today-is-a-good-day

Einlægur Aron Can leggur spilin á borðið: „Ég hef gert hluti sem ég sé kannski eftir og ég hef gert mistök“

Tónlistarmaðurinn Aron Can sló í gegn í fyrra og frægðarsól hans reis hratt. Í viðtali við Fréttablaðið í dag segist Aron hafa gert mistök en að hann hafi komið sér á rétta braut.

Aron sendi frá sér plötuna Ínótt í vikunni. Í viðtali í Fréttablaðinu í dag segir Aron ekkert til í að neysla fíkniefna fylgi honum en hann viðurkennir að hafa ekki farið hárrétta leið strax, þegar hann sló í gegn. „Ég kunni ekki alveg að vera allt þetta,“ segir hann.

Ég get alveg viðurkennt að ég hef gert hluti sem ég sé kannski eftir og ég hef gert mistök. En sem betur fer náði ég að laga það strax áður en það varð of seint. Ég náði að koma mér á rétta braut og lærði ótrúlega mikið. Ég fór að einbeita mér miklu meira að tónlistinni.

Í Fréttablaðinu segir hann að nýja platan fjalli um það sem hann hefur upplifað á þessu ótrúlega ári sem er liðið frá því að hann sló í gegn.

„Til dæmis þegar ég var alls ekki á góðum stað. Ég fer alveg djúpt inn í það og tímabilið þar sem ég var að koma mér úr vissum málum. Þegar ég var að koma heim úr skólanum og mamma var alltaf með eitthvað nýtt til að spyrja mig um sem hún hafði frétt,“ segir hann í Fréttablaðinu.

„Oft eitthvað alveg fráleitt. Það lét mig smá sjá að þegar þetta var byrjað að hafa áhrif á fjölskylduna mína og móður mína, þá vaknar maður. Þannig að í heildina er þessi plata um allt sem hefur verið að frétta.“

Aron segist hafa fengið hjálp frá fjölskyldu sinni við að rífa sig upp úr ruglinu. „Ég á bestu mömmu í heimi og svo hefur kærastan mín líka hjálpað mikið. Ég á ótrúlega mikið af góðu fólki að,“ segir hann í Fréttablaðinu.

Auglýsing

læk

Instagram