Franski leikarinn Gérard Depardieu sakaður um nauðgun

Franski leikarinn Gérard Depardieu hefur verið sakaður um nauðgun. Ung leikkona kærði Depardieu til lögreglu á mánudag og sagði hann hafa nauðgað sér fyrr í ágústmánuði. Lögmaður Depardieu vísar ásökunum á bug og segir þær tilhæfulausar.

Depardieu er einn þekktasti leikari Frakklands og hefur leikið í kvikmyndum á borð við Cyrano de Bergerac, The Man in the Iron Mask og Ástrík í kvikmyndunum um Ástrík og Steinrík.

Franskir fjölmiðlar segja ónefnda franska leikkonu hafa kært Depardieu til lögreglu á mánudag vegna nauðgunar sem átti sér stað á heimili hans í París fyrr í mánuðinum.

Lögfræðingur leikarans sagði í samtali við fjölmiðla hann sé sannfærður um að leikarinn verði hreinsaður af ásökununum þegar rannsókn málsins lýkur. Hann sagði leikarann vera í áfalli yfir ásökununum og að þær gengju gegn öllu því sem hann trúi á.

Auglýsing

læk

Instagram