Hrauntunga rennur meðfram varnargörðum austan við Grindavík og í átt að Suðurstrandarvegi

Eldgosið sem hófst kl. 20:23 í gærkvöldi heldur áfram en eftir því sem leið á nóttina dró úr virkninni á gossprungunni og nú gýs á þremur stöðum. Einnig dró verulega úr skjálftavirkninni í nótt og nánast engin skjálftavirkni mældist eftir kl. 3 til morguns, en þá dró einnig úr gosóróa. Þessi þróun svipar mjög til fyrri gosa á Sundhnúksgígaröðinni.

Skömmu eftir miðnætti fór hraun yfir Grindavíkurveg og stefndi í átt að heitavatnslögninni frá Svartsengi. Lítil hreyfing hefur verið á þeirri hrauntungu síðan í nótt og er það nú um 200 m frá lögninni. Önnur hrauntunga rennur meðfram varnargörðum austan við Grindavík og í átt að Suðurstrandarvegi. Viðbragðsaðilar á svæðinu fylgjast með framrásarhraða hraunsins þar en það hefur færst hægt og rólega áfram.

Veðurspáin í dag

Veðurspá í dag er norðaustan 8-13 m/s og rigning með köflum, en dregur heldur úr vindi er líður á daginn. Gasmengun mun þá einkum berast til suðvesturs frá gosstöðvunum. Suðaustan 8-13 m/s og skúrir á morgun og mun mengun þá helst liggja til norðvesturs. Hiti yfirleitt á bilinu 1 til 5 stig við gosstöðvarnar. Talsverð óvissa er um styrk gasmengunar. Sjá gasdreifingarspá hér.

Auglýsing

læk

Instagram