Fríða hefur haft hendur í hári fjölda Óskarsverðlaunaleikara, byrjaði ferilinn á Dirty Dancing

Hárgreiðslukonan Fríða Aradóttir fór út til Hollywood fyrir fjörutíu árum til þess að upplifa eitthvað nýtt. Síðan þá hefur hún unnið að myndum á borð við Dirty Dancing, Forrest Gump, Jurrasic Park og La La Land.

Fríða er í viðtali í nýjasta tímariti Glamour. Hún segist hafa farið til Hollywood vegna þess að hana langaði í stærri heim og upplifa eitthvað nýtt. „Og síðan eru liðin 40 ár og hér er ég enn,“ segir hún í Glamour.

Hún hóf ferilinn sinn sem hárgreiðslukona í Hollywood á myndinni Dirty Dancing árið 1986. Í La La Land fékk Fríða það hlutverk að sjá um hárið á aðalleikkonunni og óskarsverlaunahafanum Emmu Stone. Fríða vann einnig til verðlauna fyrir hárið í La La Land en hún fékk meðal annars Guilt-verðlaun, sem eru veitt af fagsamtökum förðunnar- og hárgreiðslumeistara í Hollywood.

Emma Stone er þó langt frá því að vera eina stórstjarnan og Óskarverlaunahafinn sem Fríða hefur séð um árið á en sá listi er orðinn nokkuð langur. Hún hefur séð um hárið á Brad Pitt í Fight Club, Diane Keaton og Meryl Streep, Tom Hanks í Forrest Gump, Meg Ryan, Juliu Louis Dreyfus, Kate Winslet, Edward Norton, Jude Law, Juliu Roberts og fleiri. Hægt er að sjá önnur störf Fríðu á IMDB síðu hennar.

Í Glamour segist Fríða aldrei verða „starstruck“. „Ég ber rosalega mikla virðingu fyrir leikurunum og þeirra vinnu. Þegar ég hitti nýjan stóran leikara hugsa ég meira um að ég vilji standa mig vel,“ segir hún.

„Það er eitthvað sérstakt við að vinna við kvikmynd. Það skapast mjög sérstök stemming þegar maður fer á kvikmyndasett þar sem fólk býr saman í nokkra mánuði, allir að vinna saman að einu markmiði.“

Auglýsing

læk

Instagram