Karl Lagerfeld látinn

Tískufrömuðurinn Karl Lagerfeld er látinn, 85 ára að aldri, eftir skammvinn veikindi. Franskir fjölmiðlar greina frá andláti hans í morgun.

Karl Lagerfeld ætti að vera flestum góðkunnugur er tískuhönnuðurinn hafði verið aðalhönnuður og andlit franska tískurisans Chanel í rúma þrjá áratugi. Lagerfeld var einni auðþekkjanlegur á útliti sínu en hvíta taglið og svört sólgleraugun, stífir kragarnir og svört jakkafötin sem hann klæddist höfðu orðið að nokkurskonar einkennisbúningi tískuhönnuðarins.

Lagerfeld var fæddur árið 1933 í Hamborg í Þýskalandi og lét fyrst á sér kveða í tískuheiminum ungur að aldri, þegar hann flutti til Parísar á sjötta áratug síðustu aldar. Síðan þá hefur Lagerfeld verið stórt nafn í heimi tískunnar og hafði hann starfað fyrir bæði Yves-Saint Laurent, Chloe og Pierre Cardin áður en hann tók við listrænni stjórnun tískuhússins Chanel.

Störf hans hjá Chanel þykja nokkuð goðsagnakennd þar sem tískuhúsið hafði legið í lægð eftir andlát stofnanda þess Coco Chanel árið 1971. Lagerfeld átti stóran þátt í endurreisn tískumerkisins með íburðarmiklum tískusýningum og gjörningum.

Lagerfeld stofnaði eigið tískuhús, KARL, ári eftir að hann tók við stjórn Chanel og sá einnig um listræna stjórnun fyrir tískumerkið Fendi. Lagerfeld var þúsunþjalasmiður því auk þess að hanna hátískuföt og fylgihluti á öll kyn og aldurshópa var hann einnig ötull innanhúshönnuður og hannaði útlit þekktra hótela um víða veröld.

Frægt er þegar ímynd Lagerfeld var fengin að láni á hönnun Diet Coke flaskna árið 2010 eftir ummæli Lagerfeld að hann hafi misst rúm 90 kíló á megrunarkúr sem innihélt aðeins epli og Diet Coke. Hönnuðurinn svo upprifinn af framferði Coca-Cola að ári síðar hannaði hann sjálfur þrjár nýstárlegar flöskur fyrir drykkinn. Slíkar flöskur ganga sölum og kaupum á netinu fyrir háar fjárhæðir.

Diet Coke flöskurnar frægu

Fjölmiðlar og tískusýningargestir höfðu orð á því að hinn auðþekkjanlegi Lagerfeld hefði ekki látið sjá sig á tískusýningum Chanel í janúar og höfðu sögusagnir um hrakandi heilsu hönnuðarins borist til eyrna sýningargesta. Í fréttatilkynningu frá Chanel kom fram að hönnuðurinn væri „einfaldlega þreyttur“ og að í fjarvist hans hefði Virgine Viard, listrænn stjórnandi Chanel, verið viðstödd sýningarnar fyrir hans hönd. Þetta var í fyrsta skipti í sögu Lagerfeld sem stjórnanda Chanel sem hann lét sig vanta og hneigði sig ekki á sýningarpallinum í lok tískusýningarinnar.
Lagerfeld var loks lagður inn á spítala á mánudagsmorgun en lést í morgun á spítala í París.

Fyrirsætur, tískublöð, hönnuðir og stjörnur í Hollywood hafa margar hverjar vottað aðstandendum Lagerfeld og Chanel samúð sína á samfélagsmiðlum í dag.

Auglýsing

læk

Instagram