Auglýsing

Pressa á Grindvíkinga að tæma húsin sín: Óánægja með skipulag Kölku

Fasteignafélagið Þórkatla hefur undanfarna daga lagt hart að þeim Grindvíkingum sem hafa selt hús sín til félagsins að tæma þau sem fyrst. Eins og gefur að skilja er mikið af alls kyns dóti og drasli sem þarf að henda þegar fasteignir eru tæmdar og það sýndi sig heldur betur um helgina þegar röðin að endurvinnslu- og gámaplani Kölku í Grindavík náði nánast út úr bænum.

„Við í Kölku höfum ekki alltaf vitað hver staðan er í Grindavík. Býr þar fjöldi manns eða kannski einhverjir tugir?“

Víkurfréttir hafa fylgst náið með gangi mála í Grindavík undanfarnar vikur og mánuði en rætt er við Steinþór Þórðarsson, framkvæmdastjóra Kötlu, á fréttavef miðilsins í dag. Þar kemur fram að borið hefur á óánægju á meðal Grindvíkinga varðandi skipulag í kringum umrædda flutninga. Steinþór segir að Kalka hafi frá upphafi þessara atburða reynt að koma til móts við þarfir Grindvíkinga en það hafi hins vegar ekki alltaf verið skýrt hver þörfin sé.

Vill ekki gagnrýna bæjaryfirvöld

„Við í Kölku höfum ekki alltaf vitað hver staðan er í Grindavík. Býr þar fjöldi manns eða kannski einhverjir tugir? Nú kemur upp sú staða að pressa er sett á íbúa að tæma hús og okkur er ókunnugt um það. Á sama tíma hefur bærinn verið lokað hættusvæði og við höfum hreinlega ekki fengið leyfi til að fara þarna inn,“ segir Steinþór í viðtali við Víkurfréttir.

Þá tekur Steinþór fram að hann vilji ekki gagnrýna bæjaryfirvöld í Grindavík „sem hafa haft ótal gríðarstór mál á sinni könnu“ en segir þó Kölku hafa stundum viljað fá meiri upplýsingar.

„Við gerum það sem við getum til að koma til móts við Grindvíkinga en það má ekki gleyma að við stjórnum þessu ekki öllu. Við höfum þurft leyfi Almannavarna til að komast í að tæma ruslatunnur Grindvíkinga og opna planið. Við þurfum að vinna þetta með yfirvöldum. Við viljum allt fyrir Grindvíkinga gera, það er nógu erfitt fyrir þá að þurfa yfirgefa heimili sín og henda jafnvel stórum hluta búslóðar sinnar því hún kemst ekki fyrir á nýja heimilinu. Þetta væri reyndar ekkert vandamál ef Grindvíkingar þyrftu ekki að tæma húsin sín og ég skil ekki út af hverju þarf að gera það. Enginn mun búa í þessum húsum næstu árin og þessir hlutir myndu geymast vel þar og þá væri áfram þessi tenging bæjarbúa við gamla heimilið sitt, sem væntanlega myndi auka líkurnar á að viðkomandi myndi snúa til baka á einhverjum tímapunkti.“

Nútíminn fékk góðfúslegt leyfi Víkurfrétta til þess að birta loftmynd sem miðillinn tók af endurvinnslu- og gámasvæði Kölku í Grindavík en á henni sést vel hversu mikið af alls kyns úrgangi fellur til.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing