Fimm stórkostleg hitamál sem sjá til þess að Framsókn gleymir aldrei Sveinbjörgu Birnu

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins og flugvallarvina, ætlar að segja sig úr Framsóknarflokknum í dag. Sveinbjörg hefur verið afar áberandi frá því að hún tók að sér oddvitasætið flokksins í borginni í kosningunum fyrir þremur árum.

Í samtali við RÚV segir hún nokkrar ástæður fyrir því að hún yfirgefi Framsókn. „Ég tel mig ekki eiga samleið með flokki sem hefur ekki kjark til að ræða þau mál sem brenna á borgarbúum,“ segir hún og bætir við að hún sé að vísa til gagnrýni flokksfélaga sinna á ummæli um „sokkinn kostnað“ grunnskóla sem taka á móti börnum hælisleitenda.

Nútíminn fer hér yfir litríkan feril Sveinbjargar sem Framsóknarkona.

 

1. Stóra moskumálið

Sveinbjörg var nýtekin við sem oddviti Framsóknar og flugvallarvina þegar Vísir birti frétt sem átti eftir að yfirtaka kosningabaráttuna í Reykjavík. „Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna,“ sagði hún. „Ég hef búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“

2. Djammið

Sveinbjörg Birna ásamt flokkssystrum sínum Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur og Vigdísi Hauksdóttur voru boðflennur í partíi stjórnmála- og hagfræðinema við Háskóla Íslands sem fór fram á Hverfisgötu 33 en skrifstofur Framsóknar eru í sama húsi. Myndband af einhvers konar uppistandi stjórnmálakvennanna í partíinu fór eins og eldur í sinu um internetið en í því sjást þær meðal annars gera grín að moskumálinu.

3. Fékk ekki afmælisköku

Sveinbjörg Birna greindi frá því á Facebook að borgarráð Reykjavíkur kaupi afmæliskökur fyrir borgarráðsmenn þegar þeir eiga afmæli á fundardegi borgarráðs en hafi ekki gert það þegar hún átti afmæli. „Þetta voru bara mistök,“ sagði S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs við Vísi um málið.

4. #gerðiþaðekki

Í janúar 2015 var Gústaf Níelsson skipaður varamaður í mannréttindaráð Reykjavíkur fyrir hönd Framsóknar og flugvallarvina. Skipan Gústafs var gríðarlega umdeild vegna andstöðu hans við múslima. Skipan Gústafs var síðar afturkölluð og Sveinbjörg sagði að um mistök hafi verið að ræða. „Ég hefð átt að Gúggla betur,“ sagðu hún í viðtali í Kastljósinu og úr varð popplag sem sló í gegn á Nútímanum og kassamerkið #gerðiþaðekki fór á flug.

5. Sokkinn kostnaður

Sveinbjörg Birna sagði í viðtali á Útvarpi Sögu fyrr í ágúst að það felist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar. Þá velti hún fyrir sér hvort eðlilegt væri að börn hælisleitenda yrðu sett í sérstakan skóla þar til ákvörðun um hvort fjölskyldur þeirra fái dvalarleyfi liggi fyrir.

Auglýsing

læk

Instagram