McDonalds er ekki á leiðinni til Íslands vegna þess að þeir eru fúlir yfir hvernig fór síðast

McDonald’s er ekki á leiðinni til landsins á ný þrátt fyrir uppgang í efnahagslífinu og fjölgun ferðamanna. Þetta kemur fram í skriflegu svari skyndibitarisans til Viðskiptablaðsins.

McDonald’s opnaði hér á landi 1993 og staðirnir voru orðnir þrír þegar þeim var lokað árið 2009. Rekstraraðili McDonalds opnaði í kjölfarið skyndibitastaðinn Metro í gamla húsnæði McDonalds í Skeifunni og í Kópavogi.

„Hjá McDonald’s tökum við ýmsa þætti til greina þegar við íhugum að opna á nýju markaðssvæði eða í nýju landi,“ segir í svarinu til Viðskiptablaðsins.

Í augnablikinu höfum við engin áform um að opna veitingastaði á Íslandi.

Heimildir Nútímans herma að fjölmargir íslenskir viðskiptamenn hafi leitað til McDonald’s í von um að fá sérleyfi til að opna staðinn á ný hér á landi. Samkvæmt heimildum Nútímans hafa stjórnendur McDonald’s ekki áhuga á því að koma til landsins þar sem þeir líta svo á að þeir séu brenndir eftir síðustu viðskipti sín hér á landi.

Lokun McDonalds á Íslandi vakti heimsathygli í kjölfar efnahagshrunsins. Fjölmiðlar um allan heim greindu frá lokuninni sem var eflaust það síðasta sem skyndibitarisinn þurfti í efnahagsþrengingunum. Huffington Post setur Ísland meira að segja á lista yfir þjóðir sem hafa bannað McDonalds.

Á vef BBC var greint frá því á sínum tíma að „einstakt flækjustig“ sem fylgir því að stunda viðskipti við „einangraða þjóð með aðeins 300 þúsund íbúa“ hafi ásamt efnahagshruninu orðið til þess að McDonalds yfirgaf Ísland.

Samkvæmt heimildum Nútímans eru stjórnendur McDonalds einfaldlega sárir yfir því hvernig fór hér á landi — svo sárir að þeir hafa engan áhuga á því að horfa til Íslands. Þeir halda því bara áfram að reka sína 36.538 staði í 119 löndum.

Auglýsing

læk

Instagram