Auglýsing

„Tók fjóra tíma að líma grímuna á Svölu“ – nýtt myndband frá Blissful

Fréttir

SKE: Í gegnum tíðina hafa margir sögufrægir einstaklingar velt grímunni, sem fyrirbæri, fyrir sér. Rithöfundurinn John Updike, til dæmis, líkti frægðinni við grímu sem ,nartar í andlit’ stjörnunnar; spjátrungurinn Oscar Wilde sagði manninn ekki geta talað tæpitungulaust í eigin persónu: ,gefðu honum grímu og hann segir sannleikann,’ ritaði hann; og hnefaleikakappinn, óviðjafnanlegi, Mike Tyson kvaðst stundum flýja raunveruleikann með því að ,klæða sig í gömul föt, setja upp skíðagrímu og betla á götum New York’. Líklega tengjast öll þessi ummæli, á einhvern hátt, nýju lagi tvíeykisins Blissful – sem samanstendur af Svölu Björgvinsdóttur og Einari Egilssyni – en lagið ber titilinn „Find A Way“ og fjallar, að hluta til, um flótta … Í gær hafði SKE samband við pródúsent lagsins og leikstjóra myndbandsins, Einar Egilsson, í tilefni þess að myndbandið við lagið rataði inn á Youtube. Spurðum við hann nánar út í lagið, myndbandið og lífið.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Einar „Mega“ Egilsson

SKE: Þessi gríma sem Svala er með í
myndbandinu. Hver er sagan á bak við hana?

EE: Gríman á að vera smá ádeila á þær grímur sem við mannfólkið setjum upp í okkar nútímaþjóðfélagi. 

SKE: Sem leikstjóri myndbandsins, studdist
þú við einhverjar fyrirmyndir, eða fékkstu innblástur frá
einhverjum öðrum myndböndum / listamönnum?

EE: Nei, ég studdist ekki við neinar sérstakar fyrirmyndir. Þegar ég geri tónlistarmyndbönd þá læt ég lagið rúlla á meðan ég skrifa handritið og sagan verður oftast til út frá texta lagsins – einu orði eða setningu úr laginu. Þetta byrjar alla vega þar. En textinn í Find A Way fjallar um að vera á milli heims og helju. Það varð inspirasjónið að sögunni. Síðan er ég „obsessed“ af gömlum bílum og tryllitækjum; ég fékk þá flugu í hausinn að láta Svölu leika kappaksturskonu sem er að keppa við sjálfan sig í draumkendu umhverfi á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. En ég samdi einnig og pródúseraði lagið ásamt Svölu og Lester Mendez þannig að nálgunin er „extra“ persónuleg held ég.

SKE: Gerðist eitthvað skemmtilegt / í
frásögur færandi við tökur myndbandsins?

EE: Það var náttúrlega magnað að upplifa kraftinn í þessu tryllitæki og allt umfangið í kringum bílinn. En Ingó hjá Kvartmíluklúbbnum sem á dragsterinn sá um alla keyrslu (hahaha!). Síðan tók um fjóra klukkutíma fyrir Beggu hjá Mask Makeup Academy að líma grímuna á Svölu: eina teiknibólu í einu. En Begga er snilllingur í „special FX“ förðun. Þannig að þegar Svala mætti á sett þá var hún strax byrjuð að fríka út vera með þetta framan í sér og þá áttum við eftir að skjóta hana í átta klukkustundir. Þetta var algjört helvíti fyrir hana að hafa þetta framan í sér en hún massaði þetta.

SKE: Blissful kemur fram í fyrsta sinn á
Íslandi (undir þessu nafni) á Sónar í Mars. En hver er
eftirminnilegasta upplifun þín á tonleikum, hvort sem á eigin
tónleikum eður ei?

EE: Magnaðasta upplifunin er án efa að við sáum Prince spila tvisvar í LA. Ekkert sem kemst nálægt því.

SKE: Hvernig lítur árið 2018 út fyrir
Blissful? Mér skilst að það sé EP plata í vændum.

EE: Erum með nokkur lög í vasanum sem við erum að klára og plönum að gefa út næstu mánuðina.

SKE: Hvaða íslenskir listamenn, ef
einhverjir, eru í uppáhaldi hjá Blissful um þessar mundir?

EE: Bara öll þessi flóra sem er í gangi heima. Gaman að sjá hvað við eigum mikið af hæfileikaríkum lagahöfundum, söngvörum, röppurum, tónskáldum, pródúserum, hljóðfæraleikurum, plötusnúðum og tónleikahöldurum. 

SKE: Það furðulegasta sem þú hefur
upplifað á ævinni?

EE: Að lenda í alvarlegu bílslysi með fjölskyldunni minni. Tíminn stoppaði.

SKE: Eitthvað að lokum?

EE: Friður, sjáumst á Sónar.

(SKE þakkar Einari kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að kynna sér tónlist Blissful nánar.)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing