Auglýsing

Bæjarstjóri óttast spillingarleit minnihlutans

Minnihlutinn í Garðabæ fær ekki áheyrnarfulltrúa í nefndum vegna þess að bæjarstjórinn óttast að hann reyni að finna spillingu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Fréttablaðið fjallar um ummæli Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar,á málþingi á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga um íbúalýðræði 30. janúar síðastliðinn.

Rætt var um áheyrnarfulltrúa í nefndum og ráðum sveitarfélaga og samkvæmt Fréttablaðinu útskýrði Gunnar að reynslan af samskiptum í Garðabæ hefði orðið til þess að leyfa minni framboðunum ekki að fá áheyrnarfulltrúa.

Við treystum ekki viðkomandi, sjáum ekki ástæðu, af hverju ættum við að gera það? Það er ekkert fallegt að segja þetta þegar við erum að tala um lýðræði, en svona er þetta.

Gunnar bætti við að kannski væri þetta líka gert til að „hafa einhvern aga á umræðunni og hvernig við förum fram við hvort annað, gagnvart fjölmiðlum. Eru minnihlutaflokkarnir, þessi eða hinn flokkur, bara í því að reyna að skapa tortryggni og reyna að finna spillingu eða dreifa einhverju?“

Sjálfstæðisflokkurinn er með sjö fulltrúa af ellefu í Garðabæ, Björt framtíð tvo, Samfylking einn og M-listinn einn. María Grétarsdóttir, fulltrúi M-lista, Fólksins í bænum, segir í Fréttablaðinu að Gunnar bæjarstjóri boði valdníðslu í Garðabæ með því að leyfa ekki að hafa áheyrnarfulltrúa í nefndum.

„Það skýtur skökku við að Gunnar segi þetta um okkur sem erum að reyna að vinna eftir lögum og reglum og gæta hagsmuna bæjarbúa. Við höfum til dæmis farið fram á að það sé farið eftir innkaupareglum og ekki verið að versla við aðila án útboðs,“ segir María í Fréttablaðinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing