Rétt skref „þegar maður er stressaður að sýna öðrum.“ – Una Stef ræðir nýja myndbandið

Fréttir

SKE: Í nýjasta myndbandi söngkonunnar Unu Stef, „Like Home,“ spila andstæður stóra rullu (sjá hér fyrir ofan). Aðalleikkona myndbandsins, Jóhanna Axelsdóttir, er, í okkar huga, einskonar táknmynd: ellin sem þráir æskuna, ánauðin sem þráir frelsið, lasleikinn sem saknar heilsunnar, og  vitaskuld  þegar táknmynd þessarar togstreitu sprettur þvert á milli fyrrnefndra andstæða fer allt á versta veg; en hvað er lífið annað en ævilöng málamiðlun á milli skynsemis og flónsku, langana og nauðsynja – þangað til að við deyjum fyrir rest? En hugsanlega er þetta bara staðlaus hugarburður … í tilefni útgáfu myndbandsins heyrði SKE í Unu Stef og spurði hana nánar út í Airwaves, lagið „Like Home“ og góða tónlist.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Una Stef
Ljósmynd: Birta Rán Björgvinsdóttir 

SKE: Já, halló. Hvað er títt?

Una Stef: Það er ekkert nema tíð hamingja í gangi. Eftir-Iceland Airwaves depurðin er að leka af manni og lífið farið að meika sens á ný. Svo er fullt af nýrri tónlist að fæðast og mótast sem ég fæ svo að vinna með besta fólki í heimi sem lætur mann reglulega þurfa að pissa í brækurnar því það er svo fyndið. Það eru mikil forréttindi. 

Eins og allt þetta sé ekki nóg þá er ég líka komin í jólaskap sem hlýtur að vita á gott. Eða kannski alls ekki. Ég segi sem sagt bara allt fínt!

SKE: Gott að heyra. Hvernig gekk á Airwaves og hvað stóð upp úr?

Una Stef: Airwaves gekk ótrúlega vel, við spiluðum sex sinnum bæði on og off venue, kynntumst fullt af skemmtilegu fólki frá alls konar löndum og upp komu ýmis skemmtileg tækifæri. Það sem stendur alltaf upp úr, eftir öll Airwaves, er hamingjan og gleði frá fólki. Það er svo góð stemning í loftinu þessa helgi að það er ómögulegt að smitast ekki af því. Ég vildi óska þess að það væru fleiri Airwaves helgar á ári!

SKE: Þú varst að gefa út myndband við lagið Like Home. Hvað getirðu sagt okkur um myndbandið og lagið?

Una Stef: Þetta lag er mér mjög kært en ég var með fiðrildi í mallanum við að hleypa því út í kosmósinn. Þetta er aðeins öðruvísi sánd (sound) en ég hef verið að vinna með áður en með mér spila snillingar sem eiga það öll sameiginlegt að vera líka dásemlegar mannverur með meiru. Ég held að maður sé að taka rétt skref fyrir sig sjálfan þegar maður er smá stressaður að sýna öðrum, þá er einhver þróun í gangi.

Myndbandið var gert af stelpunum í Andvara: Guðný Rós Þórhallsdóttir og Birta Rán Björgvinsdóttir. Þær áttu hugmyndina að þessari litlu sögu sem er þarna sögð en fyrst þegar Guðný sagði mér hvað hún var að spá þá fór ég bara að skellihlægja því mér fannst þetta svo skrýtið allt saman. Ég ákvað bara að treysta þeim 100% enda eru þær hæfileikabúnt mikil og þær gerðu það sem þær gerðu best: leikstýrðu, skutu og unnu myndbandið eftir sínu nefi og við erum allar mjög sáttar með útkomuna. Held það sé óhætt að segja að það sé stórstjarna fædd en Jóhanna Axelsdóttir, aðalleikkonan, er frábær!

SKE: Hvað er framundan?

Una Stef: Framundan eru meiri upptökur en við (ég og bandið mitt) erum á fullu að útsetja, taka upp og púsla saman í plötu. Svo er alltaf eitthvað spilerí.

SKE: Eitt lag sem allir verða að hlusta á – áður en þeir deyja? Og hvers vegna er umrætt lag svo merkilegt?

Una Stef: Það þurfa allir að heyra Boogie Down með Al Jarreau áður en þeir deyja því það er ómögulegt að finna fyrir neinu nema gleði þegar maður spilar það. Pjúra gleði.

SKE: Hvaða íslenska hljómsveit/tónlistarmaður/kona hrífur þig mest þessa dagana og hvers vegna?

Una Stef: Fyrir mér er Moses Hightower besta band sem klakinn hefur alið af sér í mörg milljón ár. Þeir eru með allan pakkann: tryllt lög, frábæra hljóðfæraleikara, dásamlega texta, toppútsetningar, pælingar og svo eru þeir mjög sætir líka!

(SKE þakkar Unu kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að kynna sér tónlist hennar, sem og tónlist Moses Hightower og Al Jarreau, betur.)

Auglýsing

læk

Instagram