti hjá þeim og þetta er mjög akademískt og sprettur upp úr háskólaumhverfinu og þessari kynjafræði. Ég hef oft sagt að ég hlusta sem einfaldur maður, ég bara á gólfinu, smiðurinn, iðnaðarmaðurinn og Ívar á gröfunni og við hlustum á þetta tungumál og vandamálið er að ég skil bara ekkert hvað þau eru að segja því þau eru ekki að tala mannamál. Þau eru að tala einhverja akademíska þvælu sem enginn skilur nema að vera með akademíska orðabók fyrir framan sig.“

Gunnar Dan telur að ef hann er í virkri samkennd að þá er hann alltaf að spegla sig í samfélaginu í kringum sig og það hafi hann gert bæði við hlustun á hlaðvarps þátt Þorsteins V. og þegar Karlmennskuspjallið á Facebook skaut fyrst upp kollinum. Hann hafi fljótt komist að því að um væri að ræða ekkert nema hreinar ranghugmyndir.

Bókin um þriðju vaktina ekkert nema ranghugmyndir

„Ég hef þurft að spegla mig í því og íhuga hvar ég er og hvernig ég sé mig – hver ég í raun og veru er. Oft á tíðum kemst ég að því að það er eitthvað til í þessu og það stuðlar að því að ég tek ákvörðun um að breytast. En svo kemst ég líka oft að því að þetta er bara fokking þvæla og ég þarf ekkert að breytast heldur eru einhverjar algjörar ranghugmyndir í gangi og ber að nefna heila bók sem var skrifuð um „þriðju vaktina.“ Halló Hafnarfjörður. Ég bý með konu og heimilið allt á fullu og við erum með barn, uppgjör á húsinu og við erum öll í vinnu, með áhugamál…það er allt í fríkin gangi. Talað um einhverjar huglægar birgðir konunnar – að hún sé að bera allt þetta. Veistu það bara dreptu mig, í alvörunni,“ segir Gunnar Dan sem skilgreinir karlmennskuna svona…

„Karlmennska fyrir mér er í rauninni ekkert mikið öðruvísi en ég myndi skilgreina kvenmennsku. Þetta er mennska – að ég geti verið í samfélaginu og tek sem dæmi fjölskylduna mína. Að ég geti borið ábyrgð á sjálfum mér og mínum andlega þroska sem er grunnur að félagslegum þroska. Ég get veitt dóttur minni sem er unglingur tilfinningalegt, félagslegt og fjárhagslegt öryggi. Fæðuöryggi, húsnæðislegt öryggi. Ég get hlustað á hana og snerting og nánd er gríðarlega mikilvægur þáttur. Heiðarleiki í sambandi. Heiðarleiki gagnvart konunni minni og gagnvart mínum vinnuveitanda. Skila af mér vinnu sem hann er að borga mér fyrir og í rauninni bara finna út úr því hverjar skyldur mínar eru í samfélaginu.“

Þá ræðir Gunnar Dan einnig uppeldi barna og misvísandi skilaboð úr skólakerfinu sem hann segir foreldra þurfa að hafa hugrekki til að tjá sig um og jafnvel stundum tala gegn ef þannig ber undir. Edrúmennska og 12 sporakerfið ber einnig upp á góma og að lokum ræðir Gunnar Dan við Frosta um hugvíkkandi efni sem hann segir að hafi haft mikil og jákvæð áhrif á sig persónulega þó hann vilji ekki hvetja aðra til að nota þau. Mjög áhugavert spjall sem við mælum eindregið með.

Hér er brot úr viðtalinu en hægt er að horfa og hlusta á það í fullri lengd á vefsíðu hlaðvarpsveitunnar Brotkast.

Auglýsing

læk

Instagram