Mið-Ísland á svakalegri siglingu: „Fólk hefur gott af því að fá smá hækkaðan púls vegna hláturs“

Mið-Ísland tók á móti 50 þúsundasta gestinum á uppistand grínhópsins á dögunum. Sýningarnar hafa verið í gangi á veturna síðustu ár en Bergur Ebbi Benediktsson segir að miðsalan hafi aldrei gengið jafn vel.

„Og samt erum við varla byrjaðir á fyrirtækjasölunni — en þá fara helgar oft hratt því fyrirtækin kaupa stundum yfir 100 miða í einu,“ segir hann í samtali við Nútíminn.

Og við erum bara sjálfir með grænu derin að hringja út og senda pósta. Þetta er heimilisiðnaður. Mikil stemning. Það er gaman hvernig margir detta í smá doða eftir jólin, en núna eru jólin hjá okkur.

Spurður hvað sé að frétta af hópnum nefnir Bergur nýtt hljóðkerfi sem hópurinn var að festa kaup á. „Ég veit að þetta er minnst spennandi frétt í heimi en Ari er svo spenntur yfir nýja hljóðkerfinu að hann er búinn að semja mjög gott uppistandsefni sem fjallar bara um hljóðkerfi – og beleive it or not – það er ógeðslega fyndið,“ segir Bergur á barmi yfirpeppunar.

Hann segir að heilu kynslóðirnar komi á sýningar Mið-Íslands í Þjóðleikhúskjallaranum. „Fólk með stálpuð börn virðist vera mikið tekið. Einstaka sinnum fylgir efsti ættliðurinn með líka — afar og ömmur. Það hefur yfirleitt gengið vel. Við tölum allavega nógu hátt,“ segir Begur.

„Annars erum við yfirvegaðari nú en oft áður. Við erum með svo gott pizza-spons að við liggjum yfirleitt í deigsvefni baksviðs og svo dúndrum við okkur í gang þegar við förum á svið. Spörum orku fyrir sviðið.“

Bergur býr í Kanada og kemur því ekki fram með hópnum um hverja helgi. Hann er hins vegar staddur á landinu í dag og steig því á svið í gær og stígur aftur á svið í kvöld. „Ég er að koma fram í jakkafötum frá 1977. Það er nett thin-white duke lúkk,“ segir hann stoltur.

„Er mjög ánægður með það og næ að sauma það inn í bitt sem tengist Geirfinnsmálinu. En svo fer maður kannski í eitthvað annað lúkk þegar líður á sýninguna. Maður er ekki sami maðurinn ef maður kemur fram í hvítum strigaskóm og bol eða í þröngum 40 ára gömlum ullarjakkafötum. Bæði hefur kosti og galla, en það er gaman að prófa sig áfram með þetta.“

Hann segir þá félaga stöðugt vera að þróa stílinn. „Björn Bragi er til dæmis að kanna ónumdar lendur með samskipti við salinn. Stór hluti uppistands hans nú er byggður á þéttum díalóg við salinn,“ segir Bergur.

„Hann er meðal annars að standa sig helvíti vel í að æsa landsbyggðina upp gegn höfuðborgarsvæðinu. Það er alltaf einhver spenna þar. En þetta er mjög góðlátlegt og fólk hefur gott af því að fá smá hækkaðan púls vegna hláturs öðru hvoru í stað þess að vera að drepast úr bræði fyrir framan lyklaborðið heima hjá sér.“

Miðasala á sýningar Mið-Íslands fer fram á Tix.is.

Auglýsing

læk

Instagram