Kemst ekki aftur heim til Bandaríkjanna vegna nýrrar tilskipunar Trump: „Enginn varaði mig við“

Nazanin Zinouri er frá Íran en hefur búið í Bandaríkjunum síðustu sjö ár. Hún ferðaðist til Íran 20. janúar en þegar hún reyndi að komast aftur heim til Bandaríkjanna með vél frá Dúbaí til Washington var henni bannað að koma um borð í vélina.

Allt vegna nýrrar tilskipunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Hann hefur skrifað undir tilskipun sem kemur í veg fyrir að íbúar sjö landa geti komið til Bandaríkjanna. Íran, heimaland Zinouri, er meðal þessara landa.

Örskýring: Trump bannar fólki að koma til Bandaríkjanna – tilskipunin útskýrð

Múslimar eru í meirihluta í löndunum og lítur Trump á íbúa þeirra sem ógn við Bandaríkin. Engu máli skiptir hvort fólk hafi komið áður til Bandaríkjanna eða hvort það er með bandaríska vegabréfsáritun.

Zinouri fjallar um málið á Facebook og hefur færsla hennar vakið gríðarlega athygli enda gefur hún innsýn inn í raunveruleika fólks sem tilskipunin hefur áhrif á. Búið er að deila færslunni tæplega 200 þúsund sinnum.

Zinouri segir að 20. janúar hafi byrjað eins og hver annar dagur. Hún var spennt að ferðast til Íran, enda hefur hún aðeins getað farið þangað einu sinni á ári síðustu ár.

Eftir 28 klukkustunda ferðalag komst hún loks á leiðarenda síðasta mánudag, uppgefin en hamingjusöm. „Ég ætlaði að borða mikið af gómsætum, perskneskum mat og skapa fullt af góðum minningum áður en ég færi aftur til Bandaríkjanna,“ skrifar Zinouri.

Hamingjan var þó ekki lengi við völd. Á miðvikudeginum heyrði hún og fjölskylda hennar sögusagnir um að verið væri að breyta reglum um komu útlendinga til Bandaríkjanna, þar á meðal Íran.

„Áður en ég vissi af var þetta í alvöru að gerast,“ skrifar Zinouri, Trump ætlaði að skrifa undir tilskipunina. Jafnvel þó að hún vildi ekki fara frá fjölskyldu sinni, bókaði hún flugmiða í hraði og flaug til Dúbaí.

Hún var tilbúin að fara um borð í vélina sem átti að flytja hana til Washington en þá fékk hún að vita að af öryggisástæðum fengi hún ekki að fara um borð.

„Enginn varaði mig við þegar ég var að fara frá Bandaríkjunum, enginn pældi í því hvað yrði um hundinn minn eða starfið mitt eða lífið mitt þar. Enginn sagði mér hvað ég ætti að gera við bílinn minn sem er enn á bílastæðinu við flugvöllinn. Eða hvað ég á að gera við húsið mitt eða allar eigur mínar. Þau sögðu það ekki með orðum heldur með gjörðum sínum, líf mitt skiptir ekki máli. Allt sem ég hef unnið fyrir öll þessi ár skiptir ekki máli,“ skrifar Zinouri.

Auglýsing

læk

Instagram