Drullað yfir Baltasar fyrir að koma út úr skápnum sem femínisti, sakaður um að svíkja lit

Baltasar Kormákur er stoltur af því að hafa komið út úr skápnum sem femínisti. Hann talaði fyrir kynjakvótum í kvikmyndagerð í fyrra og segir menn hafa drullað yfir sig fyrir það. Þetta kemur fram í viðtali við Baltasar í SKE.

Baltasar segist í SKE trúa því að kynjakvótar hafi jákvæð áhrif. „Og [ég] er ákaflega stoltur af því að hafa komið út úr skápnum sem femínisti,“ segir hann.

Að fara úr því að vera hálfgerð karlremba yfir í femínista. Ég hvet alla til þess. Ég var á nýársballi um daginn og þá var einhver að drulla yfir mig fyrir þetta. Þar voru einhverjir karlar að ásaka mig um að hafa svikið lit.

Baltasar veltir fyrir sér hvort menn sjái þessa nýju hlið á honum sem einhvers konar tækifærismennsku.

„Þetta gerir það að verkum að margir karlmenn, sem eru að hugsa á sömu nótum, ganga ekki þennan veg,“ segir hann.

„Að breyta um skoðun er ekki svo hættulegt. En það eru margir karlmenn sem skipta ekki um skoðun eftir þrítugt. Þetta er ástæðan fyrir því að karlmenn fara ekki í endurmenntun í háskólanum – aðeins konur. Það er öllum hollt að endurmeta eigin gildi og hugsa hlutina upp á nýtt.“

Hann segist í SKE þó aldrei hafa verið á móti kvenfrelsi.

„En ég var ekki tilbúinn til þess að stíga fram. Ég á tvær dætur, eina sem er 19 ára og hin er 22 ára. Ég get ekki séð það í hjartanu að þær eigi að sitja við lægri skör en drengirnir mínir. Þetta eru mannréttindi. Ég ætla ekki að vera eins og þeir sem voru mótfallnir kosningarrétti kvenna á sínum tíma.“

Spurður hvort hann telji að hann væri talsmaður þessa viðhorfs ef hann væri ekki faðir tveggja dætra játar hann að föðurhlutverkið hafi spilað stóra rullu.

„Það hefur gert það, sérstaklega að eiga börn af báðum kynjum. Það er bjánalegt að finnast þær eiga minna skilið heldur en þeir,“ segir hann.

„Það er bjánalegt að vera með bert kvenfólk upp á vegg þegar þú átt dætur á sama aldri. Það eru ákveðnir hlutir sem ganga ekki upp í því umhverfi og þú lærir og þroskast og breytist.“

Baltasar segir í SKE að það sé nauðsynlegt að vera í stöðugri sjálfskoðun. „Þetta er svo víða í samfélaginu, til dæmis í húmor. Reglulega er minnst á það hversu erfitt það sé fyrir karlmenn þegar dætur þeirra fara að „date-a.“ Þetta er martröð karlmannsins,“ segir hann.

„Sjálfur hef ég ekki upplifað þetta; þetta angar af feðraveldinu. Eiga feður að vera meira inn í kynlífi dætra sinna en sona? Er það eitthvað að hræðast að þeir njóti kynlífs? Þetta er mikið í bandarískum bíómyndum, til dæmis. Mér finnst þetta afar subbulegt.“

Smelltu hér til að lesa viðtalið við Baltasar.

Auglýsing

læk

Instagram