Edda var með krabbamein út um allt kviðarhol: „Vinkona mín syrgði legið mitt meira en ég“

Edda Dröfn Eggertsdóttir var önnum kafin við að æfa hlaup sumarið 2015. Sama hvað hún reyndi tókst henni ekki að ná markmiðum sínum. Hún passaði vel upp á mataræðið en grenntist óeðlilega mikið. Hún var líka alltaf þreytt.

Þegar leið að haustinu var Edda Dröfn hætt að geta borðað af því að hana verkjaði í magann og þegar hún fór á túr um haustið voru verkirnir mun verri en venjulega.

Hún hafði veitt bungu á vinstri hluta kviðarins athygli en ætlaði fyrst ekkert að gera í því. Vinkona hennar sem er hjúkrunarfræðingur sagði henni „að drulla sér“ upp á heilsugæslu. Hún gerði það og þá komu í ljós þrjú stór æxli á eggjastokkunum.

Edda Dröfn er ein þeirra sem segja sögu sína í tengslum við átak félagsins Krafts sem ber yfirskriftina „Lífið er núna – Það þarf Kraft til að takast á við krabbamein.“

„Þau smita út frá sér, þau eru svo glöð, það er svo gaman, þau líta augun svo björtum augum. Það er vítamínsprauta að hitta þau, maður sér að lífið bara gengur,“ segir Edda Dröfn en hún er mjög þakklát fyrir að hafa kynnst félaginu.

Kraftur hefur það að leiðarljósi að beita sameinunum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Átakinu verður ýtt úr vör með góðgerðartónleikunum á Kexinu í kvöld.

Fjarlægðu legið, báða eggjastokkanna og skröpuðu lífhimnuna

Edda Dröfn greindist með krabbamein í október árið 2015. Eftir að í ljós kom að hún var með æxli á eggjastokknum var hún send í uppskurð þar sem til stóð að taka annan stokkinn. Í framhaldinu átti hún að liggja inni á spítala í einn til tvo daga.

„Þegar þeir opna mig er æxlið til staðar en ég er með krabbamein út um allt; í lífhimnunni, í smáþörmunum og í þindinni. Það var búið að dreifast út um allt kviðarhol. Aðgerðin sem átti að vera tveir klukkutímar varð átta klukkutímar,“ segir Edda Dröfn í samtali við Nútímann.

Báðir eggjastokkarnir voru teknir úr Eddu Dröfn, sem og legið og partur af þörmunum. Þá var lífhimnan skröpuð. Í stað þess að liggja inni á sjúkrahúsi í einn til tvo daga dvaldi hún á gjörgæslu í fjóra daga og eftir það í tvær vikur á sjúkrahúsinu.

Eftir það hófst bataferlið.

„Læknarnir náðu öllu úr í aðgerðinni. Með því að taka æxlin og meinvörpin ná þeir að taka allt sjáanlegt úr mér. Í ljós kemur að ég er með svokallað GIST-krabbamein en við erum svo heppin að það kom lyf við því árið 2005. Ég þarf „bara“ að taka töflur alla ævi og vera í eftirliti hjá lækni en ekki að fara í lyfja- og geislameðferð. Þetta er ólæknanlegt en samt ekki það slæmt,“ útskýrir Edda Dröfn.

Lyfjunum fylgja þó aukaverkanir sem hún þarf að eiga við daglega. Hún fær vöðvakrampa og það myndast mikill bjúgur í krinugm augun og í fótunum. Þá fær hún verki í brjóstið vinstra megin sem koma og fara ásamt öðrum minniháttar aukaverkunum.

Edda Dröfn með syni sínum og systurdóttur á sumargrilli Krafts síðasta sumar

Lífið hafði þó tekið töluverðum breytingum.

„Það er alltaf sagt, þú ert rosalega heppin. Þetta er samt áfall þegar maður lendir í þessu. Maður verður pínu týndur. Áður var ég að hlaupa og var mikil íþróttamanneskja. Mér fannst alveg hræðilegt að lenda á spítala, ég var pínu sett til hliðar, gat ekkert gert,“ segir Edda Dröfn.

Þar sem legið og eggjastokkarnir voru teknir úr Eddu Dröfn í aðgerðinni mun hún ekki geta orðið ófrísk og gengið með barn.

„Ég var fyrir löngu búin að taka ákvörðun um að eignast ekki fleiri börn, þó að ég hafi kannski ekki verið búin að segja það upphátt,“ segir Edda Dröfn en hún á tólf ára dreng.

„Þetta var meira áfall fyrir vinkonu mína. Hún kom með mér til læknisins og grét við hliðina á mér, hún syrgði meira legið mitt en ég,“ segir hún og bætir við að áfallið hefði eflaust orðið meira og öðruvísi ef hún hefði ekki verið búin að eignast eitt barn.

„Þetta var meira áfall fyrir fjölskylduna en sjálfa mig. Fólkið er meira í lausu lofti, veit ekki hvernig það á að haga sér,“ bætir Edda Dröfn við.

Edda Dröfn sinnir hlaupunum vel og stefnir á maraþon í september

Edda Dröfn sinnir hlaupunum vel og stefnir á maraþon í september.

Hún lagði mikla áherslu á að byggja sig vel upp og ná góðum bata eftir aðgerðina. Á spítalanum fann hún bæklinga frá Krafti þar sem félagið var að kynna verkefnin sín.

„Mér leist mjög vel á Fítonskraft, endurhæfingu með sjúkraþjálfara og það er ástæðan fyrir því að ég hafði samband við Kraft,“ segir Edda Dröfn.

Kraftur kom henni í samband við sálfræðing sem gaf henni ráð. Sjálf segist hún aldrei hafa ætlað að leita aðstoðar sálfræðings vegna bataferlisins, hún hafi ætlað að þrjóskast áfram sjálf. Hún er mjög ánægð með að Kraftur hafi beint henni þessa leið og þakklát fyrir að hafa kynnst félaginu.

Hún er enn í endurhæfingu og vinnur nú 75% starf í skjaladeild Þjóðskrár.

„Ég byrjaði að vinna strax í janúar 2016 og fékk að mæta í vinnuna eins og mér hentaði. Ég fór síðan í 50% starf og er núna komin í 75%. Ég er að byggja mig upp líkamlega og vonast eftir því að einn daginn verði ég aftur með sömu orkuna,“ segir Edda Dröfn.

Og markmiðin hennar eru svo sannarlega ekki lítil.

„Ég ætla að hlaupa heilt maraþon með hlaupahópnum mínum í Montréal í Kanada í september. Þetta gefur manni svo mikið, þetta kemur endorfíninu í gang,“ segir Edda Dröfn.

Auglýsing

læk

Instagram