Flugumferðarstjórar stöðva flug: „Linnulaus græðgi“

Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boðað vinnustöðvanir á morgun og á fimmtudag með tilheyrandi kostnaði fyrir íslenskt samfélag. Um er að ræða þriðja verkfallið sem boðað er til hjá flugumferðarstjórum á síðustu fimm árum. Ef litið er lengra til baka kemur í ljós að flugumferðarstjórar er sú stétt sem hefur boðað til flestra verkfalla á undanförnum tuttugu árum. Meðallaun flugumferðarstjóra eru rúmar ein og hálf milljón króna.

Fjölmargir hafa haft sterkar skoðanir á boðuðum verkföllum flugumferðarstjóra í gegnum tíðina – sem er sögð ein af hæst launuðustu stéttum samfélagsins. Einn þeirra var ritstjórinn Jónas Kristjánsson, sem lést árið 2018. Jónas skrifaði harðorðan pistil um flugumferðarstjóra árið 2010 en þá stefndi stéttin í enn eitt verkfallið.

„Lækkum laun þeirra“

„Óbragð er að stuðningi samtaka opinberra starfsmanna og háskólamanna við landráðamenn í flugumferðarstjórn. Þeir eru með hæst launuðu stéttum og misnota aðferðir öreiganna. Telja sig hafa haustak á þjóðinni, sem þarf stöðugar gjaldeyristekjur af ferðamönnum. Ríkisstjórnin á að hafa tilbúið frumvarp um bann við verkfalli flugumferðarstjóra og um lækkun launa þeirra. Verður vafalaust samþykkt á Alþingi, þar sem þorri þingmanna fyrirlítur verkfallshetjurnar. Frá því ég man eftir mér hafa þeir skorið sig frá öðrum í linnulausri græðgi og misbeitingu verkfallshótana. Lækkum laun þeirra,“ skrifaði Jónas í eftirminnilegum pistli.

En hvað eru flugumferðarstjórar með í laun og hvað er námið langt sem liggur að baki þessum háu launatölum?

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru meðallaun flugumferðarstjóra rúm ein og hálf milljón á mánuði en námið sem liggur að baki menntun þeirra sem slíkra er aðeins tvö ár. Námið er frítt og á meðan verkleg starfsþjálfun fer fram þá fá nemarnir greiddan mánaðarlegan námsstyrk.

Flugumferðarstjórar fá greidd laun frá ISAVIA en fyrirtækið er í eigu íslenska ríkisins og má því segja að þeir séu ríkisstarfsmenn. Námið er einnig á vegum ISAVIA og má því segja að íslenskir skattgreiðendur greiði fyrir nám þeirra en áætlað er að það þurfi að þjálfa sex til átta nýja flugumferðarstjóra árlega.

Meðallaun flugumferðarstjóra skv. Hagstofu Íslands.

Kennarar með miklu lægri laun en miklu lengra nám

Til samanburðar eru meðallaun grunnskólakennara 729 þúsund og laun framhaldsskólakennara 944 þúsund en nám þessara tveggja stétta er hinsvegar tvöfalt lengra en nám flugumferðarstjóra og það þurfa tilvonandi kennarar að greiða úr eigin vasa.

En hvernig skiptist námið?

Nám hjá Isavia ANS í flugumferðarstjórn er frábrugðið flestu námi. Námið skiptist í þrjá hluta; grunnnám, áritunarnám og starfsþjálfun og stífar kröfur eru gerðar um námsárangur í hverjum hluta.

Grunnnám er kennt í staðnámi, byrjar haustið 2023 og lýkur í desember. Grunnnámið samanstendur af námskeiðum um flugleiðsögu, veðurfræði, flugleiðsögukerfi, flugvélar, mannþáttafræði, lög flugleiðsögu, vinnuumhverfi flugumferðarstjóra og fleira.

Áritunarnám hefst í janúar 2024. Áritunarnámið er kennt í dagskóla (8-16) þar sem að nemar eru í fyrirlestrum, æfingum og vinnu í flugstjórnarhermi. Einhver munur er á lengd námsins eftir því á hvaða starfsstöð viðkomandi er valinn á.

Starfsþjálfun getur verið mismunandi lengi eftir því hvernig nema gengur en áætlað er að nemar séu að ljúka náminu haust-vetur 2025. Í starfsþjálfun fer nemi inn á vaktir og starfar undir handleiðslu flugumferðarstjóra. Í starfsþjálfun þarf nemi að uppfylla ákveðin framfaramöt reglulega sem hluta af námi sínu. Á meðan nemi er í starfsþjálfun fær hann greiddan mánaðarlegan námsstyrk.

Eins og áður segir mun vinnustöðvun flugumferðarstjóra hefjast í nótt – það fer fram frá 04:00 til 10:00 og svo aftur á fimmtudaginn á sama tíma. Fjölmargir hafa lýst yfir áhyggjum af fyrirhuguðu verkfalli en þeir sem þekkja til segja að lög verði sett á verkfallið ef það ílengist.

Auglýsing

læk

Instagram