73 þúsund Íslendingar í hóp um næringu og heilsu: „Þetta er ekki megrunarkúr“

Þegar þetta er skrifað eru 73.425 manns komin í hópinn 182 dagar á Facebook. Það er um 20 prósent þjóðarinnar. Í hópnum fer fram ráðgjöf um næringu og heilsu en stofnandinn. Ásgeir Ólafsson, segist hafa 28 ára reynslu úr bransanum, bæði hér heima og erlendis.

Hópurinn hefur stækkað ótrúlega hratt, að hluta til vegna þess að fólk hefur augljóslega gríðarlegan áhuga á efnistökum Ásgeirs en einnig vegna þess að hann setti upp leik í maí þar sem hann lofaði að draga út vinninga fyrir þau sem bæta fimm eða fleiri í hópinn. Sérstök verðlaun voru fyrir þann meðlimi sem bætti flestum við og eru dæmi um einstaklinga sem bættu hundruð vina sinna á Facebook í hópinn.

Ásgeir er byrjaður að birta upplýsingar um næringu í hópnum. Fólk virðist taka vel í upplýsingarnar en ummælin undir færslum hans skipta tugum og lækin þúsundum. „Hann heldur engu til baka og er ómeðvirkur í skrifum sínum um mál sem tengjast breyttum matarvenjum,“ segir í lýsingu á hópnum og fólk virðist kunna að meta það.

Í sömu lýsingu kemur fram að Ásgeir leggi áherslu á almenna skynsemi þegar kemur að matarvenjum. „Hvernig við getum notið hans án þess að þurfa að grípa til örþrifaráða,“ segir þar.

Ásgeir birti langa kynningu á hópnum í gær þar sem hann útskýrir meðal annar nafnið: 182 daga. „Nafnið tengist þessum dögum sem telja hálft ár. Af hverju hálft ár? Þessir 182 dagar er sá tími sem ég miða út frá og tel okkur þurfa til að venda slæmum venjum okkar til þeirra betri,“ segir hann.

„Þetta er samfélag á netinu fyrir þá sem þora að viðurkenna og vilja breyta einhverju í eitthvað betra. En það hefur sýnt sig svo, þessi ár sem ég hef starfað með markmiðasetningu og þjálfun, að nokkrar vikur eru ekki nóg.

Ásgeir segir að fólk þurfi að gefa sér tíma enda geti slæmar matarvenjur verið mjög ávanabindandi. „Sem dæmi hér notast ég við manninn sem er 110 kíló í september og langar að verða 85 kíló fyrir jól, eða eftir rúma 3 mánuði. Hann spyr, get ég það? Hann getur það vel. En það krefst öfga og matarfangelsunar frá lífinu. Svarið til hans og stóra spurningin til hans er þessi: Já, þú getur það, en viltu mögulega vera orðinn 115 kíló í maí næstkomandi? Eftir átta mánuði?“

Ásgeir segir að fyrstu átta árin sem hann leiðbendi fólki hafi hann talið sig kunna allt. „Enginn var betri en ég og ég setti fólk án þess að hugsa mig um í matarfangelsi til þess eins að þeir næðu árangri hjá mér. Ég var hrokafullur í þjálfuninni minni,“ segir hann hreinskilinn.

„Það er einmitt það sem matvælaiðnaðurinn er að gera við þig í dag. Þeir láta þig halda að þeir séu búnir að finna hina einu lausn, auglýsa hana sem holla og góða, og svo kaupum við hana gingkeypt. Ekkert gerist. Allavega ekki það sem við vonumst eftir.“

Ásgeir undirstrikar að fólki þurfi að taka sinn tíma í verkefnið og leggur áherslu á að ekki sé um galdrahóp á netinu að ræða. „Þetta er ekki megrunarkúr sem tekur út sykur úr fæðunni. Alls ekki.

Hann segist vera frjáls penni — engum háður. „[Ég] styð mig við næringarfræði landlæknisembættisins að mestu leyti með notkun prótíns, kolvetni og fitu. En hef einnig mínar eigin hugmyndir. Sem virka. Ásamt fræðum þeirra Lustig og Pollock sem eru mínar fyrirmyndir á þessu sviði,“ segir hann.

„Ég er ekki að ráðast gegn einhverju fyritæki þegar ég birti vörur frá þeim. Ég fæ ekkert borgað frá samkeppnisaðilanum. Ef svo væri þá væri ég að stunda ólöglega ráðgjöf. En ég bendi á vörur sem innihalda að mínu mati of mikinn sykur til miða við það sem við borðum daglega. Það ætla ég að sýna fram á. Ég mun birta mikið af vörum inn á milli pistlaskrifa og vídeóbirtinga.“

Auglýsing

læk

Instagram