Argento rekin úr ítalska X Factor vegna ásakana um kynferðisofbeldi

Ítalska leikkonan Asia Argento hefur verið rekin úr starfi sínu sem dómari í ítölsku útgáfu hæfileikaþáttarins X Factor í kjölfar fregna af því að hún hafi beitt ungan leikara kynferðisofbeldi árið 2013. Þetta kemur fram í frétt á vef Variety.

Leikarinn Jimmy Bennett sakaði hana um að hafa brotið kynferðislega gegn honum á hótelherbergi þegar hann var 17 ára og hún 37 ára. Argento hefur neitað því að hafa nokkurn tímann átt í kynferðislegu sambandi með Bennett.

Sjá einnig: Argento neitar ásökunum unga leikarans: Segir að Bourdain hafi ráðlagt henni að borga honum

Hún hefur þó viðurkennt að hafa greitt Bennett um 380 þúsund bandaríkjadali fyrir þögn hans en segir að Anthony Bourdain, kærasti hennar á þeim tíma, hafi ráðlagt henni að borga Bennett fyrir þögn hans til þess að forðast neikvæða athygli almennings.

Hún segir að Bennett hafi beðið hana um peninginn eftir að hún steig fram og sakaði Harvey Weinstein um að hafa nauðgað sér. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni í Los Angeles.

Sjá einnig: Segist hafa skammast sín of mikið og verið of hræddur til að stíga fram fyrr

Variety hefur eftir heimildarmönnum að Sky Italia og FremantleMedia Italia hafi ákveðið að Argento víki úr sæti sínu sem dómari í þáttunum og mun brottreksturinn taka gildi þegar þættirnir verða sýndir í beinni útsendingu.

Hún muni prýða skjái áhorfenda í fyrstu sjö þáttum X Factor en búið er að taka þá upp. Beinar útsendingar þáttarins hefjast 25. október og mun þá nýr dómari verma sæti Argento.

Ítalskir fjölmiðlar segja að fyrrverandi eiginmaður Argento, poppstjarnan Morgan, muni sennilega taka við dómarasætinu af henni.

Argento hefur ekki tjáð sig um brottreksturinn úr X Factor.

Auglýsing

læk

Instagram