Allt sem Justin Bieber snertir breytist í vesen, Landvernd gagnrýnir myndband Major Lazer

Snorri Baldursson, formaður Landverndar, gagnrýnir nýjasta myndband hljómsveitarinnar Major Lazer, sem var tekið upp hér á landi í síðustu viku. Þetta kemur fram á Vísi.

Í myndbandinu sjást dansarar meðal annars traðka á mosa í Eldhrauni

Justin Bieber og danska söngkonan MØ syngja í laginu sem nýtur gríðarlegra vinsælda um þessar mundir. Þrátt fyrir að Bieber hafi verið staddur hér á landi í síðustu viku kemur hann ekki fram í myndbandinu — ekki frekar en meðlimir Major Lazer eða MØ.

Snorri segir í samtali við Vísi að ekkert sé verra fyrir mosann en að hoppa á honum. „Svona mosaþembur eins og er í Eldhrauni eru einhver allra viðkvæmustu vistkerfi landsins,“ segir hann á Vísi.

Það þolir nánast ekkert traðk. Fótspor eins manns haldast alveg hiklaust eitt sumar. Þegar er búið að hoppa svona á mosanum drepst efsta lagið og þá á hann mjög erfitt með að endurnýja sig.

Snorri efast um að framleiðsluteymi myndbandsins hafi verið meðvitað um skaðann sem getur hlotist af svona hegðun og segir þetta því skrifast á óvitaskap. „Þeim finnst þetta örugglega æðislegt og þetta lúkkar vel,“ segir hann á Vísi.

Matt Baron leikstýrði myndbandinu en fyrirtækið Reykjavík Rocks var bandaríska tökuliðinu innan handar og störfuðu fjölmargir íslenskir kvikmyndagerðarmenn við gerð myndbandsins.

Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan

Þó Justin Bieber komi ekki nálægt myndbandinu sem slíku þá virðist hann einstaklega góður í að búa til vesen. Skemmst er að minnast þegar hann kom til landsins og tók upp myndband við lagið I’ll Show You. Þá var hann gagnrýndur fyrir umgengni sína hér á landi.

Auglýsing

læk

Instagram