Hvar er pödduprótínið? Fá ekki að selja orkustangir úr krybbuhveiti á Íslandi

Byrjað var að selja orkustöngin Jungle Bar í Hagkaup 10. janúar. Jungle Bar inniheldur fræ, trönuber, súkkulaði og krybbuhveiti. Já. Hveiti sem er unnið úr þessu:

Í hverri stöng eru um 75 krybbur. Krybburnar innihalda prótín, vítamín og steinefni og eru afar umhverfisvænn prótíngjafi því framleiðsla á þeim er mun sjálfbærari en kjúklinga- eða nautgriparækt þar sem miklu minna landsvæði, vatn og fóður þarf til.

Jungle Bar byrjaði sem rannsóknarverkefni við Listaháskóla Íslands. Búi Bjarmar Aðalsteinsson útskrifaðist sem vöruhönnuður frá skólanum árið 2014 en útskriftarverkefni hans „Fly Factory“, þar sem hann skoðaði sjálfbærni og skordýraát, vakti mikla athygli.

Hann stofnaði svo fyrirtækið Crowbar Protein ásamt félaga sínum Stefáni Atla Thoroddsen. Jungle Bar er ávöxtur vinnu þeirra

photo-original

En aðeins viku eftir að sala hófst á Íslandi var Jungle Bar kippt úr hillunum vegna innleiðingar á reglugerð Evrópusambandsins hér á landi.

Stefán Atli segir í samtali við Vísi að tuttugu þúsund stykki hafi verið framleidd í nóvember. „[Við] komum með hluta framleiðslunnar hingað til lands, því við vildum fagna hérna og bjóða Íslendingum upp á þessa nýjung,“ segir hann.

Það var ekki fyrr en fjórum dögum eftir að við vorum byrjaðir að selja þetta að við fengum símtal frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar og fengum að vita að við þyrftum að taka vöruna úr sölu.

Það var innleiðingar reglugerðar um nýfæði, sem Evrópusambandið tók upp árið 1997, sem var innleidd hér á landi í lok október. Breytingin fór ekki fyrir Alþingi, heldur var hún samþykkt beint af ráðherra.

„Með þessu eina pennastriki ráðherra var lokað fyrir okkar möguleika á því að markaðssetja og selja vöruna okkar á íslenskum markaði,“ segir Stefán á Vísi.

Reglugerðin felur það meðal annars í sér að innflutningur, sala, markaðssetning og ræktun heilla eða unninna skordýra sem nota á sem matvæli sé bönnuð þar til leyfi hefur verið veitt sérstaklega. Stefán segir á Vísi að þeir geti ekki fengið slíkt leyfi fyrr en mögulega eftir tvö ár, þegar reglugerðin verður endurskoðuð á ný.

„Þá mun gluggi opnast fyrir okkur að sækja um leyfi fyrir þessi skordýr sem matvæli. Við vitum ekki hvað það ferli mun taka langan tíma. Við erum orðnir ótrúlega þreyttir á þessu öllu saman,“ segir Stefán á Vísi.

„Nú verðum við að einbeita okkur að því að halda fyrirtækinu gangandi og leita þangað sem tækifærin bíða okkar, og það er í Bandaríkjunum.

Auglýsing

læk

Instagram