Hryllingsflug frá Kanaríeyjum í gær: „Sjö klukkutíma ferðalag, ekkert vatn á krönum, ekkert afþreyingarkerfi og gulrætur fyrir börnin“

Mikið gekk á í flugi Icelandair frá Gran Canaria í gær. Vægt til orða tekið. Nútíminn hefur rætt við farþega sem voru um borð í vélinni og segja þau að þetta hafi verið algjört „hryllingsflug“ sem þau myndu ekki óska sínum versta óvini. Flugvélin hafi verið troðfull af fjölskyldufólki á leiðinni heim úr jóla- og áramótafríi en við hafi tekið sjö klukkutíma martröð sem farþegarnir eru enn að jafna sig á.

„Í ljós kemur að það eru einhver vandræði með að koma vatni á flugvélina. Við skildum ekkert hvað þeir áttu við með því en það átti síðan eftir að koma í ljós“

„Þetta var bara skelfilegt. Það er ekkert hægt að orða það öðruvísi. Til að byrja með þá komumst við að því að það er ekkert afþreyingarkerfi í þessari flugvél því hún er svo gömul. Það í sjálfu sér er bara ömurlegt þegar við erum að tala um fimm klukkutíma flug og það með börn,“ segir einn farþegi sem Nútíminn ræddi við. Hann segir að röð misgáfulegra ákvarðana hafi leitt til þess hryllings sem hann, fjölskylda hans og troðfull vél af farþegum hafi þurft að upplifa.

„Þegar við erum komin út í vél að þá tók við einhver óskiljanleg bið. Allir voru orðnir frekar pirraðir á þessu ástandi bara strax í byrjun. Í ljós kemur að það eru einhver vandræði með að koma vatni á flugvélina. Við skildum ekkert hvað þeir áttu við með því en það átti síðan eftir að koma í ljós,“ segir farþeginn.

Spöruðu pening með ömurlegri flugferð

Við hafi tekið hátt í tveggja klukkutíma bið í flugvélinni – sem, undir venjulegum kringumstæðum, hefði verið ásættanleg ef um borð væri afþreyingarkerfi. Slíkt kerfi á að vera til staðar í öllum vélum Icelandair. Það var ekki um borð í þessari vél. Annar farþegi sem Nútíminn ræddi við lýsti þessu svona:

„Þetta var eins og atriði úr lélegri grínmynd“

„Ég og konan mín vorum þarna að fljúga heim eftir yndislegt frí en við tók einhver mesta martröð sem ég hef upplifað. Þeir sögðu að það væru vandræði með að koma vatni á vélina og allt gott og blessað með það en þarna var flugvél full af börnum sem eflaust voru orðin mjög óþreyjufull enda var ekkert hægt að horfa á teiknimyndir eða gera nokkurn skapaðan hlut á meðan beðið var þannig að það var stutt í grátur – sem er skiljanlegt enda erfitt að halda börnum rólegum í tvo klukkutíma í einhverju röri ef þú ert ekki með einhverja afþreyingu. Þarna hófst martröðin sem við sáum engan endi á fyrr en við lentum á Íslandi,“ segir maðurinn sem vill meina að ákvarðanataka þeirra sem að fluginu komu hafi snúist um að spara pening.

„Ástæðan fyrir því að flogið var af stað með vatnslausa vél er einfaldlega sú að þeir vildu spara sér peningin.“

Engin gat þrifið á sér hendurnar

„Já. Þetta virðist hafa snúist um peninga. Þannig lítur þetta út. Eftir tveggja klukkutíma bið er okkur sagt að það hafi tekist að setja vatn á vélina og við flugum loks af stað til Íslands. Það var hins vegar lygi. Það var ekkert vatn komið á vélina. Það spurðist frekar hratt út hjá farþegunum að það var ekkert vatn á krönunum. Þannig að þeir sem þurftu til að mynda að gera þarfir sínar á baðherberginu höfðu ekkert vatn til að þrífa á sér hendurnar. Ég trúi ekki öðru en að það eitt og sér sé eitthvað sem heilbrigðiseftirlitið þyrfti að skoða,“ segir maðurinn og heldur áfram.

„Ég hefði alveg þegið einn eða tvo kalda þarna á leiðinni heim til þess að gera þessa ömurlegu ferð eitthvað aðeins auðveldari en nei. Ekkert til. Allt búið.“

„Þú getur rétt ímyndað þér. Full flugvél af fólki og ekkert vatn á krönunum. Hvaða helvítis vitleysa er það? Það er bara hægt að leggja saman tvo og tvo og fá út fjóra. Ástæðan fyrir því að flogið var af stað með vatnslausa vél er einfaldlega sú að þeir vildu spara sér peningin. Ef rétt hefði verið staðið að þessu þá hefði þessu flugi verið aflýst og Icelandair hefði þurft að greiða gistingu undir alla. Nei. Það vildu þeir ekki gera og þess vegna var flogið af stað til Íslands. Algjört rugl,“ segir maðurinn. Hann tekur það fram að þetta hafi bara verið upphafið að hryllingnum.

Ekkert te, ekkert kaffi og engin bjór

„Þetta var eins og atriði úr lélegri grínmynd. Þegar við vorum komin í loftið með ekkert afþreyingarkerfi að þá fóru flugfreyjurnar að bjóða fólki veitingar. Það kom hins vegar í ljós að það var lítið af veitingum í boði. Það var ekkert kaffi, ekkert te og engin bjór. Ég hefði alveg þegið einn eða tvo kalda þarna á leiðinni heim til þess að gera þessa ömurlegu ferð eitthvað aðeins auðveldari en nei. Ekkert til. Allt búið. „Það var svo mikið fjör á leiðinni út,“ voru svörin sem við fengum. Það er náttúrulega ekki allt í lagi. Þarna erum við búin að bíða í tvo tíma í vélinni með ekkert vatn á krönunum. Það er ekki til te, kaffi eða bjór og svo var ekkert afþreyingarkerfi um borð í vélinni,“ segir maðurinn í samtali við Nútímann.

„Boðið var upp á gulrætur og eplasafa.“

Þreytt starfsfólk og pirraðir farþegar

En því miður var martröð farþeganna ekki lokið. Farþegar segja að starfsfólk flugfélagsins um borð í vélinni hafi verið orðið þreytt. Flogið hafi verið af stað með veitinga- og vatnlausa flugvél svo ekki þyrfti að skipta um áhöfn. Meiri bið á flugvellinum hefði þýtt að skipta hefði þurft út starfsmönnum þar sem það hefði þá verið komið yfir hámarksvinnutíma samkvæmt lögum.

„Eins og gefur að skilja var staffið þreytt og pirrað. Ég hefði svo sem verið það líka í þeirra sporum. Ég var það svo sannarlega sem farþegi um borð.“

Fjölskyldumaðurinn sem Nútíminn ræddi við sagði Icelandair hafa kórónað „þetta kjaftæði“ með máltíðinni sem börnum var boðin á þessu sjö klukkutíma löngu ferðalagi.

Í hálfgerðu sjokki

„Þegar keyptir eru flugmiðar fyrir börn að þá fylgir með frí máltíð. Fyrir fimm klukkutíma, hvað þá sjö klukkutíma, langt flug að þá býst maður við einhverju sem fyllir svanga litla maga en nei. Boðið var upp á gulrætur og eplasafa. Það er ekkert hægt að lýsa þessu öðruvísi en svo að þetta er eitt erfiðasta og ömurlegasta flug sem ég hef nokkurn tímann farið í og ég veit að ég tala fyrir hönd fjölmargra þarna um borð enda voru farþegarnir í hálfgerðu sjokki á leiðinni heim. Ég og fjölskyldan erum allavega enn að jafna okkur.“

Nútíminn hafði samband við Icelandair og óskaði eftir upplýsingum um hvað hafi gengið á í flugi félagsins frá Gran Canaria í gær og er beðið eftir svörum.

Auglýsing

læk

Instagram