Biggi Lögga ósáttur með flugfélagið Primera Air: „Vona að þetta blessaða flugfélag hysji upp um sig buxurnar”

Auglýsing

Fjölmargir farþegar flugfélagsins Primera Air eyddu nóttinni á flugvellinum í Alicante vegna seinkunar. Í frétt Vísis um málið kemur fram að vél Primera Air hefði átt að fara í loftið klukkan 1:05 aðfaranótt sunnudags en að hún hafi ekki farið í loftið fyrr en á níunda tímanum í morgun. Birgir Örn Guðjónsson, einnig þekktur sem Biggi lögga, var einn af farþegum flugsins en hann vandaði flugfélaginu ekki kveðjurnar í Facebook færslu í morgun.

Birgir, sem hefur nú stofnað hóp á Facebook með það að markmiðið að aðstoða farþega til að sækja bætur frá flugfélaginu, segir að vandræðin hafi byrjað í flugi þeirra út til Alicante. Hann hafi ekki fengið sæti sem hann var búin að borga fyrir svo fjölskyldan gæti setið saman.

„Við fengum brottfararspjöld með þeim sætum sem ég hafði borgað fyrir en þegar kom um borð var fólk á þeim stað. Sagði það að flugfreyjan hefði sagt þeim að setjast þarna þar sem þau hefðu ekki fengið sín sæti. Þar sem einn af þeim farþegum var eldri kona sem átti erfitt með gang þá gerði ég að sjálfsögðu ekki meira mál úr því. Ég sendi flugfélaginu samt að sjálfsögðu tölvupóst eftir lendingu þar sem ég fór fram á endurgreiðslu á þessum sætum. Ég hef ekki fengið neitt svar við þeim tölvupósti núna rúmum tveimur vikum seinna,” segir Birgir.

Þegar kom að heimför fengu farþegar sms daginn fyrir brottför um að það yrði rúm klukkustundar seinkun á flugin. Næsta dag komu fleiri sms sem tilkynntu um meiri seinkun.

Auglýsing

„Svo kom síðasta sms-ið sem sagði brottförina eiga að vera á miðnætti, átta tímum á eftir áætlun. Þess má geta að seinna frétti ég að það hefðu ekki allir fengið þessi skilaboð og að sumir hefðu mætt á flugvöllinn á tilsettum tíma, eða klukkan 13:00.”

Birgir segir að enginn frá flugfélaginu hafi haft samband við farþegana og að engin hafi vitað hvað væri í gangi. Á netinu fóru að birtast upplýsingar um að fluginu hefði verið aflýst.

„Fólki var nokkuð létt þegar vélin lenti svo loksins rétt fyrir miðnætti. Það var byrjað að hleypa um borð nánast um leið og síðasti farþeginn fór frá borði og það var greinilega mikið stress á aumingja flugáhöfninni. Flugstjórinn kom meðal annars í kallkerfið og bað okkur um að flýta okkur í sætin svo við kæmust í loftið þar sem verið væri að loka vellinum. Farþegar voru á hálfgerðum hlaupum um vélina ásamt áhöfninni þar til dyrunum var lokað. Farið var yfir öryggisatriðin á hundavaði og svo spændi vélin í loftið, klukkutíma eftir lendingu. Tæpum níu tímum á eftir áætlun.”

Birgir segist vonast eftir því að flugfélagið bæti sinn gang og átti sig á því að það sé til fyrir farþegana en ekki öfugt. Ef það gerist ekki þá vonist hann til þess að íslenskar ferðaskrifstofur færi viðskipti sín annað.

Eins og fyrr segir hefur Birgir stofnað hóp á Facebook þar sem markmiðið er að farþegar geti hjálpast að til þess að nýta rétt sinn á bótum.

„Það er hægt að sækja um þessar bætur í gegnum íslenskra vefsíðu sem tekur 25% af bótunum í eigin vasa plús vask. Það er alger óþarfi að láta einhvern annan fá bæturnar sem þú átt skilið. Þetta getur samt eðlilega vafist fyrir einhverjum og því ætla ég að henda í loftið fésbókarsíðu þar sem við getum rætt þessi mál og hjálpast að við að ganga frá þessu.”

Andri Már Ingólfsson, forstjóri Primera Air segir að flugfélagið hafi glímt við ægilegar tafir alla helgina í samtali við Vísi. Hann segir að flugfélagið harmi þau óþægindi sem farþegar félagsins hafa lent í um helgina.

Í tilkynningu frá Primera Air segir að bilun í vél flugfélagsins í Búlgaríu hafi leitt til keðjuverkandi áhrifa.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram