Auglýsing

Herdís Sigurbergs spilaði handbolta komin fimm mánuði á leið: „Þessi umræða er algjört grín“

Herdís Sigurbergsdóttir, fyrrverandi handboltakona, segir umræðuna um óléttu Hörpu Þorsteinsdóttur, leikmanns kvennaliðs Stjörnunnar í fótbolta, vera algjört grín og á lágu plani. Þjálfarar sem telji að Harpa sé að setja aðra leikmenn í óþægilega stöðu þurfi að líta í eigin barm.

Herdís spilaði allan sinn feril með Stjörnunni. Hún var komin rúma fimm mánuði á leið þegar hún tók sér hlé frá handboltanum en þá hafði hún spilað nokkra leiki með liðinu eftir að hún greindi frá óléttunni.

Sjá einnig: Segir umræðu um óléttu Hörpu Þorsteins á lágu plani, raðar inn mörkum komin 13 vikur á leið

Athygli hefur vakið að Harpa, sem er markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar í ár, tekur enn þátt í leikjum liðsins gengin þrettán vikur með barn sitt. Hún spilaði síðast í leik liðsins við ÍA á þriðjudagskvöld og skoraði hún tvö af þremur mörkum Stjörnunnar.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, sagði í viðtali við Vísi í vikunni að honum finndist Harpa setja aðra leikmenn í óeðlilega stöðu með því að vera enn að spila.

„Þessi umræða er algjört grín og á lágu plani. Það eina sem ég man er að áhyggjur sneru bara að mér. Liðsfélögum mínum fannst þetta eðlilegt og það var frekar litið upp til mín,“ segir Herdís í samtali við blaðamann Nútímans. Hún segir að það sé Hörpu á ákveða hversu lengi hún gefur kost á sér í leiki. „Þetta er skynsöm og flott stúlka í toppþjálfun, hún metur þetta algjörlega sjálf,“ segir Herdís.

Hún bendir á að þjálfarar vilji fá konurnar meiddar inn á völlinn í tíma og ótíma, jafnvel þó að þær glími við meiðsli af ýmsum toga. „Þjálfarnir vilja að þær spili fram í rauðan dauðann. Ég held að þessi þjálfarar ættu að líta í eigin barm,“ segir Herdís.

Herdís spilaði þangað til hún var gengin rúma fimm mánuði en hún hætti þegar henni fannst þungunin vera farin að há henni.

Spilaði bikarleik komin 19 vikur á leið, maðurinn heyrði athugasemdir í stúkunni

Guðríður Guðjónsdóttir, fyrrverandi hand- og fótboltakona, var komin 19 vikur á leið þegar hún spilaði úrslitaleik í bikarkeppni í handboltanum árið 1985. Hún segist sjálf aldrei hafa heyrt fólk gagnrýna hana fyrir að spila ólétt en maðurinn hennar hafi aftur á móti heyrt gagnrýnisraddir í stúkunni þegar hún spilaði leikinn.

„Ég var komin 16 vikur á leið þegar Íslandsmótið kláraðist. Þá vissi fólk að ég var orðin ólétt. Úrslitaleikurinn í bikarkeppninni var eftir. Honum seinkaði og var ég komin 19 vikur þegar ég spilaði þann leik,“ segir Guðríður í samtali við Nútímann en hún spilaði handbolta með Fram á þessum tíma.

„Ég fékk ekki að heyra gagnrýni, ég æfði bara með mínu liði eins og ég hafði gert. Ég var auðvitað komin með smá kúlu en ég ræddi við lækni og þá var mér tjáð að mesta hættan væri fyrstu tólf vikurnar,“ bætir hún við og segir að hún hafi svo sannarlega ekki verið ein, fleiri handboltakonur hafi verið að spila komnar 15 til 17 vikur á leið.

Þjálfarinn tók ákvörðun um að láta hana spila sókn í leiknum. „Ég var í ógeðslega góðu formi. Ég var þyngri á mér en ég skoraði fullt af mörkum. Maðurinn minn sat í stúlkunni og horfði á og heyrði einhverjar athugasemdir en ég heyrði þetta aldrei. Það kom aldrei neitt fram hjá öðrum liðum eða í fjölmiðlum,“ segir Guðríður.

Hún segir að það sé ákvörðun Hörpu hvort og hversu lengi hún gefur kost á sér í leiki. Sjálf segist hún ekki hafa fundið fyrir því í bikarleiknum að aðrir leikmenn tækju öðruvísi á henni. Guðríður segir að þegar leikmenn eru komnir inn á völlinn einbeiti þeir sér að leiknum og hún hafi ekki trú á því að þeir veigri sér við að taka öðruvísi á konunum sem eru óléttar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing