Auglýsing

„Hafa lengi langað til Íslands.“

Fréttir

Árið 2017 var einstaklega viðburðaríkt hvað lifandi tónlist í Reykjavík varðar en fjöldin allur af nafntoguðum erlendum listamönnum stigu á svið í borginni í fyrra, þar á meðal Foo Fighters, The Prodigy, Sigrid, Rick Ross, Migos, Young Thug og svona mætti lengi halda áfram að telja.

Árið 2018 fer einnig af stað með krafti; ekki nóg með það að tónlistarhátíðin Sónar Reykjavík sé nýgengin í garð heldur má segja að rokkaðdáendur—sem og tónlistaraðdáendur almennt— víðs vegar um landið geti leyft sér að hlakka til sumarsins í ljósi þess að viðburðafyrirtækið Hr. Örlygur tilkynnti fyrir stuttu að rokksveitin Royal Blood muni stíga á svið í Laugardalshöllinni þann 19. júní.

Royal Blood—sem samanstendur af söngvaranum og bassaleikaranum Mike Kerr og trymblinum Ben Thatcher—komst á sjónarsviðið árið 2014 þegar tvíeykið gaf út sína fyrstu plötu (sem er samnefnd sveitinni) árið 2014. Platan inniheldur vinsæl lög á borð við Out Of the Black, Little Monster, Come On Over og Figure It Out. Síðasta sumar kom svo önnur plata sveitarinnar, How Did We Get So Dark, út og sagan endurtók sig: Hver einasta smáskífa til þessa hefur slegið í gegn. 

Í fréttatilkynningu Hr. Örlygs segir Þorsteinn Stephensen, tónleikahaldari, að íslenskir rokkaðdáendur eigi svo sannarlega von á góðu: 

„Á tónleikum þykir Royal Blood bjóða upp á magnaða upplifun. Ég hef verið í sambandi við þá í talsverðan tíma. Þeir hafa lengi haft áhuga á að koma til Íslands en það er búið að vera svo mikið að gerast hjá þeim að það hefur ekki fundist tími fyrr en núna. Ég þori að lofa að þetta verða magnaðir tónleikar og enginn Íslendingur sem er með einhvern vott af rokki í sér getur látið þetta framhjá sér fara.“

– Þorsteinn Stephensen

Þess má einnig geta að Royal Blood hefur verið ein mest spilaða hljómsveitin á útvarpsstöðinni á X-inu 977, skv. fyrrnefndri tilkynningu, en útvarpsmaðurinn Frosti Logason hafði þetta um sveitina að segja:

„Royal Blood er hljómsveit sem kom fram á sjónarsviðið með svakalegum látum. Ég á erfitt með að nefna sveit sem hefur tekið sér jafn afgerandi stöðu á jafn skömmum tíma. Það komu tvö lög frá þeim 2014, ef ég man rétt, „Little Monster“ og „Out of the Black“ sem voru bæði frábær og fóru strax í dúndrandi spilun hjá okkur á X-inu. Þetta var það fyrsta sem ég heyrði frá þeim og ég varð strax „hooked.“ Síðan þá hefur hver einasta smáskífa frá sveitinni farið á flug. Við erum mikið beðnir um að spila Royal Blood og þeir rúlla nokkrum sinnum á dag á X-inu hvern einasta dag. Ég er viss um að það verði alveg dúndrandi stemmning fyrir þessum tónleikum og ég hlakka mikið til fara á þá sjálfur.“

– Frosti Logason

Miðasala hefst miðvikudaginn 21. mars á Tix.is

(Hér fyrir neðan eru svo fleiri lög eftir Royal Blood á Youtube og Spotify.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing