Kvartar undan slæmri þjónustu á sængurlegudeild Landspítalans: „Öllum var drullusama því það var svo mikið að gera hjá þeim í orðasnakki”

Andri Freyr Sveinsson og Guðrún Arndís Aradóttir eignuðust sitt fyrsta barn í lok maí mánaðar. Fæðingin gekk illa og Andri sem er búsettur á Akureyri þurfti að fljúga með son sinn á Landspítalann þar sem hann fékk meðhöndlun. Fæðingin tók á Guðrúnu Arndísi og hún þurfti að fá hvíld á Sjúkrahúsinu á Akureyri áður en hún flaug til feðganna næsta dag. Þau eyddu þremur dögum á meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans en þar segir Andri að þau hafi mætt ömurlegu viðhorfi frá starfsfólki.

Á meðgöngu- og sængurlegudeild er umönnun og eftirlit með og eftir fæðingu eða í kjölfar missis á meðgöngu. Andri segir að Guðrún hafi misst mikið blóð og að fæðingin hafi tekið á. Guðrún féll til að mynda þrisvar sinnum í yfirlið á fyrstu dögunum eftir fæðinguna en Andri segir að engin ljósmóðir hafi skoðað hana á þeim tíma sem þau eyddu á sængurlegudeildinni.

„Engin athugaði með legið hjá henni. Engin athugaði með saumana hennar. Það var ekki einu sinni tekinn blóðþrýstingur. Tala nú ekki um það að hún var mjög blóðlítil eftir þessi átök. Aldrei kom neinn til að gefa henni járn og vítamín,” segir Andri í stöðuuppfærslu á Facebook.

Öllum var drullusama því það var svo mikið að gera hjá þeim í orðasnakki.

Guðrún eyddi fyrstu dögunum eftir fæðingu í hjólastól. Þau þurftu að ferðast á milli sængurlegudeildarinnar og vökudeildarinnar, þar sem sonur þeirra var, á hverjum degi. Andri segir að þetta hafi verið löng leið og að ein ljósmóðir hafi sýnt þeim styttri leið til þess að komast á vökudeildina.

„Þar löbbuðum við í gegnum fæðingardeildina og beint inn í lyftuna upp. Þegar við vorum búin að fara í nokkur skipti á milli beið okkar rosalega köld ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur. Hún húðskammaði okkur fyrir að dirfast að nota þessa leið. Við áttum bara ekkert að vera labba þarna í gegn enda ekkert að okkur. Hjólastóllinn var svo tekinn af henni eftir 2 daga því aðrar konur þurftu að nota hann og því gangan löng fyrir Guðrúnu og ekki máttum við nota styttri leiðina.”

Andri segir að á þessum þremur dögum hafi starfsfólk frá Sjúkrahúsinu á Akureyri haft meiri afskipti af þeim og hafi vitað meira um ástandið heldur en starfsfólkið á Sængurlegudeildinni. Eftir þrjá daga var þeim svo tilkynnt að þau þyrftu að yfirgefa deildina því að það væri ekki pláss fyrir þau lengur.

Þar sem engar sjúkraíbúðir voru lausar fengur þau að gista í eina nótt í viðbót í öðru herbergi en þar fengu þau enga þjónustu og voru beðin um að hætta að trufla starfsfólkið þar sem þau væru útskrifuð af deildinni og ekki lengur í þeirra þjónustu.

„Þegar við fórum í það herbergi hringdum við bjöllunni til að fá aðstoð. Guðrúnu vantaði brjóstapumpu til að koma brjóstamjólkinni til sonar okkar sem lá á hæðinni fyrir ofan. Sú hjúkka byrjaði á því að spurja hver ætti að vera að sjá um okkur, sem við sjálf höfðum auðvitað ekki hugmynd um, enda ekki starfsmenn á þessari deild. Þar næst sagðist hún ætla athuga málið en kom svo aldrei aftur. Við hringdum bjöllunni aftur 45 mínútum síðar. Þá kom ljósmóðir inn og tilkynnti okkur það að við máttum ekki hringja bjöllunni. Við værum útskrifuð af deildinni og ekki lengur i þeirra þjónustu. Einnig tilkynnti hún okkur það að við mættum ekki nota setustofuna sem tilheyrði þessari deild og ættum að halda okkur alfarið vökudeildarmegin á þeim tímum sem við eyddum ekki inni á herbergi. Takk og bless. Vökudeildin hafði þá samband og bauð okkur herbergi í eina nótt eða þar til við fengum íbúð til að vera í.”

Þegar móðir Guðrúnar krafðist svara vegna framkomunnar á deildinni fékk hún þau svör að það væru of litlar upplýsingar til staðar um stöðuna frá Sjúkrahúsinu á Akureyri.

„Þær hefðu þá átt að útvega sér þá sjálfar upplýsinga að norðan í stað þess að nota þetta sem einhverskonar afsökun. Við sjálf kvörtuðum aldrei enda höfðum við nóg að gera og hugsa um uppi á vökudeild þar sem barnið okkar var að berjast fyrir lífi sínu og það var það eina sem að komst að í okkar huga og skipti okkur máli. Þær ástæður sem okkur eru gefnar fyrir því að engin talaði við okkur eru þær að það var mikið að gera. Samt sem áður var staðan undantekningarlaust þannig að þegar við löbbuðum eftir ganginum þá sátu sex til átta starfsmenn með kaffibollana að spjalla saman inn á þeirra kaffistofu,” segir Andri.

„Við viljum líka taka það fram að við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að starfsmenn Landspítalans eru undir miklu álagi, þar sennilega helst ljósmæður og hjúkkur á sængurlegudeild, en þegar að fólk í afar viðkvæmu ásigkomulagi eftir mikið áfall kemur til þeirra, þá er framkoma í garð þessa fólks gríðarlega mikilvæg og þetta vita starfsmenn sem hafa menntað sig sérstaklega í þessum geira. Eitt af því allra sorglegasta við þetta allt saman er það að eftir að við komum heim höfum við heyrt margar mjög svipaðar sögur og upplifun af þessari sængurlegudeild, svo að þetta er alls ekki einsdæmi.”

Stöðuuppfærsla Andra hefur vakið mikil viðbrögð en þar virðist fólk hafa upplifað svipaða framkomu á Sængurlegudeildinni. Í einni athugasemd segir: „Ég tengi mjög mikið við mína upplifun, var stödd þarna fyrir rúmum 14 árum með tvíbura og annar þurfti að vera á vökudeild og hinn sængurkvennadeild. Mín upplifun var hreinlega stríð á milli þessara deilda. Var þarna í 13 ömurlega daga vegna framkomu fjölda starfsmanna. En ég vill einmitt taka það fram að inn á milli var stórkostlegt starfsfólk sem var starfi sínu vaxið. Ótrúlegt að 14 árum seinna hafi hreinlega ekkert breyst.”

Annar segir: „Því miður er þetta ekki einsdæmi hjá ykkur, yngsta barnið okkar fæddist þarna og viðmótið var ömurlegt. Ég þurfti að öskra á menn til að fá athygli þegar konan mín var búin að vera mjög veik eftir keisaraskurð.”

Andri og Guðrún eru komin aftur til Akureyrar með drenginn sinn, Ásgeir Karl. Þau segjast vera þakklát öllum þeim sem hjálpuðu þeim í gegnum þessa gífurlega erfiðu lífsreynslu.

Auglýsing

læk

Instagram