Hagfræðingur segir Landvernd vilja skrúfa niður lífsgæði Íslendinga

„Það eru ein framför sem hafa átt sér stað í umræðunni að mínu mati það er að Landvernd, sem er ein undirdeilda Vinstri Grænna og fjármögnuð af skattgreiðendum sem er ótrúlegt – þau eru núna fyrst nýlega farin að viðurkenna það að til þess að þeirra stefna nái fram að ganga þurfi einfaldlega að skrúfa lífsgæðin tilbaka, þurfi að skrúfa þau niður,“ segir Þórður Gunnarsson hagfræðingur sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.

Þórður lauk framhaldsnámi í orkuhagfræði við BI Norwegian School of Managent og IFP Energies Nouvelles í París. Hann segir ljóst að Íslendingar þurfi að marka sér haldbæra atvinnustefnu og opna augun fyrir því að stóriðja sé mikilvægur þáttur í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Þá segir hann jákvætt að forsvarsfólk Landverndar séu loks farið að viðurkenna að með þeirra stefnu sé nauðsynlegt að draga saman í neyslu og þannig færa lífsgæði Íslendinga marga áratugi aftur í tímann.

Ekkert Tene, bara tína grös og drekka kakó

„Þau eru loksins farin að segja það beinum orðum. Þau eru að segja að við þurfum að taka raforkuna af þessum erlendu stórkaupendum. Erum að fórna ákveðnum gjaldeyristekjum sem við þurfum til dæmis til að flytja inn rafmagnsbíla en það er annað mál. Þetta er þeirra sjónarmið – við þurfum að draga úr neyslu, fara sjaldnar til útlanda og kaupa okkur minna af dóti. Stunda það oftar að tína grös og drekka kakó. Það ætti frekar að vera okkar afþreying frekar en eitthvað annað eins og að fara á Tene. Þetta eru valmöguleikarnir – þeirra skoðun er mjög valid en ég er mjög ósammála henni.“

Frosti veltir því þá fyrir sér hvort það séu ekki að verða vatnaskil í þessum málum.

„Við erum auðvitað rosalega stolt af landinu okkar og þessi fallegu ósnortnu víðerni. Allt tengist þetta Sigurrós og Björk og þetta verður stoltið hjá okkur og Landvernd er um tíma samtök sem margir Íslendingar eru sympatískir gagnvart en svo kemur í ljós að þetta eru brjáluð öfgahryðjuverkasamtök – eru ekki að vera einhver vatnaskil í því þegar fólk áttar sig á því að þetta eru ekki bara allt Björk og Sigurrós. Við þurfum að vakna aðeins og finna lyktina af kaffinu,“ segir Frosti og undir það tekur Þórður.

Enginn þorir að skera niður fjármagnið

„Við höfum það það gott hérna að við getum leyft okkur að nota peninga skattborgara í að vera með tíu manns á einhverri skrifstofu að halda fram þessum sjónarmiðum.“

„Landvernd er fjármögnuð hvernig?“ spyr Frosti.

„Með einhverjum aðildargjöldum og svo eru þeir líka bara að fá fullt af peningum á fjárlögum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson sem var nú umhverfisráðherra á síðasta kjörtímabili hann var formaður Landverndar áður en hann fór í pólitíkina. Þau fá ennþá pening þaðan og það þorir enginn að kötta á þetta því þá er auðvelt að hengja menn fyrir að hata náttúruna. Það er að renna upp fyrir fleirum og fleirum að þetta sé ekki að ganga svona,“ segir Þórður og bendir á að þeir sem séu á móti framförum séu enn á meðal okkar.

„Það eru alltaf einhverjir í þjóðfélaginu sem eru á móti framförum og þeir eru alveg ennþá með okkur í dag.“

Hægt er að horfa og hlusta á allt viðtalið með því að skunda inn á vefsíðu hlaðvarpsveitunnar Brotkast en hægt er að horfa á brot úr því hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Instagram